136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[15:55]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaða tilefni hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur til að agnúast út í mig um þessi mál. Það er mér satt að segja hulin ráðgáta og ég ætlaði í sjálfu sér ekki að fara að svara því. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur talað mjög skýrt í þessu máli, hún lagði fram 26. maí í vor tillögur og hugmyndir að svari við áliti mannréttindanefndarinnar og gerði það mjög sköruglega. Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni nema þá hv. þingmanni.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðu fram frumvarp á síðasta Alþingi eins og ég nefndi áðan — einhverjir hafa kannski tekið eftir því — um að fella úr gildi núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og taka upp nýtt og sanngjarnara kerfi þar sem tekið er tillit til þess sem mannréttindanefndin kvartar yfir, þ.e. að hætta að brjóta mannréttindi á Íslendingum. Það er hvorki meira né minna en það.

Sá sem hér talar hefur í mörg herrans ár og áratugi talað hart og fast gegn því kerfi sem hér er við lýði og stundum uppskorið samkvæmt því úr þeim geira. Það hefur ekki allt verið gott. Ég frábið mér allar þær hugmyndir og öll þau orð sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson hafði áðan um efasemdir bæði mínar og Vinstri grænna varðandi fiskveiðistjórnarkerfið. Ef nokkur stjórnmálaflokkur hefur talað hart gegn þessu kerfi frá upphafi vega þá er það Vinstri hreyfingin – grænt framboð og þingmenn hennar. Ég frábið mér allar slíkar ásakanir af hendi hv. þm. Grétars Mars Jónssonar.