136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

samvinnu- og efnahagsráð Íslands.

5. mál
[15:14]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það eru skelfileg tíðindi í peningamálum heimsins þessa dagana en að nota hryðjuverkalög á íslenska banka er ótrúlegur gjörningur. Við verðum að svara því með öllum þeim ráðum sem við kunnum og eigum við að hugleiða hvort við eigum hreinlega að slíta stjórnmálasambandi við Breta.

En við megum heldur ekki gleyma því að við höfum áður átt í stríði við þessa þjóð. Við áttum í fiskveiðideilum við þá margoft og þeir fóru nú alltaf halloka fyrir íslensku þjóðinni, þeirri litlu þjóð. Það má nefna að í þorskastríðunum voru fréttirnar yfirleitt á þann veg að íslensk varðskip væru að gera árásir á tíu sinnum stærri herskip þannig að við megum kannski búast við ýmsu frá Bretum.

Ég vil ekki alveg hvítþvo okkur af öllu varðandi þessi mál. Yfirlýsingar ýmissa manna eins og seðlabankastjóra, fjármálaráðherra og annarra um að slíta eigi íslensku bankana frá erlendri bankastarfsemi og við ætlum ekki að borga skuldir, ekki að láta Jón og Gunnu í Breiðholtinu borga skuldir íslenskra fjárglæframanna erlendis — það gefur náttúrlega augaleið að við verðum að líta í eigin barm þegar við fjöllum um þessi mál. Menn sem hafa verið í forustu fyrir okkur hafa ekki talað af mikilli gætni og verið ótrúlega brattir í ummælum sínum. Ég held að við verðum að líta í eigin barm og kanna hvort þeir hafi ekki ögrað óþarflega mikið með alls konar ótímabærum yfirlýsingum og gjörningum sem kallað hafa á reiði og annars konar viðbrögð frá erlendum stjórnmálamönnum í okkar garð. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að lítum í eigin barm varðandi hvernig við höfum staðið að málum.