136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

þjóðlendur.

25. mál
[15:47]
Horfa

Flm. (Bjarni Harðarson) (F):

Frú forseti. Það mál sem við tökum nú fyrir í þingsal er auðvitað fjarri þeim hvirfilvindi sem þjóðin stendur frammi fyrir núna en þó er það svo að þingið þarf að halda fram störfum sínum. Ég fagna því að fá að flytja þetta mál svo snemma vetrar því að það eykur heldur líkurnar á því og ég treysti því að það verði til þess að það fáist afgreitt úr nefnd eins og reyndar hæstv. forseti og fjöldi þingmanna hafa gefið góð orð fyrir að stefnt sé að því að þingmannamál sofni ekki öll sömul í nefndarstarfi.

Málið er endurflutt óbreytt frá fyrra þingi og fjallar um þá breytingu á lögum um þjóðlendur að ríkið virði þinglýst landamerki og geri ekki kröfur um að þjóðlendur séu innan þinglýstra landamerkja en ef ríkið telji nauðsynlegt að gera slíkar kröfur sé sönnunarbyrðin ekki lögð á eigandann heldur ríkið. Þetta er mikil grundvallarbreyting frá því sem verið hefur en það er þó í rauninni mikið vafamál að sú lagaframkvæmd sem viðhöfð hefur verið um þjóðlendurnar sé réttlætanleg eða sé á nokkurn hátt samrýmanleg því sem upphaflega var ætlað við flutning og framkvæmd þjóðlendumála.

Eins og ég sagði er málið endurflutt frá fyrra ári og hefur í engu verið breytt frá þeim tíma. Flutningsmenn eru hinir sömu en þeir eru auk undirritaðs Magnús Stefánsson og Höskuldur Þórhallsson úr Framsóknarflokki, Árni Johnsen úr Sjálfstæðisflokki, Kristinn H. Gunnarsson og Guðjón Arnar Kristjánsson úr Frjálslynda flokknum.

Það sem við teljum einnig mikilvægt er 2. gr. þessa frumvarps sem er bráðabirgðaákvæði á þá leið að þar sem ríkið hefur komist yfir lönd innan þinglesinna merkja jarðar skuli fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins innan sex mánaða frá gildistöku þessara laga þinglýsa að eigin frumkvæði og á kostnað ríkisins yfirlýsingu á viðkomandi fasteign þess efnis að það falli frá rétti sínum samkvæmt ákvörðuninni.

Telji íslenska ríkið að uppfyllt séu skilyrði þess að færa sönnur fyrir þeim ágalla í eignarheimild þinglýsts eiganda sem lýst er í fyrri grein getur ríkið krafist þess innan sex mánaða frá gildistöku laganna og þá verður málið að nýju tekið fyrir í óbyggðanefnd. Skal óbyggðanefnd verða við kröfunni og taka málið fyrir innan þriggja mánaða frá því að krafa barst henni. Um málsmeðferðina fer eftir almennum reglum laganna.

Hér er með öðrum orðum gert ráð fyrir því að þar sem að ríkið hefur eignast lönd með þessum hætti gangi þær eignarheimildir í reynd til baka. Þó sé möguleiki á að ríkið haldi þessum löndum sínum en málið verður þá að fara aftur í gegnum meðferð nefndarinnar.

Fjármálaráðherra gaf fyrir síðustu kosningar og aftur nú á nýbyrjuðu kjörtímabili út yfirlýsingar um að fyrirkomulagi við kröfugerð ríkisins yrði breytt. Ég fagna sérstaklega efndum á því loforði sem komu glöggt fram á áliðnu sumri þegar ráðherra dró til baka nokkuð margar af kröfum sínum á Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsvæði. Þessi mál hafa því þokast lítillega til réttrar áttar á þessu kjörtímabili og fyrir það eru bændur og landeigendur afar þakklátir. Það kallar enn frekar á nauðsyn þess að frumvarp sem þetta sé samþykkt vegna þess að það er mikilvægt að allir landeigendur í landinu sitji við sama borð og þó svo að ríkið muni ekki fara fram með óréttmætum hætti í því sem eftir er er nauðsynlegt að fram komi ákveðin leiðrétting. Þegar bíða nokkur þjóðlendumál umfjöllunar Mannréttindadómstóls Evrópu og það væri afar ánægjulegt ef ríkið sýndi sanngirni núna og rétti fram sáttarhönd og bændur gætu þá dregið málin þar til baka. Íslandi er enginn sómi að því að ríkið sé dregið öðru sinni, reyndar ekki öðru sinni, það hefur gerst oftar, á skömmum tíma fyrir mannréttindanefnd út af skiptum sínum við borgarana og það er kannski ekki það sem íslenskt orðspor þarf á að halda um þessar mundir.

Ég vil líka benda á í þessu samhengi að öll meðferð þjóðlendumála eins og hún hefur verið lengst af, með þeim mikla yfirgangi sem ríkið hefur sýnt landeigendum í landinu, hefur í rauninni verið í anda þeirrar stefnu sem einkennt hefur samfélag okkar þar sem hver á að hrifsa til sín eins og hann framast getur og sanngirnissjónarmiðin hafa ekki átt allt of mikið upp á pallborðið.

Það er von mín að þau óveður sem ganga yfir íslenskt samfélag og íslenskt efnahagslíf nú um stundir geti kennt okkur að svona haga menn sér ekki, að svona lagað er ekki farsælt og það eigi við víðar en í fjármálageiranum. Það á líka við í skiptum milli aðila og skiptum milli ríkis og einstaklinga að okkur ber að sýna sanngirni og réttsýni en sækja ekki allt sem framast er unnt fyrir dómstólum.

Í þessu samhengi er í rauninni ekki stór munur á því að taka hlut með óréttu og að ásælast hlut sem liggur samt í augum uppi að viðkomandi hefur ekki rétt til, þ.e. það sem gerst hefur í þjóðlendumálum er að við fyrstu kröfulýsingar og í rauninni allt fram að kröfulýsingum núna í Skagafirði og Eyjafirði hefur ríkið lagt fram kröfur sem eru ekki bara ýtrustu kröfur heldur kröfur sem ganga langt umfram það sem nokkur getur látið sér detta í hug að nokkurt vit sé í. Niðurstaða óbyggðanefndar og Hæstaréttar hefur svo verið sú að langflestum af þessum kröfum ríkisins á hendur bændum hefur verið vísað frá. Bændur hafa þurft að verja hendur sínar varðandi réttmætan eignarrétt sinn á þinglýstum löndum jafnvel allt heim að íbúðarhúsum eða inn í íbúðarhús þar sem ríkinu hefur þóknast, eins og gerðist á jörðinni Fossi í Hrunamannahreppi að draga þjóðlendulínuna þvert í gegnum íbúðarhúsið og þvert í gegnum hjónarúmið.

Við þurfum að láta af þessari óbilgirni og ríkisvaldið þarf að horfa til þess að hún er okkur ekki sæmandi. Kannski er þetta angi af þeim hugsunarhætti sem hefur fært okkur akkúrat þangað sem við erum núna, sú óbilgirni að alltaf skuli allir sækja allt sem þeir mögulega geta hversu siðlegar eða eðlilegar kröfurnar annars eru í augum hins venjulega borgara. Það eru harðir kostir fyrir bændur að hafa þurft að sitja undir að verja slíka hluti og eyða í það tíma og fjármunum.

Þá kem ég að öðrum hlut í þessu máli sem kann vel að vera að ég muni ýta á eftir frekar í fyrirspurnum eða jafnvel með þingsályktunartillögu. Eitt af vandamálum í þjóðlendumálunum sem hefur verið vaxandi upp á síðkastið er að þrátt fyrir ákvæði í þjóðlendulögum um að ríkið standi straum af kostnaði bænda við flutning málanna hefur það farið vaxandi að ríkið hefur hafnað að greiða réttmæta reikninga málsvarnaraðila bænda, lækkað þá og vísað frá. Einn bóndi líkti því við það í mín eyru að það væri eins og að fá iðnaðarmann í heimsókn og þegar hann legði fram reikninginn segðist maður bara ætla að borga helminginn, reikningurinn væri allt of hár. Auðvitað geta menn deilt um hvort þessir reikningar séu háir en það er þó ekki að sjá af upphæðum að þeir hafi farið þannig hækkandi að það sé neitt sérstakt sem réttlæti þessa meðferð. Þetta hefur einfaldlega leitt til þess að bændur hafa lagt út í mikinn og vaxandi kostnað vegna þjóðlendumála, hafa borgað það sem í milli er til að lönd þeirra séu varin eins vel og þeir telja nauðsynlegt. Skoðun mín er reyndar sú og hún styðst við ýmis gögn sem komið hafa fram á fundum og ráðstefnum um þjóðlendumál að því fari fjarri við þennan málatilbúnað að við höfum farið nógu djúpt ofan í heimildir og gögn til að þessi mál séu hafin yfir allan vafa.

Mér er minnisstætt að hafa eftir að mál gengu í Rangárþingi fengið bréf frá eldri manni þar í sýslu sem hafði kynnt sér úrskurðina og örnefnanotkun í þessum úrskurðum og komst að því að mið dómaranna varðandi örnefni og kennileiti á afréttum í hans sveit voru allt önnur en þau sem hann taldi rétt vera. Nú geta stundum verið skiptar skoðanir um örnefni og misjafnt eftir bæjum jafnvel hvernig menn túlka þau en þarna er líka um óskaplega vandmeðfarna hluti að ræða og vinnan við að ná að fara í gegnum öll landamerki jarða sem eiga lönd inn á miðhálendið eða inn á óbyggðir er að mínu viti miklu meiri en sú sem lögð hefur verið í við þjóðlendumálið og verður í rauninni ekki unnin með svona hraðferð um landið.

Hitt málið sem er ekki síður athugunarvert er hvernig við höfum túlkað gerninga fyrri tíðar. Sá merki fræðimaður Einar G. Pétursson hefur m.a. bent á það í fyrirlestri um þjóðlendumál að þar séum við í flestum tilfellum að túlka þessi fyrri alda gögn út frá 20. aldar eða 21. aldar skilningi á málum. Það er allsendis óraunhæft og í raun og veru á slík túlkun alls ekki rétt á sér. Við verðum að ná að skilja gögnin út frá þeim tíma sem þau eru samin og skilja pólitískt inntak þeirra. Þetta er í rauninni miklu flóknari hlutur en svo að við séum komin neitt nærri því að afgreiða hann, enda verður að játast að sagnfræðirannsóknir okkar og skjalarannsóknir hafa kannski ekki sérstaklega miðast við þetta. Ég er viss um að þetta á eftir að verða vinsælt og vaxandi viðfangsefni fræðimanna á næstu árum og áratugum en það geta liðið margir áratugir enn þangað til að menn fá almennilega sýn á hvernig túlka beri þessi gögn.

Þá er ég kominn að því sem er mér ekki síst áhugamál í þessum efnum og það er hin mismunandi sýn á skrifleg og munnleg gögn vegna þess að dómstólakerfið í landinu er enn þá með þeim, ég vil ekki segja annmörkum en alla vega undir þeim skóla að telja skrifleg gögn margfalt gildari en munnleg gögn. En í ýmsum fræðigreinum hafa menn verið að endurmeta þetta á seinni árum og jafnvel talið að í sumum tilfellum geti hin munnlega geymd verið fullt eins áreiðanleg og hin skriflega. Þetta hljómar fyrir mörgum svolítið skrýtin fræði en rannsóknir sem kannski eiga uppruna sinn á Balkanskaganum og í tengslum við þjóðfræðirannsóknir þar hafa einmitt leitt fræðimenn að þeirri niðurstöðu að hin munnlega geymd hafi verið mjög vanmetin. Þess vegna held ég að þegar kemur að því að meta eigi til gagna annars vegar t.d. pergamentblöð Landnámu, margra alda gömul, og hins vegar munnlega geymd sem vitað er að gengið hefur mann fram af manni á viðkomandi svæði þá er ekki svo óyggjandi að Landnámuheimildin sé endilega betri. Rekur þar margt til, m.a. það að við vitum í rauninni allt of lítið um raunverulegan tilgang og raunverulega ætlan höfunda með ritun Landnámu.

Um þetta væri hægt að hafa hér langt og mikið mál til viðbótar, ég mun hlífa þingheimi við því að sinni en vonast til að fleiri komi inn í þessa umræðu þó að auðvitað sé okkur þingmönnum þannig varið að við eigum, líkt og aðrir, erfitt með að einbeita okkur að hinum daglegu hlutum við þær aðstæður sem nú ríkja. Það er mikilvægt að við sýnum þó það fordæmi að hverfa ekki frá vinnu okkar þegar aðstæður eru með þessu móti því að það getum við ekki ætlað að aðrir borgarar samfélagsins geri.