136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

vatnalög.

23. mál
[14:18]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst svo er að ágætissamstaða er milli ríkisstjórnarflokkanna um það hvernig haga skuli skipan vatnamála á Íslandi þá er mér það nokkuð illskiljanlegt að ekki skuli hafa tekist að koma fram með heildstætt frumvarp um vatnalög í stað þess að leggja til að taka ekki ákvörðun heldur fresta málinu og setja það ítrekað í nefnd. Hvernig stendur á því? Er það vegna þess — (Gripið fram í.) ég bið hv. þingmann, séra Karl V. Matthíasson, að ganga á guðs vegum og trufla ekki þessa mikilvægu umræðu en ég spyr: Þegar það liggur fyrir, eins og kom fram hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, að það sé full samstaða eftir því sem ég gat best greint í máli hans milli þeirra sem sátu í nefndinni af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og reyndar fleiri nefndum, er þá það orðalag sem ég vísaði til í ræðu minni eingöngu vegna þess að sjónarmið hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur úr Vinstri grænum eru andstæð? Tefur það fyrir eðlilegri afgreiðslu nýrra vatnalaga? Mér finnst það nokkuð sérstætt og kannski spurning um hvort taka eigi upp ný og önnur vinnubrögð í þinginu ef eitt minnihlutaálit veldur því að ríkisstjórnarflokkunum tekst ekki að koma með frumvarp í jafnmikilvægu máli og hér um ræðir. Ég veit ekki annað en að t.d. fulltrúi Frjálslyndra í nefndinni hafi sýnt fulla samstöðu með formanni nefndarinnar um afgreiðslu málsins. Það er kannski og seint að spyrja svona en hæstv. iðnaðarráðherra getur þá svarað því: Er ágreiningur milli Vinstri grænna og annarra í nefndinni þá það eina sem tefur afgreiðslu málsins í nefndinni?