136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[14:05]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka þátt í þeirri umræðu sem hér fer fram um tillögu til þingsályktunar um aukinn þorskafla á fiskveiðiárinu 2008 og 2009 sem þingmenn Frjálslynda flokksins hafa lagt fram, og leggja til að Alþingi álykti að þorskafli fiskveiðiársins 2008–2009 verði aukinn um 90.000 tonn.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að leggja neitt mat á þann tonnafjölda sem hv. þingmenn leggja til að þorskaflinn verði aukinn um á yfirstandandi fiskveiðiári, ég hef hreint og beint ekki sjálf þekkingu og kunnáttu til að meta það. Hitt er ljóst að það verða að eiga sér stað róttækar breytingar hvað varðar sjávarútvegsstefnu okkar, hvað varðar stýringu á fiskveiðistjórninni og það verður líka að horfa til þess að við verðum að auka rannsóknir á lífríki sjávarins. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum margoft á undanförnum árum bent á að Hafrannsóknastofnun vanti fjármagn til þess að stunda slíkar rannsóknir. Vísindamenn okkar á þeirri stofnun hafa bent á að þeir hafi stundað þær rannsóknir sem þeir hafa haft fjármagn til. Þeir hafi gjarnan viljað fara í miklu víðfeðmari rannsóknir eða hafa fleiri með sér, Háskóla Íslands og fleiri aðila, til þess að rannsaka betur lífríki sjávarins en hafi ekki haft fjármagn til þess. Þeir telja að þeir hafi getað nýtt fjármagnið best með þeim aðferðum sem þeir hafa notað en þær eru mjög umdeildar, og sérstaklega hjá sjómönnum.

Þar við bætist að hitastig sjávar er að breytast, það hefur hlýnað, og lífríki sjávarins er þar af leiðandi líka að breytast miklu hraðar en við höfðum gert okkur grein fyrir. Þetta er að koma fram, ekki bara í sjávarafla og samsetningu afla heldur einnig hvað varðar lífríki sjávarfugla sem eru að hrynja úr ætisleysi. Það er því greinilegt að það er mikið að gerast. Þar af leiðandi — þrátt fyrir þær aðstæður sem við búum við í dag, og þegar við erum búin að átta okkur á hlutunum og sjá hvar við stöndum — verðum við að huga að því að efla þann grunn sem við verðum svo að byggja á, það eru rannsóknir, m.a. í lífríki sjávar. Ef við gerum það ekki og höldum áfram að veiða eins og við höfum gert núna og eftir því fiskveiðikerfi sem við höfum má eiginlega segja, hvort sem það er til lands eða sjávar, að við séum að borða útsæðið, ef við vitum ekki hversu nærri fiskstofnunum, hversu nærri auðlindum náttúrunnar við getum gengið án þess að ganga á auðlindir framtíðarinnar, þannig að auðvitað verðum við að fara varlega.

Það er ekki síður að við getum horft á kvótakerfið sem slíkt og hvaða afleiðingar það hefur svo haft fyrir atvinnu í landinu, atvinnu í sjávarbyggðum landsins, fyrir skiptingu auðs og uppbyggingu þeirra fyrirtækja sem eru með úrvinnslu sjávarafurða — sem hefur á fáum árum færst á fáa staði og verið umfangsmeiri þar og aflinn verið fluttur fram og til baka um landið á sama tíma og vantað hefur afla á markað þannig að aðrir minni staðir hafi komist í og aflinn verið sogaður frá sjávarbyggðunum vítt og breitt um landið, þeim er að blæða út og við því verður að bregðast.

Þó svo að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt það til — og í því frumvarpi til laga sem hv. þm. Jón Bjarnason vísaði til hér í máli sínu, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem Björn Valur Gíslason og Jón Bjarnason og Atli Gíslason lögðu til hér fyrir ári, um að gildistími núgildandi laga um fiskveiðistjórnun gilti ekki lengur en til 2010, en tíminn fram að því væri notaður til þess að endurskoða kvótakerfið, allt fiskveiðistjórnarkerfið með tilliti til þess að byrja hreinlega upp á nýtt og koma á kerfi sem uppfylli þau skilyrði, þau markmið, sem núverandi kerfi átti að uppfylla, þ.e. sem sé að vernda fiskstofnana — það hefur ekki gerst — að stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra — það hefur heldur ekki gerst, að treysta atvinnu — hún hefur öll færst til — og efla byggð í landinu — og það er aldeilis ekki því að víða er atvinnan að hrynja. Þetta er það sem við þurfum að gera og ég skil vel þá tillögu hv. þingmanna Frjálslynda flokksins að leggja til að þetta sé það sem við getum gert núna. Þetta er samkvæmt leiðbeiningum sjómanna sem hafa bent á að víða sé sjórinn fullur af fiski.

Ég vildi líka benda á nokkur atriði sem við getum gert nú þegar og það er að huga betur að fullvinnslu sjávarfangs en gert hefur verið. Mikið er selt út af óunnum fiski og auðvitað verðum við að reyna að horfa til þess að hafa verðmætasköpunina sem mesta hér á landi, að virðisaukinn sé hér, að virðisaukinn verði ekki til á fáum stöðum heldur dreift um landið. Þó að við höfum bent á það að eignir, kvótinn, hafi færst á fárra manna hendur er staðan sem blasir við enn alvarlegri en þegar hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fluttu frumvarpið fyrir ári. Hver er staða þessara fyrirtækja í dag, hvernig standa þau? Hvað er búið að veðsetja aflann í sjónum, hvernig stendur þjóðin með réttindi sín til veiða og réttindi til að sækja á sjó ef illa er fyrir þessum fyrirtækjum? Skuldastaða sjávarútvegsins hefur verið slæm og ég er viss um að allir kvíða þeim niðurstöðum sem munu trúlega birtast okkur á næstu dögum.

Það er líka hægt að gera fleira. Það væri alveg hægt að taka út fyrir sviga smábátana, smábáta allt að fimm tonnum, með tvær rúllur, þar sem eigendur smábátanna sækja sjóinn, þar sem þessum smábátum er ekki safnað mörgum undir sama aðilann sem gera þá út marga báta. Það væri hægt að taka smábátana með tvær handfærarúllur út fyrir sviga rétt eins og við erum að deila út byggðakvóta. Þetta yrði aldrei það magn að það hefði afgerandi áhrif á heildaraflann og mundi trúlega aldrei verða það magn sem mundi skipta máli. — Mér finnst ekki hægt annað en nefna það að það hefur ekki tekist og mun ekki takast innan núverandi kerfis að koma í veg fyrir brottkast, því að þegar sjómenn og kvótaeigendur, eða þeir sem sækja sjóinn í dag, eru bundnir þessum kvótum er brottkast hluti af þessu kerfi. Einnig væri hægt að gefa stangveiðibátunum heimild til þess að fiska fyrir utan kvóta, smábátarnir og stangveiðibátarnir veiða með vistvænum veiðarfærum en þessi sjósókn mundi sannarlega efla byggð um allt land.