136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[16:00]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu sem efnislega gengur út á að Alþingi staðfesti það með samþykkt sinni að farið skuli eftir niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem úrskurðaði um það að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi á Íslandi, sem byggir á lögum nr. 116/2006, áður lög nr. 38/1990, brjóti í bága við alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland staðfesti á sínum tíma með auglýsingu utanríkisráðherra nr. 10 frá 28. ágúst 1979 í samræmi við þingsályktun 8. maí 1979. Enn fremur að breyta verði lögum um stjórn fiskveiða í samræmi við fyrrgreindan úrskurð til að tryggja jafnræði borgaranna, sanngirni og mannréttindi.

Þetta er efnistillagan sem hér er flutt. Er verið að reyna að ná því fram í hv. Alþingi að Alþingi hafi skoðun á því hvernig vinna eigi með þessa þingsályktunartillögu.

Við höfum talið, flutningsmenn þessarar tillögu, eðlilegt að Alþingi fengi að greiða atkvæði um tillöguna en það fékkst því miður ekki á síðasta þingi. Nú liggja hins vegar fyrir orð hæstv. forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar, um að hann telji eðlilegt að mál komi inn í þingið úr nefndum og verði afgreidd með formlegri atkvæðagreiðslu um hver afstaða Alþingis sé til ákveðinna mála. Ég geri mér því vonir um það, hæstv. forseti, að á yfirstandandi þingi fáist þessi tillaga afgreidd úr nefnd og komi hér til umfjöllunar og atkvæðagreiðslu þar sem þingmenn greiði atkvæði um tillöguna.

Auðvitað er hægt að hafa mjög langt mál um stjórn fiskveiða og allt það kerfi sem verið hefur við lýði á undanförnum árum en þrátt fyrir að það sé búið að vera meira og minna í gildi með ýmsum breytingum í nær fjórðung aldar er málið samt þannig vaxið að engin sátt er með þjóðinni um það og ég held að engin sátt verði um málið eins og það er framkvæmt í dag. Kerfið byggir á því að mönnum er freklega mismunað. Ég held að einfaldast sé að draga fram þá mismunun sem í kerfinu er, hæstv. forseti, með því að benda á að það eru aðilar sem fá úthlutað aflahlutdeild á hverju ári og hafa frelsi til að vinna þannig með þá hlutdeild að þeir geta veitt samkvæmt henni, sem er auðvitað meginmarkmið þessarar lagasetningar, að verið er að úthluta mönnum aðgang að auðlindinni til að stunda fiskveiðar. Menn geta flett upp í mörgum ræðum frá fyrri áratugum við meðferð þessa máls um hvað menn vildu með því að setja á kvótakerfi hér við land. Jú, það var að marka þeim sem stunda útgerð rétt til að stunda fiskveiðar, til að veiða ákveðið magn. Það er auðvitað ekki deilt um þá efnistillögu í sjálfu sér en framkvæmdin hefur hins vegar orðið þannig að þeir sem fá úthlutað aflaheimildum þurfa ekki endilega að veiða þær. Þeir geta leigt þær öðrum sem eru í sams konar útgerð og þeir sjálfir og þá er allt í einu komin upp sú stétt sem á mannamáli hefur verið kölluð sægreifar, þ.e. þeir sem fá úthlutaðar aflaheimildir og nýta þær ekki heldur fénýta þær, leigja þær leiguliðanum sem er undirsátinn, sá sem tekur við réttindum sem öðrum voru fengin og leigir þau og greiðir viðkomandi handhafa, sem ríkið hefur veitt ákveðna heimild, fyrir að fá að nýta þá heimild. Því er það svo í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu að annars vegar eru útgerðarmenn sem gera út á heimildir sínar og hins vegar útgerðarmenn sem gera út á hluta af aflaheimildum sínum. Svo eru líka til útgerðarmenn sem gera alls ekki út á heimildir sínar heldur leigja þær allar frá sér og hafa búið til sérstaka aðferð í því sambandi með því að eiga tvo báta o.s.frv. og færa aflahlutdeildirnar á milli bátanna þannig að aldrei lendi bátur í neinum vandræðum með þessar aflaheimildir og á þann hátt komast menn upp með að leigja heimildirnar allan ársins hring. Stundum hafa menn fundið svokallaðar dauðar heimildir til að skrá á bátana, leigt sér heimildir sem ekki hafa veiðst og verið leigðar á einhverjar krónur eða jafnvel ekki neitt og skráð þær á bátana en veitt hlutdeildina að öðru leyti og hafa í raun og veru komist hjá því að gera út.

Þessi mismunun er algert óréttlæti, hæstv. forseti, og um það snýst tillaga okkar auðvitað að mönnum er freklega mismunað. Mönnum sem hafa atvinnuréttindi, menntuðum skipstjórnarmönnum og vélstjórum sem eiga báta eða gera út er mjög mismunað eftir því hvort þeir hafa aðgang að aflaheimildum frá ríkinu annars vegar eða verða að leigja þær af öðrum hins vegar og þá er leigan þannig að það er varla hægt að gera út undir þeim skilyrðum svo vel sé og við þekkjum margar sögur af því.

Hver var tilgangur laganna um stjórn fiskveiða á sínum tíma? Hverju ætluðum við að fá fram með lögunum sem sett voru 1984 þegar menn héldu að upp væri að koma alveg sérstakur aflabrestur og fyrstu tillögur fiskifræðinga á því ári voru þær að vera neðan við 200 þúsund tonn í afla, nokkuð sem menn höfðu aldrei heyrt fyrr í Íslandssögunni? Jú, tillagan kom auðvitað fram vegna þess að menn töldu að þar sem svo litlar aflaheimildir yrðu veittar á árinu 1984 þyrfti að skipta þeim eða útdeila með öðrum hætti en áður hafði verið gert í svokölluðu skrapdagakerfi sem var tegundastýrt sóknarkerfi eftir tímabilum og veiðiferðum. Þá var farin sú leið til bráðabirgða í eitt ár að skipta heimildunum upp á allan flotann, þeim var skipt á allan flotann sem þá var í útgerð. Að vísu voru smæstu bátarnir algerlega undanskildir og höfðu ekki kvótaúthlutun þá og bjuggu reyndar við það í nokkur ár í viðbót.

Til hvers var þetta gert? Í ræðu Halldórs Ásgrímssonar fyrir þessu frumvarpi á sínum tíma var stefnunni lýst. Þetta var gert til að reyna að tryggja atvinnu og byggð í landinu, til að viðhalda útgerðinni, halda uppi atvinnustiginu. Það var megintilgangurinn. Sá tilgangur var síðar skrifaður inn í lög um stjórn fiskveiða þar sem segir m.a. í 1. gr. þeirra að markmið laganna sé að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Það var megininntak þeirrar lagasetningar og menn brugðust við niðurskurði fiskaflans en þetta var samt meginmarkmiðið, að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu og að fiskurinn í sjónum væri sameign íslensku þjóðarinnar.

Því miður hefur það ekki verið gert, hæstv. forseti. Það hefur komið upp alls konar mismunun í þessu kerfi eins og dæmið sem ég tók annars vegar af leiguliðanum og hins vegar þeim sem hefur aflaheimildirnar á sinni hendi og fær þær úthlutaðar frá ríkinu á hverju ári. Það er kannski besta dæmið til að skýra þann mismun sem nú er í stöðunni. En ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti: Hvað þýðir svar hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um að í náinni framtíð verði tekist á við það að skipa málum með betri hætti og í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna? Hvað þýða orðin „í náinni framtíð“ hjá sjávarútvegsráðherra? Ég hef litið svo á að orðin „í náinni framtíð“ þýddu innan skamms tíma. Nú er liðið tæpt ár því að 24. október 2007 féll úrskurður Sameinuðu þjóðanna og enn er náin framtíð ekki runnin upp.