136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

fjármálafyrirtæki.

14. mál
[15:26]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að mikið bankahrun á sér stað þannig að hv. þingmaður þarf ekki að taka það sérstaklega fram. Ég geri mér líka grein fyrir því að farið verður út í endurskoðun á þeirri löggjöf sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu í framhaldi af þeim ósköpum sem ganga nú yfir.

En þar sem hv. þingmaður er nú ekki að flytja þetta mál í fyrsta skipti heldur hefur gert það alveg frá því að ég gegndi embætti viðskiptaráðherra — og sú stefna hefur verið uppi hjá þingflokki VG að fara þessa leið. Ég hef alloft svarað því úr þessum ræðustóli að þetta samræmist ekki reglum Evrópska efnahagssvæðisins, hvað sem verður í framtíðinni.

Skilaboðin sem ég vil koma hér á framfæri eru þessi: Þegar við erum í slíku samstarfi þýðir ekki, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að setja fram tillögur á hv. Alþingi sem eru á skjön við þær reglur. Við höfum undirgengist þær reglur með því að vera aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs verða því að gera sér grein fyrir því að þeir spila líka með á þessu svæði hvort sem þeir voru jákvæðir gagnvart því að taka þátt í samstarfinu eða ekki þegar ákvörðun var tekin um það hér á þinginu að gerast aðili að EES. (Gripið fram í.)Þetta er því svolítið í líkingu við það sem stundum er kallað sýndarmennska að setja þetta fram, að minnsta kosti fram til þessa. En vel má vera að þegar reglurnar verða endurskoðaðar verði leitað í smiðju Vinstri grænna af hálfu Evrópusambandsins.