136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

rannsóknarnefnd til að gera úttekt á fiskveiðiheimildum.

21. mál
[16:40]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við erum örugglega sammála um það, ég og hv. þm. Grétar Mar Jónsson, að það er í góðu lagi að rannsaka áhrif fiskveiðistjórnarkerfisins sem ég er reyndar ekki stuðningsmaður fyrir. Mér finnst frumvarpið bera af því keim, andi þess er einhvern veginn í þá átt, að við sitjum undir grun, sjómenn, um að brjóta lög og reglur. Ég spurði um stjórn fiskveiða og fiskveiðilandhelgi Íslands, um lög varðandi fiskveiðar utan lögsögu og lög um umgengni nytjastofna sjávar eins og tekið er til í frumvarpsdrögunum.

Ég spurði hv. þingmann að því áðan og spyr aftur: Hvað þarf til að nefnd sem þessi, sannleiksnefnd, taki mál á dagskrá? Hann hefur nefnt í ræðum sínum og andsvörum blaðagreinar sem hafa verið skrifaðar og benda til þess að sjómenn séu (GMJ: Af forustumönnum í Sjómannasambandinu.)— já, já og hverjum sem er, mér er nákvæmlega sama um það. En dugar það, hv. þingmaður, til að nefndin taki upp mál að forustumenn Sjómannasambandsins eða einhver annar skrifi grein í blað? Duga sögusagnir, hv. þingmaður — þú sagðir áðan að sögusagnir hefðu verið um brottkast og brot á öðrum lögum og reglum varðandi sjávarútveg — til að nefndin taki mál á dagskrá? Ég tel mikilvægt að fá svar við því.

Ég endurtek að mér þykir óþægilegt vegna þess starfs sem ég gegni — ég er skipstjóri á fiskiskipi — að sitja undir því að á Alþingi sé lagt fram frumvarp í þessum anda. Ég er sannfærður um að flestum sjómönnum og flestum skipstjórnarmönnum þyki óþægilegt að alþingismenn sjái ástæðu til að setja lög með þessum hætti.