136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[15:42]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ekki veit ég í hvaða ástandi hv. þm. Grétar Mar Jónsson var í gær í umræðum um þingsályktunartillögu um að setja enn einn yfirfrakkann á sjómenn og útgerðarmenn. Hann vísaði áðan til þátttöku minnar í henni og túlkaði orð mín sem stuðning við íslenska kvótakerfið. Hann má fara eins langt í því og hann vill.

Hér er um að ræða þingsályktunartillögu sem snýr að úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna fyrr á þessu ári um óréttmæti í kvótakerfinu. Við því áliti sendi ríkisstjórnin svar í sumar, reyndar á síðustu stundu og án þess að leggja það til umræðu á Alþingi eða láta opinbera umræðu fara fram um það.

Í svari ríkisstjórnarinnar til Sameinuðu þjóðanna segir m.a., með leyfi forseta:

„Fyrir liggur að í áliti mannréttindanefndar SÞ er komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu þeirri sem felst í 26. gr. í the Covenant on Civil and Political Rights.“

Enn fremur segir, með leyfi forseta:

„Fullyrða má að jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrár Íslands og jafnræðisregla 26. gr. í the Covenant on Civil and Political Rights hafa sama efnislega inntak.“

Þ.e. að ekki skuli mismuna. Þegnum landsins skuli ekki vera mismunað og allir skuli standa jafnir fyrir lögum. Í svarinu segir einnig, með leyfi forseta:

„Í áliti mannréttindanefndarinnar í þessu máli er þess getið að þessar raunhæfu úrbætur skuli vera m.a. skaðabætur og endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Sá vandi sem íslensk stjórnvöld standa m.a. frammi fyrir er að af áliti mannréttindanefndarinnar verður ekki ráðið hversu langt verði í raun að ganga til að um geti verið að ræða raunhæfar úrbætur. Nægja minni háttar tilfærslur og breytingar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu, eða verður að bregðast við með stórtækari breytingum?“

Svarið felur í sér að ríkisstjórnin telji niðurstöðuna vera alveg ótvíræða, að mannréttindi hafi verið brotin á íslenskum þegnum. Það stendur skýrum stöfum í svari, sem sjávarútvegsráðherra sendi fyrir hönd stjórnarinnar til Sameinuðu þjóðanna, að ríkisstjórn Íslands telji einsýnt að Íslendingum beri að hlíta áliti nefndarinnar, ekki verði hjá því komist, en hafa alla fyrirvara á því hvernig og hvort það verði gert.

Sjávarútvegsráðherra er ekki viss hversu langt eigi að ganga til að hægt sé að tala um raunhæfar úrbætur eins og mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna fer fram á. Ríkisstjórnin vill frekar gera sem minnst og leita leiða til að komast hjá því að svara og uppfylla kröfur mannréttindanefndarinnar en ganga að þeim og bæta úr málum.

Í svari ríkisstjórnarinnar er einnig reynt að þvæla saman óskyldum hlutum líkt og skiptingu veiðiheimilda og verndun fiskstofna. Þetta tvennt þarf ekki að fara saman og hefur ekki farið saman, um tvennt ólíkt er að ræða. Ef eitthvað er þá hefur þetta farið saman með öfugum formerkjum, þ.e. ranglát skipting veiðiheimilda hefur leitt til þess með beinum og óbeinum hætti að fiskstofnarnir standa illa.

Líklega eru allir sammála því að farið verði varlega við nýtingu auðlinda sjávar og ekki megi ganga nærri fiskstofnunum. Ég veit ekki til að nokkur maður vilji fara slíkar leiðir. Menn greinir hins vegar á um hversu langt þurfi að ganga í þessum efnum og hvort aðferðafræðin sem notuð hefur verið til þessa sé sú eina rétta. Um það stendur deilan.

Ég efast stórlega um að við höfum verið á réttri leið og tel að reynslan hafi sýnt okkur að við höfum verið á kolrangri leið í því að reyna að uppfylla ákvæði laga um stjórn fiskveiða.

Í svari ríkisstjórnarinnar kemur einnig fram að umbylting á stjórn fiskveiða kynni að hafa gríðarleg áhrif á íslenskt efnahagslíf sem erfitt væri að vinda ofan af. Í svarinu er einnig vakin athygli á málefnasamningi ríkisstjórnarinnar, þar sem gert er ráð fyrir að fram fari athugun á reynslu af kvótakerfinu og áhrifum þess á þróun byggða. Með því er gefið í skyn að þau mál sem mannréttindanefndin gerir athugasemdir við séu nú þegar til skoðunar hjá stjórninni. En því fer fjarri.

Eitt er reynslan af kvótakerfinu svokallaða á fiskstofna og annað réttlát skipting auðlindarinnar þar sem þess er gætt að allir standi jafnir gagnvart lögum og eigi rétt á sömu lagavernd án mismununar eins og segir í 26. gr. mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Á síðasta þingi lagði ég ásamt hv. þingmönnum Jóni Bjarnasyni og Atla Gíslasyni fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Það fól í sér að núverandi lög féllu úr gildi síðla hausts 2010 og í þeirra stað kæmu ný lög um stjórn fiskveiða sem tækju gildi frá sama tíma. Í frumvarpinu voru talin upp mikilvæg atriði sem við teljum að þurfi að leggja áherslu á við mótun nýrrar sjávarútvegsstefnu og væru flest hver viðunandi viðbrögð við áliti Sameinuðu þjóðanna.

Meðal þess sem kemur fram í frumvarpi okkar og öðrum tillögum sama efnis er að við mótun nýrrar stefnu þurfi að hafa það að markmiði að auðlindir sjávar verði sameign þjóðarinnar. Að sjávarútvegsstefnan treysti byggðir og efli atvinnu í landinu öllu og stuðli að réttlátri og jafnri skiptingu gæða og góðum lífskjörum þeirra sem við greinina starfa. Stuðlað verði að betra jafnvægi og réttlátari leikreglum í samskiptum helstu aðila sjávarútvegsins og ákvæði gildandi laga sem setja samkeppni um veiðiheimildaskorður verði styrkt. Að staðið verði að nauðsynlegum kerfisbreytingum og aðgerðum með þeim hætti að stöðugleiki og heilbrigt rekstrarumhverfi sé tryggt.

Ég legg hins vegar mikla áherslu á nauðsyn þess að breið samstaða meðal þingmanna í öllum stjórnmálaflokkum náist við mótun nýrrar stefnu í sjávarútvegi. Víðtæk samstaða meðal þings, hagsmunaaðila í greininni og þjóðarinnar allrar er lykilatriði við mótun nýrra laga um stjórn fiskveiða.

Mikilvægast tel ég, í því þjóðfélagsástandi sem við búum við núna, að breytingar sem gerðar verða á lögum um stjórn fiskveiða leiði ekki til mikils óróleika eða komi sjávarútveginum í uppnám eða skaði hann á nokkurn hátt. Þannig þarf það ekki að vera þótt margir telji að svo verði.

Ef einhvern tíma hefur verið ástæða til að slá skjaldborg um íslenskan sjávarútveg og sjá til þess að hann geti starfað af fullum krafti þá er það núna. Sjávarútvegurinn, sem fyrir ekki svo mörgum mánuðum eða vikum þótti bæði gamaldags og hallærislegur, mun enn og aftur koma þjóðinni til bjargar þegar á reynir. Ekki er svo langt síðan fróðir menn skrifuðu langar greinar í íslensk dagblöð og bentu á að nú skipti sjávarútvegurinn ekki svo miklu máli lengur. Arðvænlegri greinar væru teknar við og framtíðin bjartari en nokkru sinni. Sjálfskipaðir sérfræðingar bentu á að þess hefði ekki gætt á íslenskum fjármálamarkaði þegar ákveðið var að skera veiðiheimildir í þorski niður um þriðjung á síðasta ári. Markaðurinn hefði ekki einu sinni tekið eftir því.

Nú hefur annað komið í ljós og þegar fjármálamarkaðurinn íslenski heyrir nánast sögunni til leggja menn enn og aftur allt sitt traust á sjávarútveginn. Aldrei verður of oft undirstrikað að ofuráherslu verður að leggja á að breytingar í sjávarútvegi muni ekki leiða til ills heldur treysta greinina í sessi og sátt verði um þær meðal þeirra sem starfa í greininni og þjóðarinnar allrar.

Um sjávarútveg hafa staðið miklar deilur í aldarfjórðung og þeim er ekki að ljúka. Á meðan ríkisstjórnin druslast ekki til að svara áliti sem Sameinuðu þjóðirnar beina til hennar á viðunandi hátt eða bregðast við því áliti þá mun aðeins bætast í þennan deilu- og rifrildispott og deilur, sem hafa staðið nógu lengi og valdið greininni allt of miklum skaða á undanförnum árum, harðna.