136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[12:08]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls en ég gat ekki annað en hrifist af hástemmdri og góðri röksemdafærslu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur þegar hún svaraði fyrri spurningu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Ég ætla ekki að tala um kynjaumræður en kem kannski að þeim síðar.

Hér er lagt til að sett verði á laggirnar Efnahagsstofnun sem starfi á vegum Alþingis. Eins og nú árar í þjóðfélaginu er spurning hvort þetta sé rétti tíminn til að velta fyrir sér að koma á fót nýrri ríkisstofnun. Ég hefði haldið að Alþingi þyrfti að einhenda sér í með hvaða hætti við getum dregið saman ríkisútgjöld án þess að skerða þá félagslegu þjónustu sem nauðsynleg er hverju þjóðfélagi. Íslendingar eiga að tryggja félagslegt öryggi og efnahagslegt sjálfstæði þeirra sem miður mega sín í þjóðfélaginu og það á að vera forgangsatriði. Síðan koma önnur atriði sem við verðum að skoða með öðrum hætti.

Hitt má til sanns vegar færa að á sínum tíma hafi verið rangt að fella niður Þjóðhagsstofnun. Það hefði verið eðlilegt að láta hana starfa áfram og ég lít þannig á að frumvarp þingflokks vinstri grænna feli í sér að með ákveðnum breytingum sé verið að stofna viðlíka stofnun en þingmiðaðri en Þjóðhagsstofnun var á sínum tíma og ég tel það til bóta. Ég tel gott mál að Alþingi eigi þess kost að leita til sérfræðistofnunar eins og þessarar sem á að vinna með hlutlægum hætti að málunum.

Í þjónustu hins opinbera og opinberra fyrirtækja er heill hagfræðingaher. Ekki þarf annað en að vísa til Seðlabankans. En einhvern tíma var sagt að ekkert þjóðfélag hefði farið allt í öngþveiti án hagfræðinga. Það telst ekki til kynjamála og ég skal ekki gera lítið úr hagfræðinni. Þetta var nú sagt af ákveðnu tilefni og Gylfi Þ. Gíslason, sem hafði þetta helst að orði, sat lengi á Alþingi og var bæði ráðherra og hagfræðingur.

Ég tel þetta frumvarp vera til bóta en það þarf hins vegar að gæta þess með allar nýjar stofnanir að þar sé gætt ráðdeildar og hagsýni og þær vaxi ekki úr hömlu heldur geti gegnt því hlutverki sem þær eiga að gegna. Ég tel þetta frumvarp góðra gjalda vert og mun styðja það. En hitt er annað mál að þegar litið er til kynjanna og umræðna sem fóru fram áðan þá geri ég mér grein fyrir því, öndvert við hv. þm. Guðmund Steingrímsson, að ég er karlmaður. Hann virtist vera í vafa um sjálfan sig. En það er mál sem mér kemur ekki við.

Ég get tekið undir hugmyndir og skýringar hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um konur og nauðsyn þess að þær komi að málum. Ég tel að í efnahagskerfi okkar og sérstaklega í bankakerfinu hafi verið of lítið um að konur gegndu æðstu trúnaðarstörfum. Það hefur nánast verið undantekning að kona hafi gegnt einhverju meiri háttar starfi í fjármála- og bankakerfi okkar, ekki einungis núna heldur áratugi aftur í tímann. Mér finnst það verulega miður og er sammála því að þær hafi tvímælalaust margt fram að færa.

Hitt er annað mál að ég lít á fólk fyrst og fremst sem einstaklinga og það fer ekki eftir kynferði hvort fólk er hæft til að gegna stöðu í efnahagslífinu. Ég velti því fyrir mér þegar hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði um gildi kvenna og hvernig þær væru körlum fremri á öllum sviðum hvort uppáhaldsstjórnmálamaður hennar væri Margrét Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, og hvort henni fyndist Thatcher hafa stýrt Bretlandi svo að til alls hins besta hefði mátt horfa.

Menn geta farið aftar í söguna og velt fyrir sér þeim sem Friðrik mikli barðist við. Hann háði baráttu við það sem hann kallaði pilsin þrjú, Austurríkisdrottningu, Katrínu miklu Rússakeisaraynju og Madame de Pompadour sem þá var valdamesta kona Frakklands. Þessar konur voru valdamestu konur Evrópu og stjórnuðu stærstu ríkjum álfunnar en útilokað er að segja að þær hafi fært þjóðir sínar eða efnahagskerfi landa sinna fram á við. Þegar Madame de Pompadour missti stjórnina jaðraði við hungursneyð í Frakklandi. Hægt er að fara fram og til baka í sögunni í þessu sambandi. En það er aukaatriði, aðalatriðið er Efnahagsstofnun og tel ég að það hefði haft mikla þýðingu ef Alþingi hefði haft slíka óháða stofnun sem við hefðum getað leitað til.

Ég hef í þessum ræðustól ítrekað haldið því fram að Seðlabanki Íslands og ríkisstjórnin færu vill vegar þegar kæmi að hagfræði. Ég er ekki menntaður í hagfræði. En ég og fleiri þingmenn sem einnig eru án hagfræðimenntunar höfum sett fram sjónarmið og röksemdir um að kreppa væri að skella á í þjóðfélaginu og bregðast yrði við. Það hefur ekki bara verið fullyrt á síðustu mánuðum, heldur allt síðasta ár. Þá hefði vissulega verið mikils virði fyrir okkur að geta leitað til óháðar, hlutlægrar hagfræði stofnunar til að gefa orðum okkar meira vægi og skjóta vísindalegum stoðum undir það sem við höfum haldið fram að lægi fyrir.

Hægt var að lesa sér til um það í erlendum blöðum eins og ritinu The Economist allt frá árinu 2005 að alvarleg fjármálakreppa nálgaðist. Til dæmis hefur verið bent á gríðarlega hækkun á húsnæðisverði í ríkjum eins og Bandaríkjunum, Bretlandi og Spáni. Það sama hefur gerst hér. Bent hefur verið á veikleika og vanmátt sem hefur verið við að glíma og það að ríkisstjórnir og bankakerfi seðlabanka hafi ekki tekið á málinu. Margir hafa endurflutt þær röksemdir og sjónarmið úr þessum ræðustól vegna þess að margir þingmenn hafa ekki verið sáttir við eða talið að Ísland lyti öðrum efnahags- og hagfræðilögmálum en löndin í kringum okkur. Það hefur að sjálfsögðu komið í ljós.

Þá hefði tvímælalaust verið styrkur í því að Alþingi hefði getað leitað til hlutlægrar, óháðrar efnahagsstofnunar eins og talað er um. Ég tel því að frumvarpið sé allra góðra gjalda vert og tel mikilvægt að það fái afgreiðslu á þessu þingi og mun ljá því atkvæði mitt.