136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

heilsársvegur yfir Kjöl.

17. mál
[15:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt sem kemur til greina í þessu lífi og það er sjálfsagt að fara yfir hluti af þessum toga. En það er ekki það sem tillagan sem hér er til umfjöllunar gengur út á, eins og ég skil hana, heldur er þar talað um að leggja heilsársveg yfir Kjöl. Í greinargerðinni eru færð rök fyrir því. Ég hef reynt að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég stend fyrir að því er varðar umhverfisþættina og náttúruverndina, að því er varðar forgangsröðun í samgöngumálum, að því er varðar byggðaþróun o.s.frv. Ég hef reynt með þeim hætti að skýra að af þeim ástæðum sem við teljum mikilvægar í því samhengi höfum við ekki verið hlynnt því að samþykkja ályktunina. Ef þingmaðurinn kemur fram með öðruvísi tillögu um annars konar markmið en þessi tillaga gerir ráð fyrir munum við auðvitað taka efnislega afstöðu til hennar.

Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að taka þessa samgöngupólitísku umræðu á vettvangi hv. samgöngunefndar. Ég veit ekki hvort hæstv. iðnaðarráðherra vill koma þar að, hann gæti kannski komið á opinn fund og látið ljós sitt skína en látum það nú vera. Sú umræða mun fara fram á vettvangi nefndarinnar og ég ætla ekki að vera með neina fordóma gagnvart hugmyndum manna í þeim efnum. En þetta eru þau sjónarmið sem hafa ráðið afstöðu okkar til málsins. Þau gerðu það á síðasta þingi þegar málið var til umfjöllunar og ég hef svo sem ekki breytt um skoðun hvað það snertir. Það er til umfjöllunar og verður það á vettvangi nefndarinnar.