136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

fjármálafyrirtæki.

14. mál
[15:28]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort þetta er til marks um óskammfeilni eða ótrúlegt dómgreindarleysi af hæstv. fyrrum bankamálaráðherra, viðskiptaráðherra, í ríkisstjórnum sem eru valdar að því öngþveiti sem við búum við í dag, vegna þess að ekki voru settar þær reglur og þær skorður almenningi til varnar sem nauðsynlegar voru. Þegar nú er vísað til réttlætisins á hinu Evrópska efnahagssvæði þá spyr ég: Hvað er það sem við erum að upplifa núna, íslensk fyrirtæki, íslenskir bankar, af hálfu ríkja innan Evrópusambandsins? Hvernig er komið fram gagnvart okkur þar?

Við hljótum að sjálfsögðu að spyrja um hverjir hagsmunir Íslendinga séu og við þurfum að skoða hvaða reglur við viljum setja íslensku atvinnu- og fjármálalífi í stað þess að byrja alltaf að fletta upp í heilagri ritningu Evrópusambandsins og markaðssáttmálum og túlka þá síðan á þrönga markaðsvísu eins og þær gerðu ríkisstjórnirnar sem hv. þingmaður, fyrrum hæstv. ráðherra, átti aðild að. Það var alltaf gert.

Nú eru uppi deilur um það í Evrópu og í Bandaríkjunum hvort yfirleitt eigi að fara þessa leið. Og ýmsir segja að óhyggilegt sé að aðskilja bankastarfsemina. Og hverjir eru það sem tala á þann veg? Það eru fyrst og fremst þeir sem hafa hagsmuni fjárfestingarkapítalsins að leiðarljósi. Það eru fyrst og fremst þeir. Hinir, sem hafa verið að hugsa um almenning, hafa verið hvatamenn þess að aðskilnaður fari fram á milli kjarnastarfsemi, sem annast venjulega bankastarfsemi, og fjárfestingarsjóðanna.

Að fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins sem stóð að því að (Forseti hringir.) einkavæða fjármálakerfið á einu bretti — og það samkvæmt einkavinaformúlum Framsóknarflokksins — (Forseti hringir.) skuli voga sér að koma hingað upp og hafa þessi mál nánast í flimtingum.