136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[15:53]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er stórmál í íslenskri atvinnusögu og við upplifum nú tíma sem eru ólíkir öllu öðru í Íslandssögunni. Ég fagna því að hv. þm. Björn Valur Gíslason er sammála okkur um að virða þurfi mannréttindi. Hann eyddi þó bróðurpartinum af tíma sínum í söguskýringu, hvernig hann túlkaði mannréttindanefndarálitið og hver svör ríkisstjórnarinnar voru við því. Þetta er náttúrlega hlutur sem við þekkjum, höfum hlustað á og farið yfir sjálfir, við þurftum ekkert á því að halda.

Í lögum um stjórn fiskveiða stendur að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar, það er ekkert nýtt. En nýtingarrétturinn gengur kaupum og sölum og er veðsettur og það er það sem skiptir máli. Farin er fjallabaksleið til þess að geta braskað, leigt, selt og veðsett nýtingarréttinn.

Í skoðanakönnunum hefur komið fram að 85% af þjóðinni eru á móti núverandi fiskveiðistjórnarkerfi en baráttan um kvótann snýst alltaf um eignarhaldið — og allt sem er í gangi, útgerðarmenn vilja ekki sleppa eignarhaldi á kvótanum. Þeir eru þó í rauninni búnir að missa það. Nýju ríkisbankarnir eiga allan kvótann og því finnst mér nauðsynlegt að Vinstri grænir tali skýrar um hvað þeir vilja gera og hvernig þeir vilja fara út úr þessu. Mér finnst satt að segja að það vanti á.