136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[15:14]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Góð var ræða og brýningar hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar og formanns Frjálslynda flokksins. Mig langar að taka undir þau orð um að ríkisvaldið og stjórnvöld og Alþingi, allir sem koma þar að verði að gera allt sem hægt er að gera til að lágmarka þann skaða sem orðið hefur í samfélaginu. Frjálslyndi flokkurinn kemur hér með þessa tillögu og bendir á eina leið til að koma inn í það. Það er náttúrlega ljóst að það gefur mörgum mikla von ef kvótinn yrði aukinn, margir mundu fá góða tilfinningu fyrir því.

Hv. þingmaður vék að rannsóknum og slíku og mig langar til að spyrja hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hvernig hann sér fyrir sér samstarf sjómanna og Hafrannsóknastofnunar og auknar rannsóknir á þessu sviði. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér samstarf Íslands og nágrannaþjóða í tengslum við hafrannsóknir og hvernig sjómenn ættu að koma inn í það?