136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[15:17]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég flyt tillögu til þingsályktunar ásamt hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, Grétari Mar Jónssyni, Atla Gíslasyni, Jóni Bjarnasyni og Ögmundi Jónassyni þar sem segir:

„Alþingi ályktar að hlíta beri niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 24. október 2007 í máli nefndarinnar nr. 1306/2004 þess efnis að fiskveiðistjórnarkerfi Íslendinga, sbr. lög nr. 116/2006, áður lög nr. 38/1990, brjóti í bága við alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland staðfesti með auglýsingu utanríkisráðherra nr. 10 frá 28. ágúst 1979 í samræmi við þingsályktun hinn 8. maí 1979. Enn fremur að breyta verður lögum um stjórn fiskveiða í samræmi við fyrrgreindan úrskurð til að tryggja jafnræði borgaranna, sanngirni og mannréttindi.“

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna tók afstöðu til þess máls sem hér um ræðir og komst að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða brot, að Ísland bryti gegn 26. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi með því hvernig fiskveiðilöggjöfinni væri háttað. 26. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg réttindi er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Allir eru jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Lögin skulu því í þessu skyni banna hvers konar mismunun og ábyrgjast öllum mönnum jafna og raunhæfa vernd gegn mismunun svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis …“.

Það er þarna sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna kemst að þeirri niðurstöðu að við brjótum gegn ákvæðum um almenn mannréttindi. Við skulum hafa í huga að mannréttindi eru algild. Frá þeim verður ekki vikið með einum eða neinum hætti.

Í niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar segir að meginálitaefnið sé hvort kærendur verði að lögum skyldaðir til að greiða samborgurum sínum fé til að afla sér fiskveiðiheimilda sem séu nauðsynlegar til að eiga kost á að veiða í atvinnuskyni kvótasettar fisktegundir í eigin lögsögu.

Einnig segir að óeðlilegt sé að ákveðinn hópur fiskveiðimanna þurfi að kaupa eða leigja kvóta frá fyrri hópnum en öðrum sem hefur keypt kvóta af honum ef þeir vilja stunda veiðar á kvótasettum fisktegundum af þeirri einföldu ástæðu að þeir áttu ekki eða ráku ekki fiskiskip á því tímabili sem þar var fjallað um.

Við flutningsmenn þingsályktunartillögunnar teljum að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sé ósanngjarnt. Það brjóti gegn jafnrétti manna, samanber einnig jafnræðisreglu íslensku stjórnarskrárinnar. Þá telja flutningsmenn verulegan vafa leika á því að lög nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, samrýmist ákvæðum 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi.

Í niðurstöðu álits mannréttindanefndarinnar segir að þar sem aðildarríkið — þ.e. Ísland — hafi ekki sýnt fram á að þessi sérstaka skipan á útfærsluformi kvótakerfisins fyrir nýtingu takmarkaðra auðlinda við samninginn sem slíkan álykti nefndin að í sérstökum aðstæðum fyrirliggjandi máls séu forréttindi í mynd varanlegs eignarréttar sem veitt voru upphaflega handhöfum kvótans til óhagræðis fyrir höfundana og ekki byggð á sanngjörnum forsendum.

Það kerfi sem við búum við í fiskveiðistjórn er ekki byggt á sanngjörnum forsendum og er til óhagræðis fyrir alla þá sem þurfa að kaupa heimildir. Mannréttindanefndin telur sem sagt að um sé að ræða brot á 26. gr. samningsins sem ég vísaði til.

Í samræmi við þetta hefur aðildarríkið Ísland, sem er aðili að Sameinuðu þjóðunum, skuldbundið sig til að gera raunhæfa úrbót og borga skaðabætur og endurskoða fiskveiðistjórnarkerfi sitt. Í áliti nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

„Hafandi í huga að aðildarríkið hefur sem aðili að valkvæðu bókuninni viðurkennt valdsvið nefndarinnar til að ákveða hvort brot á samningnum hafi átt sér stað eða ekki, og að aðildarríkið hefur tekið að sér samkvæmt 2. gr. samningsins að tryggja öllum einstaklingum á yfirráðasvæði innan lögsögu þess þau réttindi sem viðurkennd eru í samningnum og veita raunhæfa og aðfararhæfa úrbót ef brot hefur verið staðfest, þá óskar nefndin eftir upplýsingum frá aðildarríkinu innan 180 daga um ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að fylgja eftir skoðunum nefndarinnar.“

Ég vík síðar að því með hvaða hætti ríkisstjórnin kaus að svara þessum tilmælum og raunar kröfu mannréttindanefndarinnar.

Spurningin er þá: Hvaða gildi hefur niðurstaða mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna? Þorgeir Örlygsson, sá virti fræðimaður í lögfræði, skrifaði eitt sinn grein sem hét: Hver á kvótann? Í umfjöllun í Morgunblaðinu segir, með leyfi forseta:

„„Þegar svo er komið málum er eðlilegt að menn spyrji sig þeirrar spurningar, hvort það fái staðist að afhenda tiltölulega fáum einstaklingum jafnverðmæt réttindi yfir sameiginlegri auðlind þjóðarinnar,“ sagði Þorgeir. „Því er til að svara, að í lagalegum skilningi stenst þetta kerfi í aðalatriðum. Hvort það hins vegar stenst siðferðilega og er að öllu leyti réttlátt, er fyrst og fremst háð siðferðilegu og pólitísku mati, ekki lögfræðilegu.““

Það má lesa út úr því sem hinn virti fræðimaður Þorgeir Örlygsson segir þarna að hann telur á það skorta að um sé að ræða að kvótakerfið standist siðferðilega og það sé réttlátt. En það er að sjálfsögðu háð pólitísku mati. Þess vegna er þessi þingsályktunartillaga lögð fyrir Alþingi Íslendinga að við hv. alþingismenn leggjum siðferðislegt og pólitískt mat á þetta óréttláta kerfi, þau mannréttindabrot sem verið er að fremja á hverjum einasta degi, og tökum ákvörðun um að fara að þeim sjónarmiðum og kröfum sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gerir hvað þetta varðar.

Það er athyglisvert að þegar fyrir lá sú niðurstaða sem hér um ræðir brást hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem sér ekki ástæðu til að vera viðstaddur þessa umræðu, við með þeim hætti að segja að álitið væri ekki bindandi að lögum. Hvað hafði hann fyrir sér í því? Ekki hafði hann niðurstöðu mannréttindanefndarinnar fyrir sér því að í því áliti segir að Ísland hafi að öllu leyti viðurkennt þann samning og lögsögu sem um er að ræða auk þess sem aðildarríkið Ísland hafi tekið til varnar fyrir nefndinni.

Hinn virti lögfræðilegi fræðimaður og fyrrverandi forseti Hæstaréttar, Magnús Thoroddsen, segir að þær raddir hafi heyrst að álit mannréttindanefndarinnar sé ekki bindandi fyrir íslenska ríkið en hann sé því ósammála. Hann segir að íslenska ríkið sé aðili að alþjóðasamningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og hafi einnig fullgilt valfrjálsa bókun við samninginn. Hann bendir í öðru lagi á að það sé viðurkennd regla í lögfræði að túlka beri samninga með hliðsjón af tilgangi þeirra. Hann segir í þriðja lagi að alþjóðasamningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi hafi ekki lagagildi hér á landi en það hafi mannréttindasáttmáli Evrópu heldur ekki en engu að síður hafi verið farið eftir honum við dómaframkvæmd. Að lokum bendir hinn virti lagamaður Magnús Thoroddsen á að í þessu sambandi sé rétt að vekja athygli á því sem meiri hluti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna hafi um þetta að segja sem ég vísaði til hér áðan.

Í mjög góðri og vel gerðri ritgerð og áður úttekt sem Aðalheiður Ámundadóttir fjárlaganemi gerði um gildi álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna bendir hún á mjög gild rök um gildi álitsins í þjóðarrétti og kemst að þeirri niðurstöðu að niðurstöður samningsins séu óumdeilanlega bindandi fyrir íslenska ríkið.

Ég vil þá víkja að því sem helsti sérfræðingur ríkisins í þessum málum, Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, hafði um málið að segja. En þar kom fram stuttu eftir að álitið birtist almenningi eða 12. janúar 2008, hún segir

„Ég lít ekki svo á að stjórnvöld geti hunsað álitið þó það hafi engar lagalegar afleiðingar.“

Það liggur fyrir að ekkert refsivald gerir athugasemdir við að alþjóðleg lögregla taki að sér einhverjar aðgerðir gagnvart Íslandi af því við erum að brjóta rétt á okkar eigin borgurum með sama hætti og einræðis- og ofstjórnarríki hafa í gegnum tíðina gert. Þau hafa verið dæmd fyrir mannréttindabrot. Mörg þeirra hafa farið eftir því og gert bragarbót en í þessu tilviki er um það að ræða að það er undir ríkjunum sjálfum komið hvort þau vilja halda áfram að brjóta mannréttindi eða ekki.

Við flutningsmenn tillögunnar erum sammála um að fiskveiðistjórnarkerfið sé ósanngjarnt. Það er í samræmi við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þetta er ósanngjarnt kerfi. Það er brot á 26. gr. ákvæðanna sem við höfum undirgengist. Það er brot á jafnræðisreglu þegnanna. Hvernig eigum við að bregðast við? Ég tel að hér sé svo stórt og afdrifaríkt mál að ekki sé hægt að bregðast við með öðrum hætti en þeim að taka undir þá kröfu, sem við frjálslynd höfum m.a. ítrekað sett fram, að gjafakvótakerfið verði afnumið. Við höfum gert þá kröfu að komið verði á allt öðrum viðmiðunum í stjórn fiskveiða þannig að atvinnufrelsis borgaranna sé gætt, að ákvæðum stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi sé fullnægt, að ákvæðum stjórnarskrárinnar um jafnræði borgaranna sé fullnægt þannig að einn þurfi ekki að kaupa það sem annar fær gefið af ríkinu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir:

„Tryggja skal stöðugleika í sjávarútvegi. Gerð verði sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða og áhrifum þess á þróun byggða.“

Og hver hafa nú áhrifin orðið? Það liggur fyrir að byggðirnar eru að komast í þrot. Enn er mannréttindabrotum haldið áfram og við flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu, sem fluttum hana á síðasta þingi, fórum fram á að hún gæti komið til efnislegrar afgreiðslu fyrir þinginu, þ.e. að hún yrði afgreidd úr nefnd þannig að Alþingi gæti greitt atkvæði um málið. Það varð ekki og því er málið endurflutt af okkar hálfu. Í millitíðinni frá því að við fluttum þessa þingsályktunartillögu á sínum tíma skal geta þess að ríkisstjórnin fékk 180 daga til að gera ráðstafanir til að bregðast við og gera bragarbót á kerfinu. Og hvað liggur fyrir og hvað sagði ríkisstjórnin? Jú, í svari við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 9. júní sl. segir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, með leyfi forseta:

„Að framan eru rakin viðhorf og viðbrögð íslenska ríkisins við áliti mannréttindanefndarinnar 24. október 2007 vegna erindis nr. 1306/2004. Samkvæmt því verða kærendum ekki greiddar skaðabætur né fiskveiðistjórnarkerfinu íslenska umbylt í einu vetfangi. Hins vegar er boðað að efnt verði til allsherjarendurskoðunar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu í náinni framtíð með breytingar í huga þannig að komið verði til móts við kröfur mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna eftir því sem unnt er. Þessi viðbrögð eru hér með kynnt mannréttindanefndinni.“

Hvað segir þetta svar sjávarútvegsráðherra sem ber að skoðast sem svar ríkisstjórnarinnar? Það segir einfaldlega: Við ætlum ekki að fara að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Við ætlum að halda áfram mannréttindabrotum. Ég tel það ekki ásættanlega niðurstöðu. Það er því krafa okkar flutningsmanna að Alþingi Íslendinga fái að greiða um það atkvæði og taki um það ákvörðun að íslenska ríkið skuli fara að mannréttindum, fara að niðurstöðu mannréttindanefndarinnar. Tillagan er lögð fram til þess, virðulegi forseti, og mælist ég til að henni verði vísað til sjávarútvegsnefndar (Forseti hringir.) að lokinni þessari umræðu.