136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

rannsóknarnefnd til að gera úttekt á fiskveiðiheimildum.

21. mál
[16:33]
Horfa

Flm. (Grétar Mar Jónsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Töluverðs misskilnings virðist gæta hjá hv. þingmanni hvað þetta varðar. Í fyrsta lagi er ekki verið að fjalla neitt um Landhelgisgæsluna eða landhelgisbrot og því síður um skoðunarstofur eða Siglingastofnun varðandi útbúnað skipa, hvort þau séu með haffærniskírteini eða hvort einhverju sé ábótavant í því.

Það sem liggur að baki frumvarpinu er að upplýsa það og reyna að nálgast það hvað verið er að kasta miklum fiski í sjóinn á hverju ári, í hverri veiðiferð og hverju verið er að landa fram hjá. Ég minni hv. þingmann á að lesa grein eftir formann Farmanna- og fiskimannasambandsins sem hann birti í Fiskifréttum en sú grein heitir „Gula hættan“. Hann talar þar um það að vegna þorskniðurskurðar á síðasta ári sé meiri hætta á því að fiski verði hent í sjóinn af því að þorskur dugi ekki sem meðafli.

Ég minni hv. þingmann líka á það að Guðmundur nokkur, forsvarsmaður Vélstjórafélags Íslands, eða deildar Vélstjórafélags Íslands í nýju sambandi, hélt ræðu á síðasta sjómannadag í Reykjavík. Menn hlustuðu þar á hann tala um brottkast á skipi sem hann hafði verið á — hann er reyndar hættur á því. Ég fagna því að til eru sjómenn sem ekki hafa tekið þátt í brottkasti og hafa aldrei heyrt af því, það er hið besta mál. En við erum að reyna að nálgast þetta mál með því — framhjálöndun, ísprufusvindl og svindl með ýmsum hætti. Við erum að reyna að komast að því hvað þetta er mikið og alvarlegt mál. Það skiptir alla máli að þetta verði upplýst en við förum ekki að draga fólk — sumt er fyrnt, annað ekki.