136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[14:38]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessi skoðanaskipti. Ég veit að við hv. 10. þm. Suðurk. verðum ekki algerlega sammála í þessum efnum sem er kannski ekki markmið í sjálfu sér. Allra síst þurfum við að vera sammála um það hvort breytt hafi verið rétt í sögunni því henni breytum við ekki. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að þingmenn þekkja sjávarútvegssöguna og sjávarútveginn mjög misvel og hér eru nokkrir inni sem þekkja það mjög vel af sínu ævistarfi. Ég er ekki í þeim hópi og ólst ekki upp við það að sjá til sjávar í minni bernsku. Ég veit ekki hvað ég var orðinn stálpaður þegar ég sá þann mikla poll fyrst en ég hef verið kominn nokkuð á legg.

Ég vil bara segja í sambandi við frjálsa framsalskerfið að margt hefur verið sagt um það nákvæmlega hvernig því var komið á og ætla ég ekki að fara út í það. En það hefur margt verið talað um að það hafi þurrkað upp byggðirnar og það hafi stuðlað að mikilli samþjöppun í þessari grein. Þá mega menn ekki gleyma að samþjöppun hefur líka orðið í öðrum greinum og ekki minni á sama tíma án þess að þar hafi verið neins konar kvótakerfi til staðar. Ég er þess vegna ekki viss um að það sé réttmætt að kenna frelsinu um. Ég held aftur á móti og hef þá trú þrátt fyrir þær hörmungar sem við nú göngum í gegnum að við megum ekki verða allir að steinrunnum kommúnistum heldur verðum við að trúa á að viðskiptafrelsið hafi nokkuð til síns ágætis.