136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

heilsársvegur yfir Kjöl.

17. mál
[15:21]
Horfa

Flm. (Kjartan Ólafsson) (S):

Herra forseti. Ég kem í ræðustól Alþingis til að flytja þingsályktunartillögu um heilsársveg yfir Kjöl. Tillagan er endurflutt frá síðasta þingi en því miður fékk hún ekki þann framgang sem ég hafði átt von á í hv. samgöngunefnd þannig að hún er hér endurflutt. Ásamt mér skrifa 16 aðrir þingmenn undir tillöguna úr öllum flokkum nema Vinstri grænum.

Ályktunin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja heilsársveg yfir Kjöl. Jafnframt verði gerð forkönnun á umhverfisáhrifum og könnuð samfélagsleg áhrif framkvæmdarinnar, m.a. á atvinnustarfsemi og byggðir landsins. Ríkisstjórnin skili Alþingi skýrslu um málið fyrir 1. apríl 2009.“

Eins og ég sagði áður var þingsályktunatillagan flutt í fyrra og fór þá til samgöngunefndar, sem hún mun væntanlega gera einnig núna. Ítarleg greinargerð og rökstuðningur fylgja tillögunni sem ég ætla ekki að fara að eyða tíma þingsins í að fara nákvæmlega í á þeim erfiðu tímum sem við lifum nú. Ástæða þess að stór hópur manna hefur áhuga á því að byggður verði hálendisvegur milli Suður- og Norðurlands er m.a. sú að vegalengdir milli byggðarlaganna á Suðurlandi og Norðurlandi munu styttast um u.þ.b. 150 km. Það mun jafnframt hafa mikil áhrif á atvinnustig, ferðaþjónustu og fleiri þætti atvinnulífsins auk þess sem olíueyðsla og CO2 munu minnka við þessa breytingu og nýsköpun flutningsmála.

Í nágrannalöndum okkar, bæði í Skotlandi en þó sérstaklega í Noregi, hafa áætlanir verið gerðar um hálendisvegi. Má þar nefna að nú eru nokkrir hálendisvegir, einir fimm, sem liggja frá vesturströnd Noregs til Óslóar. Þeir vegir eru sumir í mjög mikilli hæð yfir sjávarmáli en áður fyrr voru einungis vegasamgöngur með ströndinni. Þarna stytta menn leiðir og spara fjármuni með því að byggja hálendisvegi. Nú er unnið að nýrri leið milli Stokkhólms og Óslóar sem stytta mun vegalengdina þar á milli.

Tillagan hefur mætt nokkuð neikvæðara viðmóti varðandi umhverfisþátt hennar. Í tillögunni sjálfri er m.a. óskað eftir því að gerð verði forkönnun vegna umhverfisáhrifa þessara framkvæmda. Ég skil að vissu leyti þá sem vilja hugsa um náttúruna og umhverfismálin og fáir hér á Alþingi hafa lagt sig meira fram um að standa vel að uppgræðslu og skógræktarmálum en sá sem hér stendur. Ég tel að eins og aðrar samgöngubætur á landinu muni vegur yfir Kjöl hafa mikil og jákvæð áhrif á uppgræðslu og framgang gróðurverndar á þessu svæði. Á Kili var mikill gróður og kjarr víða og ég tel að við getum endurheimt það.

Ég vil í þessu sambandi minna á það hvernig landið var þegar vegurinn frá Vestur-Skaftafellssýslu í Öræfin var byggður upp með brúarmannvirkjum yfir Skeiðarársand þar sem árnar voru stokkaðar, að nú er land fyrir sunnan þjóðveginn að gróa upp með ýmsum grösum og miklu birkikjarri. Ég hygg að eftir 10–15 ár verði eitt stærsta birkiskógarsvæði landsins á Skeiðarársandi. Það er þekkt fyrirbrigði frá öðrum löndum að slíkt gerist.

Ég vil jafnframt benda á þær gríðarlegu landbætur sem urðu þegar vegirnir í Rangárvallasýslu voru byggðir upp og Markarfljót stokkað að ekkert hefur haft jafnjákvæð umhverfisáhrif fyrir náttúru okkar og landgæði á Íslandi og þau tvö mál. Á sama hátt er ég sannfærður um að vegur yfir Kjöl verði til mikilla bóta hvað náttúruvernd varðar og þá þætti sem ég nefndi og koma fram í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni.

Að svo mæltu legg ég tillöguna, herra forseti, hér fram.