136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[13:46]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Tillaga sem flutt er af þremur þingmönnum Frjálslynda flokksins til þingsályktunar um aukinn þorskafla á fiskveiðiárinu 2008 og 2009 finnst mér allrar athygli verð. Okkur ber að endurskoða reglulega ákvarðanir um aflahámark og sundurliðun þess á tegundir og fara yfir þær forsendur sem þær byggja á. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að fiskurinn í sjónum er ein af okkar dýrmætustu auðlindum og minnumst þess ekki síst nú þessa dagana.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum á undanförnum árum ítrekað lagt fram tillögur um að varið yrði auknu fé til hafrannsókna, til rannsókna á lífríki hafsins, samspili tegunda í hafinu og öllum þeim þáttum sem lúta að afkastagetu hafsins án þess að gengið sé á auðlindirnar með varanlegum hætti. Það er alveg sama hversu mikið okkur langar í aukinn afla, hvort sem það er úr sjó eða af landi, við megum aldrei ganga lengra heldur en sjálfbær náttúran ber og hún þarf ætíð að njóta vafans í þeim efnum. Ég skil tillögu þingmanna Frjálslynda flokksins alls ekki á þann veg og ég er þess fullviss að við, þingmenn allra flokka, berum jafnmikinn hag fyrir því, að gengið sé varlega um dyr.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fluttum frumvarp á Alþingi á síðastliðnum vetri um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu í heild út frá öðrum forsendum þar sem gerð er miklu ákveðnari og harðari krafa um sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar. Jafnframt væri hún nýtt af íbúunum vítt og breitt um landið.

Það er kannski ekki rétt að ræða kvótakerfið sem slíkt á þessum fáu mínútum en við höfum áður gert grein fyrir því á Alþingi að kvótakerfið eins og það hefur verið útfært og árangur þess hafa gengið þveröfugt á þau markmið sem þar voru sett, þ.e. að efla og auka fiskstofnana í hafinu og tryggja atvinnu og trausta byggð um land allt. Það er ein af forsendum fyrir fiskveiðistjórnarkerfinu sem hefur brugðist.

Það er ekki hægt annað en víkja að þeirri fjárhagsstöðu sem sjávarútvegurinn allur, ekki síst hinir minni útgerðaraðilar, smábátasjómenn, minni útgerðir, standa frammi fyrir þessa dagana, fyrst með niðurskurði á aflaheimildum á síðastliðnu ári og nú fyrirsjáanlegum miklum þrengingum varðandi fjármögnun og öflun rekstrarfjár og annars sem lýtur að rekstrarumhverfinu. Ég held að samhliða því að það sé kannað sem hér er lagt til hljótum við strax að þurfa að gera úttekt á fjárhagsstöðu útgerðaraðila, ekki síst hinna minni sem skipta miklu máli, en þeirra stærri einnig úti um allt land. Það sé gert því að við verðum að tryggja að þessi atvinnuvegur gangi en undirstöðurnar eru að sligast. Við þurfum að breyta forgangsröðun í þeim efnum og treysta betur sjálfbærar undirstöður þessa atvinnuvegar, bæði í hafi og á landi.

Mér verður hugsað til þeirrar erfiðu stöðu sem margir bændur standa nú frammi fyrir á sama hátt. Þar standa margir frammi fyrir miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Ég held að það sé algjört forgangsmál núna að tryggja stoðir grunnatvinnuveganna, sjávarútvegs og landbúnaðar, og að þegar í stað verði farið ítarlega í rekstrarstöðu hjá bændum landsins og sjá hvort þar sé eitthvað mjög alvarlegt að gerast. Okkur berast þær fréttir að stór hópur bænda velti fyrir sér hvort þeir geti haldið áfram rekstri eða ekki. Nú ríður á að standa vörð um og treysta stoðir þessara grunnatvinnuvega, um matvælaframleiðsluna í landinu. Áform um að innleiða hér ESB-reglur um kjöt og innflutning á hráu kjöti eru jafnfjarlæg og áður.

Ég tek undir þau orð hv. flutningsmanns að það er alveg sjálfsagt og eðlilegt að skoða alla þætti sem lúta að fiskveiðum og fiskveiðistjórnun um að tryggja og treysta afkomu af þeirri atvinnugrein bæði til skemmri og lengri tíma. Eins og ég gat um áðan fluttum við frumvarp til laga á Alþingi í fyrra, hv. þm. Björn Valur Gíslason þá varaþingmaður, Atli Gíslason og ég, um að þessir þættir skyldu allir teknir til endurskoðunar sem og forsendurnar. Við töluðum jafnframt um nýja nálgun í umgengni um auðlindina. Við kölluðum það „sjómenn græða hafið“ alveg eins og „bændur græða landið“. Við þurfum nú að takast á við það á þessum nýja grunni varðandi umgengni og nýtingu sjávarauðlindarinnar.

Það er sjálfsagt að kannað verði hvort auka megi aflaheimildir eins og tillaga hv. þingmanna Frjálslynda flokksins fjallar um. Að sjálfsögðu megum við ekki gera það þannig að það stefni varanlegri nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar í hættu á nokkurn hátt enda er ég ekki að gera mönnum upp þá skoðun.

Við þurfum þó að endurskoða hvernig við höfum stundað þennan atvinnuveg til að hann nýtist þjóðinni sem best og það með sjálfbærum hætti. Ég undirstrika fyrir hönd okkar þingmanna Vinstri grænna að það er alveg sjálfsagt að skoða alla þætti þessa máls varðandi fiskveiðistjórnina en að sjálfsögðu á grundvelli sjálfbærrar nýtingar og sjálfbærrar þróunar í þessum efnum eins og öðrum.