136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

vatnalög.

23. mál
[14:00]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er kominn gamall kunningi, svo ekki sé meira sagt. Það er ekki hægt að neita því að það er mjög vandræðalegt ástand uppi, þ.e. að stjórnarflokkarnir skuli ekki geta komið sér saman um hvernig þeir lenda þessu máli og þá er ráðið að fresta því. Sú nefnd sem nú tekur við má vera eins stór og hæstv. ráðherra sýnist en ég held að því stærri sem hún verður þeim mun meiri verði líkurnar á að hún nái engri niðurstöðu. Það segi ég í framhaldi af orðum síðasta ræðumanns.

Þetta mál snýst um vatnið en þegar fjallað var um það stóra mál á sínum tíma og nýju lögin voru sett var reynt að koma þeim skilaboðum til þjóðarinnar að verið væri að einkavæða vatnið. Á þeim tíma heyrðist allt mögulegt úr þessum ágæta ræðustóli. Auðvitað snerist málið alls ekki um það. Ef vatnið var einhvern tíma einkavætt gerðist það árið 1923 því að þau lög sem voru sett á síðasta kjörtímabili voru fyrst og fremst lög sem breyttu nálguninni úr jákvæðri í neikvæða.

Stóra spurningin í málinu er einfaldlega hvort við ætlum að þjóðnýta vatnið eða hvort við ætlum að virða einkaeignarréttinn. Það er það sem ríkisstjórnin berst nú við að ná samkomulagi um og gengur ekki betur en raun ber vitni. Ef fara á út í þjóðnýtingu verður það ekki gert öðruvísi en að bæta landeigendum skaðann vegna þess að hæstaréttardómar sýna og fræðimenn segja að eignarrétturinn sé landeigendanna, samkvæmt lögunum frá 1923. Það eiga sumir erfitt með að sætta sig við.

Hæstv. forseti. Ég held að ekki sé ástæða til þess að orðlengja mjög um þetta mál hér. Það verður að halda áfram að reyna að komast að niðurstöðu, sérstaklega stjórnarflokkarnir, en við framsóknarmenn gætum alveg þegið að taka þátt í því starfi sem fram undan er ef um það er að ræða að skipa nefnd allra stjórnmálaflokka. Mér finnst staðan ekki síður neyðarleg fyrir Sjálfstæðisflokkinn, að hann skuli vera kominn í þá stöðu að geta ekki staðið með þeim lögum sem flokkurinn setti á síðasta kjörtímabili. Í ríkisstjórninni sem þá var og með þeim flokkum sem áttu aðild að henni var samstaða um þessi lög og að lagasetningin væri mikilvæg þar sem gömlu lögin, eins og komið hefur fram, voru frá árinu 1923.

Við framsóknarmenn höfum lagt áherslu á að breyta ekki réttarstöðu landeigenda og frá því munum við ekki hverfa. Hins vegar náðist samstaða í nefndinni sem starfaði þá um að málinu yrði frestað eins og hér er lagt til. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við þá niðurstöðu en vildi bara koma því á framfæri að staðan er mjög neyðarleg fyrir stjórnarflokkana.