136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

yfirlýsingar forsætisráðherra og utanríkisráðherra.

[15:05]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Býsna mikið hefur gengið á síðustu vikuna og m.a. hafa mikið verið í umræðunni málefni Icesave-sparnaðarreikninganna í Bretlandi vegna digurbarkalegra yfirlýsinga tveggja ráðherra Verkamannaflokksins þar í landi. Af því tilefni langar mig til að vitna til framsöguræðu hæstv. forsætisráðherra um þetta efni fyrir réttri viku. Þar sagði ráðherrann að lagt væri til í frumvarpinu að gerðar verði breytingar á lögum um innstæður reikninga, m.a., með leyfi forseta:

„... til að ítreka yfirlýsingar mínar og ríkisstjórnarinnar um að innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum eru tryggðar og ef tryggingasjóður er ekki nægjanlega öflugur til að sinna þeim skyldum mun ríkissjóður gera það.“

Þessi yfirlýsing er algerlega ótvíræð og ekki nokkur leið að misskilja hana hvað varðar Landsbankann og Icesave-reikningana.

Mér er spurn, virðulegi forseti: Hvernig gat þessi yfirlýsing farið fram hjá ráðamönnum í Bretlandi og hvernig mistókst íslenskum ráðherrum að koma henni á framfæri við breska fjölmiðla?

Ég vil nefna annað mál sem kom frá ríkisstjórninni í dag. Í blaðagrein í Morgunblaðinu kom yfirlýsing frá hæstv. utanríkisráðherra um að nú séu aðeins tveir valkostir, annars vegar að ganga í Evrópusambandið og hins vegar aftur til fortíðar. Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvernig ríkisstjórninni dettur í hug að það sé málefnalegt innlegg í stöðu þeirra mála og þess vanda sem við erum að glíma við að halda því fram að þeir sem ekki styðja inngöngu í Evrópusambandið umsvifalaust séu talsmenn þess að hverfa aftur til fortíðar.