136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[13:31]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Það má kannski orða þetta mál í upphafi þannig að oft hafi verið þörf en nú sé nauðsyn að auka tekjur þjóðfélagsins með þeim ráðum sem við höfum til þess. Það vill svo til að við Íslendingar eigum nægan fiskiskipaflota og við getum mannað hann. Það vill einnig þannig til að verkefni þessa sama fiskveiðiflota eru ekki nægjanleg og vegna þess hversu lítinn þorskafla við höfum ákveðið fyrir yfirstandandi fiskveiðiár mun útvegurinn lenda í vandræðum við að stunda fiskveiðarnar án þess að því fylgi erfiðleikar og jafnvel sóun að því er varðar nýtingu fiskstofnanna. Oft var þörf en nú er nauðsyn og við eigum öll tækin sem þarf til þess að ná í meiri tekjur.

Tillaga okkar þingmanna Frjálslynda flokksins, en hana flytja ásamt mér hv. þm. Grétar Mar Jónsson og Jón Magnússon, fjallar um að auka þorskaflann nú þegar á þessu fiskveiðiári 2008/2009, því fiskveiðiári sem rétt rúmlega mánuður er liðinn af, en eins og menn vita var þorskaflinn fyrir þetta fiskveiðiár 130 þúsund tonn.

Í fyrra var tekin sú ákvörðun að skera þorskaflann niður í 130 þúsund tonn. Rökin sem bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. sjávarútvegsráðherra fóru með í máli sínu fyrir þeirri ákvörðun þá voru meðal annars þau að okkar íslenska þjóðfélag stæði svo vel að engin ástæða væri til annars en skera þorskaflann verulega niður. Svo hagaði til með þjóðinni að hún þyldi verr minnkandi tekjur og minnkandi umsvif. Þannig er það nú, hæstv. forseti.

Ég sakna þess sérstaklega að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli ekki sjá ástæðu til að vera í salnum við þessa umræðu og taka þátt í henni eða að a.m.k. að hlusta á mál stjórnarandstöðunnar sem flytur hér tillögu um að bregðast öðruvísi við en stjórnvöld hafa gert, einkanlega í ljósi þess að eigi mun nú af veita að halda uppi atvinnulífi á Íslandi og afla íslensku þjóðinni tekna svo sem framast er kostur.

Sú alvarlega staða sem við Íslendingar erum nú í með hruni bankakerfisins og fjármálakerfisins undirstrikar nauðsyn þess að við gætum sérstaklega að stöðu fjölskyldnanna í landinu, stöðu fyrirtækja, viðhaldi atvinnurekstrarins og þeim leiðum sem við höfum tiltækar til að ná í nýjar og auknar tekjur. Ég held að allir geri sér grein fyrir því að við verðum að reyna af öllum mætti að auka tekjur okkar og viðhalda atvinnustarfseminni, koma í veg fyrir að atvinnustarfsemin falli í kjölfar þeirra þrenginga sem við höfum gengið í gegnum á fjármálamarkaði. Ég segi því enn: Oft var þörf en nú er nauðsyn og ég undrast hvers vegna sjávarútvegsráðherra sér ekki ástæðu til að vera í salnum. Mér hefði fundist að honum bæri siðferðisleg skylda til þess undir þeim kringumstæðum sem nú eru. Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta að hann láti alla vega hæstv. sjávarútvegsráðherra vita af umræðunni, hafi hann ekki þegar heyrt um að hún færi fram eftir hádegið í dag. Auðvitað getur hæstv. sjávarútvegsráðherra verið að hlýða á okkur einhvers staðar annars staðar. En hvað um það, ég ætla samt að ræða þetta mál út frá þeirri alvarlegu stöðu sem við erum í varðandi atvinnustarfsemi í landinu og hversu mikla þörf við höfum fyrir allar þær tekjur sem við mögulega getum náð í. Í tillögu okkar er vissulega lagt til að ná í nýjar tekjur.

Tillagan fjallar um að þegar á þessu fiskveiðiári verði sett 40 þúsund tonn beint inn í aflamark allra skipa hvort sem það er þorskaflamark krókabáta eða aflamark í hinu svokallaða stóra kerfi. Þá vantar 50 þúsund tonn upp á þá tillögu sem við gerum um að auka heildarþorskaflann um 90 þúsund tonn á fiskveiðiárinu eða í 220 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Við leggjum til í greinargerð með tillögunni að þau 50 þúsund tonn sem ekki er lagt til að komi strax inn í aflahlutdeildarkerfið verði sett í sérstakan farveg. Þeim verði ráðstafað til leigu um viðskiptamarkað utan við aflakerfið og ríkið taki til sín þær tekjur og megi ráðstafa þeim milli ríkis og sveitarfélaga. Eigi mun nú af veita í þeirri ábyrgð sem ríkið tekur á sig í þrengingum þessum og við höfum jafnframt heyrt um stöðu sveitarfélaganna sem mörg hver eru skuldsett. Þau hafa tekið fé að láni í erlendri mynt og sjá engan veginn hvernig þau geta ráðið við það, að ég tali ekki um fjölskyldurnar í landinu sem einnig hefur verið ráðlagt af mörgum að taka lán í erlendri mynt.

Hæstv. forseti. Við erum sem sagt að leggja tvennt til: Annars vegar að auka þorskaflann í heild sinni um 90 þúsund tonn á þessu fiskveiðiári sem mundi geta gefið okkur 40–50 milljarða í nýjum tekjum. Það fer vissulega eftir hreyfingu gengis og hreyfingu afurðaverðs á erlendum mörkuðum. Við sjáum að verð á hrávöru er að lækka í þeim þrengingum sem heimurinn er nú í og það kann vel að fara svo þegar kaupmáttur fólks minnkar, ekki bara hjá okkur heldur einnig í öðrum löndum, að sú gæðavara sem hefur verið dýrasta framleiðsluvaran í sjávarútvegi okkar verði ekki jafnauðseljanleg og verið hefur. Við gætum búið við það. Vonandi gerum við það ekki og vonandi eigum við auðvelt með að selja afurðir okkar á komandi mánuðum. Við þurfum á því að halda. Við þurfum að horfa til allra átta og ég tel reyndar, út frá ýmsum upplýsingum sem ég hef fengið, m.a. frá fiskimönnum vítt og breitt í kringum landið, að það sé engin líffræðileg áhætta tekin með því að auka nú þorskveiðarnar. Ég hef ekki heyrt neinn fiskimann sem talar um að staðan sé sú að menn þurfi að keyra aflamarkið niður í þá viðmiðun sem stjórnvöld hafa gefið út vegna þess að það sé svo mikil áhætta varðandi fiskstofnana. Ég hef ekki heyrt nokkurn fiskimann sem ber á móti því að hann geti ekki auðveldlega veitt þann þorsk sem hann sækist eftir og menn eru frekar að reyna að flýja þorsk heldur en hitt við veiðar.

Ég held líka að staða sjávarútvegsins sé mjög alvarleg um þessar mundir. Ég hygg að skuldir sjávarútvegsins hafi vaxið mjög á undanförnum missirum. Gengið hefur ekki orðið til að lækka skuldir sjávarútvegsins, þvert á móti hafa þær örugglega vaxið. Við fáum því miður ekki nákvæmar upplýsingar um það hverjar skuldir sjávarútvegsins eru í dag en þær eru væntanlega enn þá í íslensku þjóðfélagi því að það hefur verið óheimilt að taka mikla áhættu og veðsetja fiskinn í sjónum til erlendra aðila. Ég tel því að skuldirnar séu að mestu leyti hjá innlendum fjármálastofnunum og hjá þeim bönkum sem við Íslendingar höfum nú verið að yfirtaka. En þær eru kannski gengistryggðar og ef til vill hafa einhver af stærri fyrirtækjunum tekið lán beint að utan til rekstrar og viðhalds.

Það væri fróðlegt ef hæstv. sjávarútvegsráðherra gæti upplýst okkur um hver skuldastaðan sjávarútvegsins er í dag, þ.e. raunveruleg skuldastaða. Það er alveg öruggt að skuldirnar hafa vaxið þar eins og hjá öllum þeim sem eru með meginhlutann af skuldum sínum í erlendum gjaldmiðli. Það á jafnt við um heimili sem fyrirtæki og við Íslendingar erum einfaldlega í þeirri erfiðu stöðu að þurfa að reyna að halda atvinnuvegum okkar þannig að þeir haldi velli en einnig að reyna að styrkja undirstöður þeirra. Það er eiginlega sama á hvaða sviði það er, hvort það er í byggingariðnaði, sjávarútvegi, ferðamannaiðnaði, stóriðnaði eða öðrum því sem við getum viðhaldið og eflt. Við erum í þeirri stöðu að við þurfum að leggja nánast allt í sölurnar til að halda uppi atvinnustiginu.

Það hittist svo á að tillaga okkar kemur inn í þær aðstæður sem eru nú og við bendum á í greinargerðinni að setja þurfi lög um að taka upp sérstakan viðskiptamarkað með þær aflaheimildir sem standa utan við aflahlutdeildarkerfið til þess að stýra því hvert þær eiga að fara o.s.frv., hafa áhrif á það. Í greinargerðinni nefnum við meðal annars að sérstaklega þurfi að horfa til þeirra byggðarlaga sem staðið hafa höllum fæti efnahagslega á undanförnum árum og misst hafa mikið frá sér í aflaheimildum. Við viljum og leggjum það til í greinargerð okkar að horft verði til þess með hvaða hætti ríkið geti fengið tekjur af sjávarútveginum í framtíðinni. Þær skuldir sem nú hvíla á sjávarútveginum geta reynst honum ofviða. Þá kemur einfaldlega spurningin þegar við erum búin að innkalla bankana til íslenska ríkisins: Erum við komin í þá stöðu að þurfa að innkalla skuldirnar af sjávarútvegi og þá jafnframt aflaheimildirnar? Þurfum við þá að skapa sérstakan farveg til að leigja þær og ná til baka á einhverjum árum þeim skuldum settar hafa verið á íslenskan sjávarútveg með veðsetningu aflaheimilda? Ég tel að því miður að farið hafi verið langt umfram það sem eðlilegt er þegar veðsetning á einu kílói af þorski í svokallaðri varanlegri sölu er komin yfir 4.000 kr. eins og var á síðasta ári þó að það hafi nú fallið niður í 2.200–2.300 kr.

Það er búið að skuldsetja íslenskan sjávarútveg markvisst árum saman í gegnum kvótakerfið. Það hefur alltaf verið þannig að þeir sem hafa farið út hafa selt aflaheimildirnar hærra verði til næsta manns. Sá hefur tekið veð í aflaheimildunum og sett það að veði hjá íslenskum bönkum og lánastofnunum. Þannig hafa skuldirnar vaxið árum saman og mér kæmi ekki á óvart þó að skuldir sjávarútvegsins væru nú 500 milljarðar kr. Tekjur okkar af sjávarútveginum á liggja á bilinu 130–140 milljarða kr. á hverju ári og auðvitað sjá allir að við erum í hættulegri stöðu. Við í Frjálslynda flokknum teljum að nú sé tími til að auka þorskveiðarnar, því fylgir engin líffræðileg áhætta.