136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

heilsársvegur yfir Kjöl.

17. mál
[15:44]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Miðað við þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu er kannski ekki tímabært að flytja þessa þingsályktunartillögu aftur en það hefur verið gert. Við sem stöndum að henni styðjum hana auðvitað og viljum láta þessar rannsóknir fara fram. Við teljum að mikil samgöngubót yrði að þessu. Útblástursmengun af bílum er mikil og þegar vegaleiðir á milli landshluta eru styttar — leiðin Reykjavík – Akureyri styttist um 47 km, farið um Hellisheiði, úr 388 km niður í 341 km. Stytting verður milli Selfoss og Akureyrar um 141 km, úr 430 km niður í 289 km. Það munar töluvert um útblástursmengun þegar hægt er að stytta vegalengdir svona. Tíminn er líka peningar, það þekkjum við öll. Með nýrri stórskipahöfn í Þorlákshöfn megum við vænta þess að ákveðnir flutningar geti farið yfir Kjöl af Norðurlandi og frá höfnum norðan lands til stórskipahafnar í Þorlákshöfn.

Ég er kannski ekki bjartsýnn á að þessu verði fylgt eftir af fullum krafti eins og aðstæður eru í þjóðfélaginu en það er ágætt að halda þessu til haga. Mér finnst því þessi umræða um það að vera á móti þessu ekki eiga rétt á sér.