136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

heilsársvegur yfir Kjöl.

17. mál
[15:54]
Horfa

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég vil taka aðeins þátt í umræðunni og tel brýnt að Alþingi haldi sínu verklagi. Þrátt fyrir að erfiðir tímar séu í samfélaginu þurfa fyrirtækin að ganga og vinnustaður okkar er einn af þeim sem þurfa að sýna að þeir halda höfði. Því þurfum við að vinna okkar verk og eitt af þeim verkum er að fara í gegnum umræðu um þessa þingsályktunartillögu sem ég tel mjög brýna enda einn af flutningsmönnum. Ég þakka umræðuna sem verið hefur um hana hér.

Ég tel að það gæti nokkurs misskilnings í andstöðu sumra við heilsársveg yfir Kjöl vegna þess að menn sjá þá fyrir sér að þar með verði mikilli öræfakyrrð spillt. Þar sem nú eru friðsæl og hljóð öræfi verði skyndilega að grárri hraðbraut. Þá mynd er auðvelt að mála upp fyrir fólki en hún er ósönn vegna þess að það mun minnka hávaða frá vegi að leggja venjulegan malarveg yfir Kjöl. Þegar er búið að leggja veg yfir Kjöl. Það er afskaplega vondur malarvegur og vondum malarvegi fylgir mikil mengun, mikill hávaði, vond meðferð á bílum og ýmislegt annað sem ekki skapar þau þægindi sem þurfa að vera á okkar helstu ferðamannaleiðum. Kjalvegur er tvímælalaust ein af okkar helstu ferðamannaleiðum.

Ég er ekki talsmaður þess að menn leggi vegi þvers og kruss um hálendið eða fjölgi þar mikið vegum frá því sem nú er. Ég tel einmitt brýnt að við höldum í þá ósnortnu náttúru sem við eigum. Ég set ákveðinn fyrirvara við vinnuna sem farið verður í varðandi þessa vegagerð. Við undirbúning verksins hafa komið fram hugmyndir um að velja alveg nýtt vegstæði. Það orkar að nokkru leyti tvímælis, það er betra ef hægt er að nota það vegstæði sem nú er vegna þess að það er óþarfi að fórna nýjum löndum. Vegurinn væri ekki bara til bóta fyrir ferðamennskuna og fyrir byggðirnar beggja megin við, ég held að hann mundi einnig vera mjög hagkvæmur þjóðhagslega til lengri tíma litið. Rétt eins og 1. flm., hv. þm. Kjartan Ólafsson, kom að áðan minnkum við til muna umferðarþungann á þjóðvegi 1 með því að leggja þennan veg.

Það er alveg víst að það er tiltölulega stutt í að menn fari að ræða í alvöru og leggja á ráðin um fjórbreiðan veg alla leið milli Reykjavíkur og Akureyrar að óbreyttu. Ef ný leið er gerð getur það dregið úr þeirri þörf og frestað því verki um ókomna daga eða jafnvel alveg komið í veg fyrir að ráðast þurfi í það því að margt getur breyst í samgöngumálum á hálfri eða einni öld. Að leggja fjórbreiðan veg — það þekkjum við vel sem höfum rætt um fjórbreiðan veg milli Reykjavíkur og Selfoss og milli Reykjavíkur og Reykjanesbæjar — er ekki tvöfalt dýrara en að leggja venjulegan tvíbreiðan veg. Hann er fjórfalt til áttfalt dýrari en slíkur vegur vegna hinna mislægu gatnamóta og ýmissa tæknilegra útfærslna sem þurfa að vera á vegi með tveimur aðgreindum akstursstefnum. Hann svo miklu dýrari. Það skiptir verulegu máli í þessari umræðu.

Þess vegna held ég að brýnt sé, herra forseti, að Vegagerðin og samgönguráðuneytið skoði þennan samgöngumöguleika af alvöru og við megum ekki ýkja það um of þó að nú séu erfiðir tímar. Það er mjög líklegt erfiðleikarnir gangi tiltölulega hratt yfir hagkerfi okkar því að það hefur mikla teygjumöguleika, mikla aðlögunarhæfileika, kannski langt umfram það sem önnur hagkerfi hafa. Það eru vissulega miklir erfiðleikar meðan þeir ganga yfir og við þurfum að taka á þeim af festu og æðruleysi. Það er kannski æðruleysið sem mér finnst helst hafa vantað í umræðuna, t.d. í ýmsa fjölmiðlaumfjöllun.

Þrátt fyrir erfiðleika megum við ekki leggja árar í bát og hætta að horfa til framtíðar. Eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að horfa til er hvernig við getum byggt landið upp og eflt byggðirnar. Það er misskilningur sem kom fram áðan í ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að við værum að tala um veg sem væri aðallega ætlaður fyrir mikla þungaflutninga. Þungaflutningar á Íslandi fara eiginlega um alla vegi hvort sem þeir eru skilgreindir sem tengivegir, ferðamannavegir eða annars konar vegir svo lengi sem þeir þola þann öxulþunga sem er á viðkomandi bifreið. En það má alveg hugsa sér, eins og hv. flutningsmaður vék að, að menn setji einhverjar takmarkanir á það enda er ekki aðalmarkmiðið með þessari vegarlagningu að koma á nýrri samgönguleið fyrir landflutningana. Aðalmálið er að koma á samgöngubót, tengingu á milli Norður- og Suðurlands með nýjum hætti.

Tími minn er senn á þrotum en það síðasta sem mig langaði til að víkja að í þessu sambandi er sá ótti sem ég verð var við hjá ýmsum kunningjum mínum á Norðvesturlandi og Vesturlandi, að þetta muni á einhvern hátt rýra stöðu þeirra í byggðaþróun og að umferðin muni öll verða yfir Kjöl. Ég held að það sé mikill misskilningur og við þessa vegarlagningu muni skapast nýr hringvegur á landinu, litli hringurinn á móti stóra hringnum — í rauninni tveir nýir hringir. Það muni auka möguleika á styttri hringferðalögum en ferðamenn hafa haft með hringveginum um þjóðveg 1 kringum landið og á mesta vaxtarsvæðinu á Suður- og Suðvesturlandi muni fólk fara aðra leiðina um Kjöl og hina um Holtavörðuheiði.