136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

endurbætur björgunarskipa.

27. mál
[16:58]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það þarf í rauninni lítið að segja um tillöguna. Hún er mjög góð og verður til að bæta öryggi sjófarenda hringinn í kringum landið og stuðla að því að skipt verði um vélar í þessum skipum eða þau löguð til eins og þarf.

Ég vil aðeins minnast á það sem hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á varðandi stærri björgunarskip. Það er gott að eiga einhver stærri skip en þau sem við erum með. Það sýnir reynslan af þessum björgunarskipum. Stærri skip voru í Sandgerði en eru núna og annars staðar þannig að þau eru dýrari í rekstri og erfiðara að reka þau. Gerðar eru meiri kröfur um réttindi vélstjóra af því að vélarnar eru til þess að gera stórar í þessum bátum. Það er ýmislegt að athuga hvað þetta varðar en ég get ekki ímyndað mér annað en að í þinginu verði samstaða um að fylgja þessu eftir og gera það að raunhæfum veruleika að bæta og laga þessi skip. Ég mun styðja það.

Ég sé ekki ástæðu til að segja meira um þetta. Þetta er sjálfsagður hlutur og íslensk sjómannastétt á það skilið, hetjur hafsins og hermenn þjóðarinnar, sem aldrei er meiri þörf á en nú. Þegar þarf að búa til gjaldeyristekjur fyrir þjóðfélagið, sem er nánast komið að fótum fram, reynir aftur á þessa grunnatvinnuvegi okkar, sjómennsku og landbúnað. Til að brauðfæða okkur og skapa gjaldeyristekjur, sérstaklega úr hafinu, þurfum við að auka veiðar og þá þarf sá þáttur að vera í lagi sem snýr að björgunarskipum og aðstoðarskipum. Sem betur fer er ekki alltaf um líf og dauða að tefla en slík skip geta aðstoðað flotann með ýmsum hætti. Þau geta svo að dæmi sé tekið siglt með varahluti langar leiðir sem þau hafa verið að gera. Ég þekki það sérstaklega úr Sandgerði. Þau hafa jafnvel siglt út fyrir 200 mílurnar með umbúðir og þau veita þjónustu með ýmsum hætti. Ekki má heldur gleyma því fólki sem starfar í þessum björgunarsveitum hringinn í kringum landið. Það vinnur frábært verk kauplaust af hugsjón einni saman. Slysavarnafélag Íslands er sennilega einsdæmi í heiminum hvað alla þá sjálfboðavinnu varðar.