136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

endurbætur björgunarskipa.

27. mál
[16:43]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um endurbætur á björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar þar sem Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að beita sér fyrir því að ráðist verði í markvissar endurbætur björgunarskipa á árunum 2009–2014.

Saga björgunarskipa er löng hér á landi og tengist stofnun slysavarnafélaga og björgunarsveita sem stofnuð voru með stofnun Slysavarnafélags Íslands 1928. Fyrsta björgunarskipið kom til landsins 1929, var gefið hingað af kaupmanni í Reykjavík, Þorsteini Jónssyni og konu hans, og markaði tímamót í björgunarsögu okkar. Það skip fengum við á þeim tíma frá Bretlandi í gegnum þau björgunarsamtök sem við höfum átt árangursríkt og gott samstarf við á undanförnum árum.

Árið 2002 var ákveðið að fara í endurskipulagningu á útgerð og rekstri þessara skipa. Gerð skipa í kringum landið var samræmd, viðhald og þjálfun áhafna tekin til endurskoðunar, metnaðarfull áætlun sett um það og vinna við það og lagt af stað. Fjöldi skipa samkvæmt þessari endurskipulagningu var 14. Þau eru staðsett í Reykjavík, Hafnarfirði, Rifi á Snæfellsnesi, Patreksfirði, Ísafirði, Skagaströnd, Siglufirði, Raufarhöfn, Vopnafirði, Neskaupstað, Höfn í Hornafirði, Vestmannaeyjum, Grindavík og Sandgerði. Nýir staðir bættust í þessa áætlun, þ.e. Hafnarfjörður, Patreksfjörður, Skagaströnd, Vopnafjörður og Höfn, áður voru skip á þeim stöðum sem ég taldi upp.

Ákveðið var að taka í notkun svokölluð ARUN-skip sem við höfum fengið frá systursamtökum okkar í Bretlandi. Þetta eru öflug skip sem við fáum, svona 15–18 ára, skip sem þeir eru að taka úr sinni þjónustu. Reynsla af þessum skipum er mjög góð og hafa þau elstu í nokkur ár verið á Íslandi. Útbúnaður þeirra er góður og þau eru sérstaklega hönnuð og byggð með tilliti til þeirra verkefna sem þau eru notuð í. Vel fer um áhöfn í þessum skipum og þau eru það sem kallað er „all weather lifeboats“ eða skip sem hægt er að senda út við mjög erfiðar aðstæður.

Við höfum fengið þessi skip í mjög góðu standi. Systursamtök okkar í Bretlandi eru mjög öflug og hafa haft mikið fjárhagslegt bolmagn til að þróa smíði þessara skipa og reynslan af þeim er mjög góð. Það snýst um það að skrokkar og allur búnaður í þessum skipum er eins og best verður á kosið en hægt er að gera þau enn öflugri með þeim breytingum sem ég á eftir að rekja hér á eftir.

Rekstrarfyrirkomulag á þessum flota okkar, eins og reyndar í björgunarstarfinu í landinu, hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg er einstakt. Þetta byggist eins og annað á sjálfboðaliðastarfi. Það þýðir að engar greiðslur eru til áhafna, ekkert orlof, ekkert veikindafrí. Ef menn þurfa að fara frá, ef menn geta ekki staðið vaktina, koma aðrir inn. Þannig er rekstrarkostnaður við þessi skip í algeru lágmarki og enginn kostnaður við mannskap annar en sá að vélstjórar eru í hlutastörfum þar sem þetta eru það stór skip að þau þurfa reglubundið viðhald. Rekstrarkostnaður á hverju skipi er í dag áætlaður um 5–7 millj. kr. Það þýðir að heildarkostnaðurinn við verkefnið hjá Slysavarnafélaginu er 80–100 millj. kr. á ári. Í dag er framlag ríkisins til þessa rekstrar sérstaklega 37 millj. kr. Það kostar ríkið sem sagt 37 millj. kr. að reka 14 öflug björgunarskip hringinn í kringum landið.

Við höfum systursamtök í öðrum löndum þegar kemur að sjóbjörgunarþættinum. Hefð er fyrir svipuðum samtökum og við rekum á Íslandi í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og á Norðurlöndum. Er fróðlegt að bera saman möguleika þessara stóru landa til að standa í þessum rekstri sem byggður var í grunninum á sjálfboðavinnu eins og hjá okkur á Íslandi. Í áranna rás hefur orðið erfiðara hjá þeim að halda slíkri útgerð úti. Á sambærilegum skipum hjá þessum systursamtökum okkar eru orðnir launaðir starfsmenn að einhverjum hluta á þeim stöðum þar sem þau eru. Þeir hafa sem sagt færri sjálfboðaliða og færri reynslubolta. Það er það sem er svo mikilvægt hjá okkur að við gerum mjög strangar kröfur um þjálfun, námskeið í sjóbjörgunarfræðum, fyrstu hjálp, áhafnanámskeið á bátana, en áhafnirnar eru að stórum hluta víða um landið sjómenn, sjómenn sem hafa mikla staðþekkingu og mikla reynslu, menn sem hafa verið á sjó, menn sem eru á sjó og eru tilbúnir til að taka þessi verkefni að sér þegar eitthvað bjátar á.

Útkallstími þessara skipa er með ólíkindum stuttur og fjölmörg dæmi eru um að hann hefur skipt sköpum í því að bjarga mannslífum. Við höfum fjölmörg nýleg dæmi frá Vestmannaeyjum, Grindavík og mörg önnur þar sem viðbragðstími upp á 5–7 mínútur skipti öllu máli. Menn voru dregnir nær dauða en lífi úr sjónum.

Það getur líka skipt sköpum að þessi skip sem kannski eru ekki svo stór — en þau hafa samt sem áður ráðið úrslitum þegar kemur að því að koma til aðstoðar stórum skipum sem lenda í vandræðum jafnvel í innsiglingum eða rétt fyrir utan þær og hafa þá getað hjálpað þannig til að verðmæti og mannslíf hafa bjargast. Ekki er langt síðan björgunarskipið í Grindavík tók þar flutningaskip sem varð vélarvana í innsiglingunni og var við það að reka upp og náði að snúa því þannig að það rak inn í höfnina aftur. Ef þetta skip hefði farið upp í innsiglingunni hefðu afleiðingarnar orðið hrikalegar.

Það er mikilvægt að hafa þetta þéttriðna net. Fjórtán skip eru árangurinn af því verkefni sem við fórum í 2002 sem við kölluðum „Að loka hringnum“. Þá vorum við með það í huga að hafa útkallstímann ásættanlegan og sem næst helstu fiskimiðum okkar.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur gert samning við Landhelgisgæsluna og dómsmálaráðherra. Sá samningur var gerður árið 2005 um aðkomu Landhelgisgæslunnar að þessum skipum og nýtingu þeirra við þau störf sem hún þarf að sinna. Það felur í sér að starfsmenn Landhelgisgæslunnar, yfirmenn, geta hugsanlega farið um borð í þessi skip og farið með þeim í eftirlitsferðir eða aðra þá leiðangra sem þarf til að sinna verkefnum sem eru á borði Landhelgisgæslunnar. Landhelgisgæslan hefur nú sett sérstök námskeið fyrir áhafnir þessara skipa gagnvart þessu verkefni sérstaklega og haldið það með áhöfnum nokkurra skipa nú þegar.

Það gefur augaleið að með allt þetta hafsvæði sem við þurfum að sinna, og þá löngu og miklu strandlengju sem við höfum, er nánast útilokað fyrir Landhelgisgæsluna að sinna svo vel sé öllum þeim verkefnum sem hún þarf að sinna með þeim takmarkaða skipakosti sem hún hefur. Þó að við séum að endurnýja skipakostinn hjá henni gera 2–3 skip kannski ekki svo stóra hluta á nærsvæðinu, getum við sagt, þ.e. þegar nær kemur ströndinni. Það getur því verið mjög hagkvæmt rekstrarlega séð að styrkja enn frekar þessa útgerð til að hún verði betur í stakk búin til að sinna þeim fjölbreyttu verkefnum sem á þarf að halda.

Það liggur fyrir, virðulegi forseti, að nauðsynlegt er að fara í ákveðna endurbyggingu á þessum skipum að því leyti að skipta þarf um vélbúnað í þeim. Margt fæst með þeim breytingum. Það er meiri siglingahraði, það eru lengri siglingavegalengdir — fer hraðinn úr því að vera kannski 17–18 mílur upp í 23–24 mílur. Segja má að allur annar búnaður skipsins, eins og skrokkur og annar búnaður, sé til þess fallinn að líftími hans sé það langur til viðbótar að breytingar sem þessar mundu duga til að tryggja rekstur þessara skipa um nokkuð langan tíma.

Einnig er mögulegt að hugsanlegt verði að bæta við 15. skipinu. Horft hefur verið til Húsavíkur þar sem er mikil ferðaþjónusta og þó nokkur útgerð. Horft hefur verið til þess að æskilegt væri að bæta við skipi af þessari stærð á því svæði. Einnig hefur verið fjallað um — það kom fram í skýrslu sem nefnd á vegum Slysavarnafélagsins skilaði af sér en í þeirri nefnd voru fulltrúar frá Landhelgisgæslunni, frá Slysavarnafélaginu og skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna — mikilvægi þess að setja mögulega upp stærri skip á ákveðnum svæðum. Í þeirri skýrslu var nefnt að Ísafjörður og Sandgerði, og sérstaklega Ísafjörður væri til þess fallinn að gott væri að hafa þar stærra og enn öflugra skip. Aukin verkefni á svo mörgum af þessum svæðum tengjast einnig auknum siglingum skemmtiferðaskipa og aukinni komu smábáta til landsins og ferðamanna sem eru á afskekktum stöðum, mikið af erlendum skemmtibátum. Ef farið yrði í að skoða rekstur á enn stærra og öflugra skipi þá eru þetta staðirnir sem verið er að horfa til.

Enginn þarf að velkjast í vafa um það öryggi sem björgunarsveitir landsins veita okkur til lands og sjávar og ekki þarf að hafa mörg orð um þann þjóðhagslega ávinning sem er af þessu rekstrarfyrirkomulagi. Það verður vart mælt í fjármunum. Kannski má segja á þessum síðustu og verstu tímum — þar sem fyrir liggur að við munum tímabundið þurfa að draga saman í ríkisrekstri okkar — sé enn vænlegra að fjárfesta meira í þeim mannauði sem liggur í fólki sem er tilbúið til að gefa vinnu sína hvenær sem er allan sólarhringinn og skapa því vettvang til að geta sinnt enn öflugra og meira starfi. Rekstur þessara björgunarsveita félagsins er mjög stór í hlutfalli við aðra hluta í rekstri þeirra enda er um að ræða öflug og stór skip sem geta brugðist við erfiðum aðstæðum.

Það framlag sem verið er að tala um, virðulegi forseti, ef tekin yrði ákvörðun um að endurnýja vélbúnað þessara skipa á fimm árum, nemur 45 millj. kr. á ári. Það þyrfti félagið að fá til að geta endurnýjað um það bil þrjú skip eða vélbúnað í þremur skipum á ári. Þarna er verið að ræða um framlag til að skjóta styrkari stoðum undir þessa mikilvægu starfsemi og leggja lið við þessa mikilvægu endurbyggingu.

Full ástæða er til að skoða síðan þann möguleika sem ég nefndi hér áðan að félagið geti útvegað sér stærri skip. Í samvinnu við þessi systurfélög okkar og vinafélög í Evrópu hefur félagið getað fengið þessi stóru og öflugu skip. Þau félög eiga enn stærri og öflugri skip sem þau afsetja á ákveðnum tíma og ekki ástæða til að ætla annað en þau standi Íslendingum til boða. Mikið traust ríkir milli þessara aðila og forsvarsmenn stórra björgunarsamtaka í Evrópu, systursamtaka félagsins, hafa sagt mér að þeir treysti Íslendingum einum til að taka að sér svona stór skip. Aðrir vilja fá þau, margir aðrir víðar, en þeir treysta okkur af því að við höfum sýnt ábyrgð og höfum mannskap til að takast á hendur þessi verkefni. Hagkvæmnin er ótvíræð og í því sambandi má nefna að við nýja landhelgisáætlun, sem var lögð fram, er reiknað með að kostnaður við aukið úthald varðskipa verði um 250 millj. kr. á næsta ári þannig að þegar kemur að því að ræða þessi framlög þá eru þetta smáaurar ef maður ber það saman við allt annað á þessum vettvangi.

Meðflutningsmenn mínir á þessari þingsályktunartillögu eru þingmenn allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi. Þar kristallast sú pólitíska samstaða sem er og hefur verið um að standa vörð um þetta merka starf í samfélagi okkar. Vonandi dugar hún til að hleypa okkur, virðulegi forseti, inn í þennan áfanga.