136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

fjármálafyrirtæki.

14. mál
[15:19]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Mér finnst óþarfi að hafa mörg orð um þetta frumvarp sem við flytjum tveir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Jón Bjarnason og ég. Við höfum lagt til allar götur frá því að ríkisbankarnir voru einkavæddir á tíunda áratugnum að reistir yrðu varnarmúrar í fjármálalífinu fyrir hönd almennings. Við vöruðum við því á þeim tíma að fjármálakerfið yrði einkavætt á einu bretti. Við sögðum að hyggilegt væri að hafa hér að minnsta kosti einn ríkisbanka sem kjölfestu í fjármálalífinu. Við bentum á að í litlu samfélagi væri sú hætta fyrir hendi að sömu aðilar og hafa undirtökin í atvinnustarfseminni, hafa eignarhald þar á hendi, fengju einnig eignarhald yfir fjármálastofnunum. Að þeir kæmust með öðrum orðum í aðstöðu til að lána sjálfum sér og ráðskast með fjármuni almennings. Þetta var ekki gert og við þekkjum öll afleiðingarnar.

Við lögðum líka til á þessum tíma að aðskilið yrði í lögum annars vegar kjarnastarfsemi, viðskiptabankar sem önnuðust innlán og útlán, og hins vegar fjárfestingarsjóðir. Við vildum ekki að þetta tvennt færi saman. Við horfðum til fyrirmynda að utan og þá ekki síst til Bandaríkjanna sem allar götur frá 1933 fram til ársins 1999 bjuggu við löggjöf af þessu tagi. Það var svokölluð Glass-Steagall löggjöf frá árinu 1933 sett í kjölfar kreppunnar miklu 1929. Mikið var hamast gegn þeirri löggjöf allt frá því að Reagan komst til valda í byrjun níunda áratugarins og dregið úr vægi hennar með reglugerðarbreytingum á síðustu árum. En það var fjármálaráðherra Clintons, Lawrence Summers, sem endanlega gekkst fyrir því að lögin voru numin úr gildi árið 1999. Hann lýsti því yfir í Washington Post, held ég að hafi verið, að hann sæi stórlega eftir því að hafa stigið það skref. Þannig að tillögur okkar eiga sér fyrirmynd.

Við þingmenn úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lögðum fram frumvarp þessa efnis frá 130. þingi, það var árið 2003, og síðan aftur og ítrekað og gerum enn núna. Greinargerðin með frumvarpinu ber þess nokkuð merki að þeir atburðir sem við höfum orðið vitni að undanfarna daga höfðu ekki átt sér stað en þar segir, með leyfi forseta:

„Íslenskir viðskiptabankar hafa gerst mjög umsvifamiklir fjárfestar í atvinnufyrirtækjum og á fjármálamarkaði bæði hér á landi og víðs vegar um heim. Margt er óljóst um hve traustar þessar fjárfestingar eru. Hitt er deginum ljósara að komist bankarnir í þrot sem fjárfestingarsjóðir er sá hluti starfsemi þeirra sem snýr að almennum lánaviðskiptum við einstaklinga og fyrirtæki jafnframt hruninn. Við slíkar aðstæður hefur samfélagið þurft að hlaupa undir bagga (sbr. bankakreppur í Kanada, á Norðurlöndum og víðar á tíunda áratug síðustu aldar) og hafa að undanförnu heyrst slíkar óskir úr heimi fjármálanna varðandi íslensku bankana. Nýleg ákvörðun um að ríkið kaupi meiri hluta Glitnis endurspeglar alvöru málsins. Ótækt er að brask á fjármálamörkuðum sé á ábyrgð skattgreiðenda þótt hitt sé víst að hrun viðskiptabanka komi öllu samfélaginu í koll. Af þessum sökum er meðal annars nauðsynlegt að aðgreina með skýrum og afgerandi hætti fjárfestingarstarfsemi og almenn lánaviðskipti.“

Hæstv. forseti. Ekki er þörf á því að hafa fleiri orð um þetta. Við þekkjum öll því miður þá atburði sem samfélag okkar er að verða vitni að og hve sorglegt það er að við skyldum ekki hlusta á varnaðarorð sem voru uppi þegar bankarnir og fjármálakerfið allt var einkavætt á tíunda áratugnum. En það sem við getum alltént gert núna er að setja lög og reglur sem eru líklegri til að skila okkur traustara og öruggara fjármálakerfi.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til viðskiptanefndar Alþingis.