136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[15:03]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka umræðuna sem hér hefur fram farið um þá tillögu sem við þrír þingmenn Frjálslynda flokksins fluttum hér. Sem betur fer hafa þó nokkrir tekið þátt í umræðunni og lýst velvilja í garð þessarar tillögu og áhuga á að efni hennar nái til framkvæmda og verði til þess að auka tekjur í þjóðfélaginu sem ekki veitir af um þessar mundir.

Við höfum, mörg hver, áhuga á að reyna að auka frelsi á nýjan leik í sjávarútveginum. Frjálslyndi flokkurinn hefur á undanförnum árum lagt fram tillögur um að leyft verði að stunda frjálsari handfæraveiðar en nú er en þó verulega takmarkað, þ.e. bæði stærð báta, fjöldi manna og fjöldi þeirra handfærarúllna sem menn mættu nota. Við höfum lagt til að í þessu sérstaka kerfi handfæraveiða mætti mest vera með fjórar handfærarúllur á bát fyrir tvo menn, að takmörkunin væri þannig að hver maður mætti eingöngu hafa not af tveimur handfærarúllum til veiða sem er náttúrlega veruleg takmörkun á afköstum miðað við það sem verið hefur í hinu sóknarstýrða og síðar kvótasetta handfærakerfi. Ég fagna því í sjálfu sér að við þessa umræðu hafa margir lýst því yfir að eðlilegt væri að horfa til þess. Það hefur líka komið fram hjá mörgum þingmanninum að eðlilegt væri að horfa til svæða í þessu sambandi hvað varðar aukið frelsi til veiða og nefnt að byggðirnar þyrftu aukið frelsi til veiða og þar mætti horfa til svæðaskiptingar, m.a. til þess að byggðirnar hefðu forgang að grunnslóðinni sem næst liggur.

Allt eru þetta hugsanir sem ég tel að eigi virkilega heima í fiskveiðistjórnarkerfi ef menn ætla að lagfæra það til framtíðar, að byggðirnar hafi forgang að sínum grunnmiðum og veiðar eins og handfæraveiðar hafi meira frelsi en aðrar veiðar og einstaklingar hafi frelsi til að velja að fara þar inn án þess að þurfa beinlínis að sækja í aflaheimildapott eða nálgast aflaheimildir með öðrum hætti.

Ég tek undir viðhorf hv. þm. Karls V. Matthíassonar um að þeir sem stunda fiskveiðar greiði af þeim eitthvert afgjald, hvort sem menn veiða úr stýrðum veiðum eins og handfæraveiðum eða ná til sín öðrum aflaheimildum. Ég held að menn eigi að horfa til þess í framtíðinni að æ stærri hluti aflaheimilda færist úr því formi sem nú er og menn fái þær gegn afgjaldi. Við segjum það í greinargerð með þessari tillögu og ég vek athygli á því og beini þeirri athugasemd minni sérstaklega til Karls V. Matthíassonar sem er í sjávarútvegsnefnd. Við bendum á að það eru engin sérlög til um það hvernig leigja á aflaheimildir. Það vantar löggjöf um að ríkið megi leigja frá sér aflaheimildir og hvernig fara eigi með þau verðmæti. Þó að við leggjum til í tillögu okkar að heildaraukningin verði 90 þús. tonn þá leggjum við til að 40 þús. tonn fari inn í núverandi aflamark en 50 þús. tonn fari eftir allt öðrum og nýjum farvegi þar sem ríkið fari að fá afgjald af notkun aflaheimildanna. Eðlilegasti farvegurinn í því sambandi væri auðvitað sá að þeir sem fengju aflaheimildir úr slíkum úthlutunarpottum eða sjóðum greiddu afgjald af lönduðum afla og það væri reiknað frá á fiskmarkaðnum. Þetta þarf ekki að vera flóknara en það. Og þaðan rynni afgjaldið til ríkisins eða sveitarfélaga eftir atvikum.

Ég held að menn eigi að horfa til þess varðandi strandveiðarnar að byggðirnar fái að njóta sérstaklega þess hluta sem þær veiðar gefa af sér og þar þurfi að horfa til ákveðins forgangs. Við nefnum það í tillögu okkar að sérstaklega þurfi að horfa til svæða sem misst hafa frá sér verulegar aflaheimildir á undanförnum árum þar sem hagvöxtur hefur í raun og veru verið neikvæður og í því sambandi geti þurft að sérmerkja einhvers konar leiguform til ákveðinna svæða.

Tillagan er í rauninni tvískipt. Annars vegar að auka heildaraflann um 90 þús. tonn á þessu fiskveiðiári og setja 40 þús. tonn inn í aflamarkið og hins vegar að Alþingi setji löggjöf um uppboðsmarkað og viðskipti með aflaheimildir. Þetta er tillaga sem Frjálslyndi flokkurinn hefur áður bent á og flutt í hv. Alþingi, og var m.a. með í stefnuskrá sinni fyrir síðustu alþingiskosningar, og telur að þannig eigi að þróa þetta kerfi.

Eins og staðan er núna á Íslandi þar sem miklar og verulegar skuldir hvíla á íslenskum sjávarútvegi, við vitum að þær eru kannski 500 milljarðar íslenskra króna, þá er ekki ólíklegt að mörg fyrirtæki, eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson vék að áðan, séu komin í þá stöðu að tekjur þeirra dugi hreinlega ekki fyrir þeim vaxandi skuldum sem lent hafa á sjávarútvegsfyrirtækjum sem og auðvitað öðrum fyrirtækjum í atvinnurekstri, miðað við þá gengisþróun sem verið hefur.

Hæstv. forseti. Það er að mörgu að hyggja. Ég vil aðeins minna á það vegna þess að við ræðum þetta í samhengi við aðstæðurnar í þjóðfélaginu nú hvernig við tókumst á við kreppuna sem fylgdi í lok síldartímabilsins 1968–1970. Hvernig brugðumst við Íslendingar við? Ég er ekki viss um að mjög margir hér á Alþingi séu með það alveg á tæru hvað við gerðum við íslenska flotann á þeim árum. Við settum sérstök lög sem opnuðu landhelgina fyrir veiði með troll innan 12 mílna. Við bjuggum til sérstök kolahólf, við bjuggum til sérstök hólf til að veiða inni á grunnslóðinni. Hvers vegna gerðum við þetta? Við gerðum það vegna þess að við áttum ekki stærri skip, skuttogara og öflugri skip til að stunda djúpslóðina og við höfðum misst frá okkur tekjurnar af síldveiðum. Við fórum þá leið að reyna með öllum tiltækum ráðum að gera flotanum sem við áttum kleift að afla nýrra tekna. Við gerðum það m.a. með því að setja löggjöf um að veiðiheimildir flotans yrðu auknar. Þá spurðu menn ekki um hvort of mikið væri veitt af kola, steinbít, þorski eða ýsu eða einhverju slíku. Menn notuðu bara allar tiltækar aðferðir til að auka tekjurnar í þjóðfélaginu og halda atvinnustarfseminni gangandi.

Það er auðvitað það sem við þurfum að horfa til núna. Við þurfum að halda atvinnustarfseminni gangandi því að það versta sem gæti gerst núna í kjölfar þess sem gerst hefur væri að á okkur dyndi hvert gjaldþrotið á fætur öðru eða rekstrarstöðvun fyrirtækjanna á hvaða sviði sem er. Við þurfum að forðast það næsta hálfa mánuðinn, þrjár vikurnar að slíkt gerist. Ég held raunar að íslenska ríkisstjórnin verði að beita sér fyrir því að bæði sýslumenn og húsnæðislánastofnanir, bankar og lánastofnanir gangi ekki að fólki eða fyrirtækjum næstu þrjár vikurnar þannig að menn nái að halda atvinnustarfseminni gangandi meðan við komumst út úr þeim mikla vanda sem við erum í. Þetta tengist auðvitað allt hugsun okkar í þessari tillögu og við þingmenn Frjálslynda flokksins sem flytjum hana teljum að það sé engin líffræðileg áhætta að fara í það far sem við leggjum til og menn eigi að gera það.

Ég bendi á hvað við gerðum á árunum 1968–1970 þegar við þurftum nauðsynlega að auka tekjur okkar og halda uppi atvinnustarfsemi þegar síldin hvarf sem hafði verið meginstoð í tekjum þjóðfélagsins áður, þ.e. fram til 1967. Þetta ástand snýr ekki síður að fjölskyldum í landinu og skuldsettu fólki og við verðum að stöðva það um einhvern tíma að gengið sé að fólki á þeim erfiðu tímum sem við göngum nú í gegnum. Við verðum að veita öllum aðlögun sem verða fyrir þeim miklu skakkaföllum sem nú blasa við.