136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[15:15]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég býð þig velkominn á forsetastól og vona að þér farnist störfin vel.

Varðandi það sem hv. þm. Karl V. Matthíasson spurði um, hvernig ég sæi fyrir mér aukið samstarf hafrannsóknamanna og fiskimanna hef ég alltaf talið að fiskimenn sýndu frumkvæði með því að koma fram með ákveðnar tillögur um rannsóknarferli sem þeir vilji fá að taka þátt í. Mér finnst eðlilegt að þeir fái að taka þátt í því á bátum sínum og komi fram með tillögur um hvernig þeir telja að rannsaka þurfi ákveðin svæði og skoða þau vegna þess að það eru fiskimennirnir sem búa að hinni staðbundnu veiðiþekkingu árstíðanna. Þeir búa að hinni staðbundnu þekkingu á botninum. Þeir vita hvar hörðu og linu blettirnir eru og þeir vita hvar þorskurinn velur sér hrygningarstaði oft ár eftir ár á sömu stöðunum og þeir vita einnig að þorskurinn velur sér ekki hrygningarstaði í ákveðnu tíðarfari á sömu slóðum. Ég get nefnt sem dæmi að fiskimennirnir sjálfir geta komið með tillögur um það hvernig rannsaka eigi ákveðin svæði til að öðlast nýja þekkingu og víðsýni yfir það hvernig fiskarnir í sjónum haga sér við mjög breytilegar og mismunandi aðstæður.

Þegar menn koma fram með tillögur af þessu tagi finnst mér að Hafrannsóknastofnun eigi að verða vel við slíkum beiðnum, að til eigi að vera sérstakir fjármunir sem ætlaðir eru í svona verkefni þannig að Hafrannsóknastofnun beri að leggja til fiskifræðing til þess að fara með fiskimönnum af stað í slíka áætlun og fylgja henni eftir.