136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

vatnalög.

23. mál
[13:56]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Óþarft er að hafa mörg orð um frumvarpið sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur fram en það varðar fyrst og fremst frestun á gildistöku hinna ómögulegu vatnalaga sem ollu hér miklum deilum, sem ekki þarf að rifja upp.

Ég sat í nefndinni sem skilaði tillögunum sem áframhaldandi vinna verður byggð á og vil því segja að mér finnst mjög mikilvægt að þessi niðurstaða skuli hafa náðst og að þverpólitísk sátt skuli vera um frestun gildistökunnar og að lögin sem við nú erum að fresta skuli þá tekin upp. Þá er ljóst að þau taka ekki gildi í óbreyttri mynd og það er að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni.

Ég vil hvetja hæstv. iðnaðarráðherra til að tryggja að nefnd sú sem skipuð verður á grundvelli 2. gr. frumvarpsins verði eins fjölskipuð og vera má og í henni verði fyrst og fremst sérfræðingar á sviði auðlindaréttar. Við höfum afar slæma reynslu af því að fela eingöngu lögfræðingum samningu frumvarps til vatnalaga.

Því legg ég til að hæstv. iðnaðarráðherra tryggi að fjölskipað lið sérfræðinga komi að vinnu næsta frumvarps sem við fáum vonandi að fjalla um á Alþingi Íslendinga áður en langt um líður eða þegar sú nefnd hefur lokið störfum.

Við erum bundin af alþjóðasamningum á borð við Ríó-yfirlýsinguna þar sem meginreglur umhverfisréttar eru þær reglur sem hafa á í heiðri við auðlindanýtingu. Einnig þarf að tryggja að nefndin sem tekur næstu skref vinni samkvæmt alþjóðasamningum og tryggi að meginreglur umhverfisréttar verði þær reglur sem byggt verður á í komandi löggjöf.

Nefndin fékk upplýsingar um að úrbóta væri þörf og því er eðlilegt og nauðsynlegt að stjórnsýsluþátturinn verði endurskoðaður. Að lokum tel ég ríkisstjórnina hafa klúðrað ágætu tækifæri sem hún hafði á síðasta vetri þegar farið var í gegnum breytingar á stjórnsýslunni og skipan í ráðuneyti. Þar var tækifæri til rýmri og róttækari breytingar hvað varðar auðlindaþáttinn og gera umhverfisráðuneytið að umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Ég treysti því og vona að sú endurskoðun á stjórnsýsluþættinum sem fer fram á grundvelli frumvarpsins styrki umhverfisráðuneytið og færi Íslendingum umhverfis- og auðlindaráðuneyti.