136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[12:18]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsti því yfir í ræðu minni áðan að ég teldi það hafa verið til vansa fyrir íslenskt fjármálalíf hve fáar konur hefðu komist til stjórnunarstarfa í íslensku fjármálalífi. Ég var ekki að tala um þetta mál í neinum hálfkæringi. Ég lít á það sem mjög alvarlegt mál að jafnmikið og -alvarlegt kynjamisrétti hafi viðgengist í fjármálageiranum eins og raun ber vitni undanfarna áratugi. Ég hef talið nauðsynlegt að þarna yrði breyting á og ég hef vissulega horft upp á það mér til mikillar ánægju að mjög stór hópur vel menntaðra, dugmikilla, framsækinna kvenna hefur sótt í hefðbundin karlastörf. Mér finnst ánægjulegt að sjá það gerast vegna þess að þá eru brotnir niður kynjamúrar. Ég veit ekki hvort það er rétt hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að ég sé góður kandídat í femínísk fræði en ég lít fyrst og fremst á þá baráttu sem mannréttindabaráttu. Ég lít svo á að allir einstaklingar eigi rétt á jafnstöðu. Ég sat á sínum tíma sem áheyrnarfulltrúi í ákveðnum þingflokki þegar jafnstöðufrumvarpið var fyrst borið fram. Þá taldi ég það hið mesta framfaramál en þá voru heldur betur aðrar aðstæður í þjóðfélaginu og allt önnur viðhorf og m.a. sterkar kvennahreyfingar sem mæltu á móti því að frumvarpið yrði samþykkt. Ég er ekki að tala um þetta mál í neinum hálfkæringi að öðru leyti en því sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gaf tóninn fyrir. Ég leyfði mér að víkja aftur í söguna þar sem við höfum dæmi um bæði karla og konur sem hafa unnið góð og ill verk. En það er hins vegar þannig, og ég get tekið undir það, að miklu fleiri karlar hafa unnið vond verk. Þeir hafa yfirleitt verið meira við stjórnunina, því miður.