136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

vatnalög.

23. mál
[13:50]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á vatnalögum. Þetta er gamall kunningi okkar þingmanna. Sennilega hafa ekki staðið jafnmiklar deilur um nokkurt annað mál. Frumvarpið er samið á grundvelli niðurstaðna vatnalaganefndar sem ég skipaði í kjölfar frestunar á gildistöku nýrra vatnalaga síðastliðið haust.

Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra þingflokka auk fulltrúa iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra. Nefndinni var falið að skoða samræmi nýrra vatnalaga við þau lagaákvæði íslensks réttar sem tengjast vatni og réttindum sem varða vatn. Nefndin skilaði niðurstöðum sínum 15. september ásamt ákaflega ítarlegri skýrslu sem ég held að sé orðin kennslugagn við háskóla landsins. Nefndin vann mjög mikið og gott starf og ég vil þakka öllum þeim sem að þeirri vinnu komu og ekki síst formanni nefndarinnar fyrir vel unnin störf og fyrir að hafa leitt til niðurstöðu sem um ríkti fullkomin eindrægni innan nefndarinnar.

Ekki er ástæða til að rekja aðdraganda málsins í smáatriðum en ég minni þó á að skipun vatnalaganefndar átti rætur að rekja til samkomulags sem var gert á Alþingi í kjölfar mikilla umræðna vorið 2006 milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þá var ég í stjórnarandstöðu og kom að því samkomulagi sem gert var við hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra Valgerði Sverrisdóttur. Samkomulagið átti að freista þess að binda enda á miklar deilur sem lengi höfðu staðið um efni frumvarpsins einkum breytta skilgreiningu á yfirráðum landeigenda yfir vatni á landi sínu.

Í skýrslu vatnalaganefndar er farið rækilega í saumana á ágreiningnum en þar kemur jafnframt fram að nefndin leitaðist við að færa umræðu um vatnalögin og vatnamálin öll úr farvegi deilna sem segja má að hún hafi lokast í. Nefndin leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að sátt ríki í samfélagi okkar um hvaða reglur skuli gilda um ráðstöfun og nýtingu þeirrar mikilvægu auðlindar sem vatnið er.

Ég geri ráð fyrir að flestir þingmenn, sem hafa látið sig þetta mál varða, þekki tillögur vatnalaganefndar. Ég ætla samt í örstuttu máli að reyna að grípa utan um kjarnann í niðurstöðunni. Það var einróma samstaða í nefndinni að leggja til að umfangsmikil endurskoðun færi fram á vatnalögunum, nr. 20/2006. Meginástæðan er að nefndin telur ekki tryggt að fullnægjandi tillit verði tekið til hagsmuna almennings gagnvart vatni taki lögin gildi óbreytt.

Þess vegna leggur vatnalaganefnd til að gildistöku laganna verði frestað tímabundið á meðan unnið verði að endurskoðun þeirra í samræmi við tillögur sem koma fram í þessari miklu skýrslu, sem er á þriðja hundrað blaðsíður. Tillögurnar eru ekki svo umfangsmiklar en grunnur þeirra er sá texti sem liggur fyrir. Tillögur vatnalaganefndarinnar um endurskoðun laganna miða að því að afmarka og skýra réttindi bæði landeigenda og almennings gagnvart vatni og byggja á því sjónarmiði að það verði einungis gert með því að skoða í samhengi þá hagsmuni sem eru bundnir við vatnsauðlindina.

Í tillögunum er m.a. gert ráð fyrir að réttindaákvæði og markmiðsákvæði vatnalaganna verði endurskoðuð en nefndin leggur líka til heildarendurskoðun á stjórnsýsluákvæðum laganna m.a. til að tryggja að þau taki mið af ólíkum hagsmunum, sem eru tengdir við þessa mikilvægu auðlind okkar. Nefndin telur rétt að endurskoðunin haldist í hendur við innleiðingu vatnatilskipunar ESB í íslenskan rétt.

Innleiðingin er ekki í verkahring iðnaðarráðuneytisins heldur umhverfisráðuneytisins og stefnt er að því að henni skuli lokið fyrir árslok 2009. Vinna við frumvarp til þess að innleiða þessa tilskipun er hafin í umhverfisráðuneytinu en það er hins vegar ljóst að verkefnið verður mjög umfangsmikið.

Eins og ég hef þegar sagt var samstaða í vatnalaganefnd um tillögurnar sem nefndin skilaði mér í síðasta mánuði. Ég er þeirrar skoðunar sjálfur að niðurstöður og tillögur nefndarinnar séu vel ígrundaðar og rökstuddar. Til þess að skapa svigrúm fyrir vinnuna er í frumvarpinu lagt til að gildistöku laganna verði frestað að nýju og nú til 1. júlí 2010. Með hliðsjón af því þarf líka að lengja aðlögunartíma vatnafélaga, þ.e. frest þeirra til að laga starfsemi að lögunum. Sömuleiðis er gert ráð fyrir að gildistökubreytingu á lögum um varnir gegn landbroti verði frestað til samræmis. Í frumvarpinu er svo kveðið á um að iðnaðarráðherra skuli í samráði við umhverfis- og forsætisráðherra skipa nefnd til þess að endurskoða ákvæði vatnalaga, nr. 20/2006, á grundvelli niðurstaðna sem vatnalaganefnd skilaði samhljóða frá sér.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta frumvarp en legg til að þegar umræðunni lýkur verði því vísað til hv. iðnaðarnefndar til meðhöndlunar.