136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

vatnalög.

23. mál
[14:10]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að sú niðurstaða sem vatnalaganefnd komst að sýni það og sanni að stjórnarflokkarnir eru ekki ósammála í þessu máli og ég fæ ekki betur séð en að allir flokkar í landinu, þar á meðal flokkur hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, séu sammála um að fara beri yfir ákveðna þætti varðandi vatnamálin. Ef einhver er ósammála því er það hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir og hún er þá ósammála fulltrúa sínum í nefndinni.

Ég veit ekki hvernig þróun mála verður varðandi vatnalögin fram að næstu kosningum að öðru leyti en því að skipuð verður nefnd sem hefur fengið það hlutverk að fara yfir þá þætti sem gerð er grein fyrir í frumvarpinu. Það verður farið yfir hvort ástæða er til að breyta stjórnsýslu vatnamála, gera hana einfaldari og skilvirkari. Jafnframt verður farið yfir hvort ástæða sé til þess að breyta lögum, vatnalögum, náttúruverndarlögum eða öðrum lögum sem varða vatn og vatnsréttindi, til þess að undirstrika og skýra betur réttindi almennings til vatns. (Gripið fram í.)Allt vitað, segir hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Ég er ekki viss um að allir samflokksmenn hennar séu sammála um það. En þrátt fyrir að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir viti allt þegar kemur að þessum málaflokki komu athugasemdir úr samfélaginu þar sem óskað var eftir því að yfir málið væri farið og það er beinlínis vandræðalegt ef einhver stjórnmálaflokkur eins og t.d. Framsóknarflokkurinn ætlar ekki að svara því eðlilega kalli.