136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

vatnalög.

23. mál
[14:12]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um einfalt frumvarp sem kallar ekki á beinar efnisumræður um vatnalög því að það er mögulegt að taka ákvörðun um að taka ákvörðun og svo er hægt að taka ákvörðun um að taka ekki ákvörðun. Það sem verið er að taka ákvörðun um í þessu lagafrumvarpi er að taka ekki ákvörðun heldur að fresta ákvörðun eitthvað fram í tímann. Það er í raun það sem verið er að fjalla um og getur verið besti kosturinn þegar ... Ég vil biðja hv. 8. þm. Reykv. n. að bíða augnablik. Ég ætla að aðeins víkja að því sem kom upp varðandi andsvör.

Verið er að kalla á aukið svigrúm, taka ákvörðun um að skipa nefnd til þess að endurskoða ákvæði laganna og í sjálfu sér er ekkert við það að athuga. Þingflokkur Frjálslynda flokksins styður frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra. Ég vil þó, vegna þeirra umræðna sem hér hafa orðið, aðeins geta um nokkur atriði. Þar sem mér er málið skylt vil ég í fyrsta lagi, vegna ummæla hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um lögfræðinga, vekja athygli á því að vatnalögin, nr. 15/1923, voru með eldri lögum og reyndust mjög vel. Það kemur fram í þeirri greinargerð sem hér er lögð fram. Þar kom Einar Arnórsson, sá virti lagaprófessor og lögfræðingur, fram með ákveðna sáttatillögu sem varð grunnurinn að þeim vatnalögum sem um hefur verið rætt og gilt hafa. Það er ekki hægt að fella dóm um eina starfsstétt þó að ágreiningur verði í einhverju máli.

Að öðru leyti varðandi það sem hér hefur verið rætt um, m.a. orðaskipti hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og Valgerðar Sverrisdóttur, kemur fram í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu að um er að ræða ágreining um hvernig fara skuli að.

Varðandi það segir í greinargerðinni:

„Þótt umboð vatnalaganefndar standi ekki til þess að gera beinar og ítarlegar tillögur um breytingar á vatnalögum, nr. 20/2006, telur nefndin rétt að leggja til að orðalag 4. gr. laganna verði endurskoðað.“

Síðan segir:

„Ljóst er að um þessa grein hafa skapast miklar deilur sem ekki hefur reynst unnt að kveða niður þrátt fyrir að miklar og ítarlegar umræður.“

Með þessum orðum er því í raun verið að segja að innan nefndarinnar hafi verið og séu miklar deilur sem ekki hafi tekist að kveða niður þrátt fyrir ítarlegar umræður. Það er því ljóst að það er mikill ágreiningur innan ríkisstjórnarflokkanna um þessi atriði. Það er ekkert við það að athuga og ríkisstjórnarflokkarnir vinna bara úr því en þess vegna verður að kalla eftir frestun til 2011 vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir koma sér ekki saman, ekki einu sinni um vatn.

Ég lýsi því yfir að þingflokkur Frjálslynda flokksins styður þetta frumvarp.