136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[14:30]
Horfa

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég ætla ekki að setja á langa tölu um þetta mál en vil samt koma upp og fagna þessari umræðu. Ég tel að þrátt fyrir þau válegu tíðindi sem berast úr samfélaginu sé það skylda okkar sem sitjum á hinu háa Alþingi að halda áfram okkar verki rétt eins og aðrir þegnar og annað starfandi fólk þessa lands verður að gera.

Hér er hreyft við mikilvægu máli og við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að horft sé til þess að auka hér veiðar. Þó við höfum ekki viljað ganga eins langt og félagar okkar í Frjálslynda flokknum þá tel ég að aðstæður núna kalli á ákveðið endurmat á þeim úthlutunum sem gerðar hafa verið og við skulum vera þess minnug að við umræðu um þetta fyrir ári síðan voru forsendur þær að hér á landi væri góðæri, að hér á landi væri góð staða og við hefðum efni á því að geyma fiskinn í sjónum, við hefðum efni á því að byggja stofninn upp á þeim forsendum. En það breytti svo sem engu um það að þau vísindi sem segja í fyrsta lagi að við getum geymt hann í sjónum með þessum hætti og í öðru lagi að það sé þörf á því. Þau hafa legið undir mikilli gagnrýni. Ég held að þar þurfi margt að endurskoða. Við framsóknarmenn höfum kallað eftir því að meiru fé sé varið til hafrannsókna og hreyft við þeirri umræðu að ef til vill eigi einhvern veginn að aflétta þeirri einokun sem er á þekkingunni í þessum efnum vegna þess að hið sama gildir með þekkingarskólana og annað í atvinnulífinu að þar þarf að ríkja ákveðið frelsi, þar þurfa allar skoðanir að fá að njóta sín og takast á. Þó ég sé ekki sérfróður um sjávarútvegsmál þá hef ég ekki upplifað umræðuna um ástandið í hafinu og um íslenskan sjávarútveg á þann hátt að þar hafi ríkt það frelsi, að þar hafi ríkt það akademíska andrúmsloft sem ég held að eigi að ríkja í umræðu um stöðu fiskstofnanna í hafinu.

Síðan vil ég í þessu sambandi líka minna á að við höfum vakið athygli á því að það eigi að ræða kvótakerfið Ég er einn þeirra framsóknarmanna sem hafa verið í flokki þeirra sem hafa í grundvallaratriðum talið þetta kerfi okkar gott og margt í því styð ég heils hugar og þar á meðal held ég að það sé ekki rétt að afnema hið frjálsa framsalskerfi. Ég held að það væri skref aftur á bak og ekki farsælt upp á þróun í greininni. En ég held engu að síður að við þurfum að koma til móts við þá vankanta sem eru á kerfinu og þá árekstra sem kerfið á við almenn mannréttindi. Ein af þeim leiðum sem ég held — og nú tala ég fyrir mig en ekki fyrir stefnu flokksins í þessum málum. Þar er þetta mjög í umræðu og við höfum rætt þetta á alla kanta og ekki svo sem tekið þar neina gallharða afstöðu — en ég held að ein leiðin í þessum efnum væri sú að skoða hvort við gætum heimilað hér á landi smábátaveiðar í takmörkuðum mæli, þ.e. með smábátum sem væru þó ekki eins öflugir og var í því smábátakerfi sem var hér frjálst fyrir nokkrum árum heldur svona heldur afkastaminni hvað varðar rúllufjölda og annað slíkt því þeir bátar voru nánast orðnir eins og vertíðarbátar og jafnvel að það væru mjög takmörkuð veiðisvæði sem slíkir bátar gætu unnið á. Það gæti jafnframt komið til móts við þá miklu slysahættu sem stafar af mikilli smábátaútgerð.

Þetta held ég að verði brýnt fyrir okkur að skoða á komandi vetri því brýnast er núna að okkur fallist ekki hendur og við gefumst ekki upp í hugarvíli í þeim miklu erfiðleikum sem steðja að heldur horfum til þess að það mikilvægasta hjá okkur núna er að afla gjaldeyris og skapa atvinnu og einhvers konar lítils háttar opnun á kvótakerfinu með þessum hætti gæti verið mörgum þeim sem eru að missa vinnuna í dag og næstu vikur og mánuði og þjóðarbúinu öllu mjög mikilvægt.

Ég held líka að þegar við komum að umræðunni um aflamarkið, um kvótann, um það hversu mikið megi veiða þá lúti þetta í rauninni að fleiru en bara þeim tonnum sem megi taka upp úr sjó. Við þurfum líka að horfa á það hvernig það er gert. Það er þannig við allar nytjar á náttúrunni að ekki bara magnið telur heldur hvernig gengið er með auðlindina, hversu vel er skilið við það sem ekki er tekið og hversu vel er skilið við þær stöðvar þar sem tekið er. Þess vegna held ég að eitt af því sem við þurfum að skoða séu sem umhverfisvænstar veiðar vegna þess að öll umræðan um fiskveiðikerfið er umræða um umhverfisvernd. Það er mikilvægt að við höfum það hugfast. Þá held ég að umræðan verði handfæraveiðunum frekar hagstæð í þessum efnum.