136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[16:11]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hef veitt því athygli að við þessa umræðu hefur yfirleitt ekki verið nokkur stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar í þingsalnum. Nú háttar svo til að við umræðuna eru eingöngu viðstaddir þingmenn Frjálslynda flokksins og einn þingmaður Vinstri grænna. Það er með nokkrum ólíkindum að þannig skuli staðið að málum en sýnir með hvaða hætti stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að meðhöndla þetta mál. Þetta gerir það m.a. að verkum að það er þeim mun brýnna að fá þetta mál til efnislegrar afgreiðslu á Alþingi Íslendinga til að það geti þá legið fyrir hvaða þingmenn vilja að mannréttindi séu virt hér á landi og hvaða þingmenn það eru sem vilja viðhalda mannréttindabrotum. Spurningin snýst fyrst og fremst um það.

Tilgangur okkar flutningsmanna er fyrst og fremst sá að fá fram vilja Alþingis til þessa grundvallaratriðis: Á íslenska þjóðin að fara að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna? Á hún að virða eða fylgja mannréttindum eða á að halda áfram mannréttindabrotum? Það er nauðsynlegt að fá skýra og ótvíræða yfirlýsingu frá Alþingi með atkvæðagreiðslu þegar málið hefur verið afgreitt úr sjávarútvegsnefnd vegna þess að í raun þarf nefndin ekki að hafa mikið með þetta mál að gera og getur afgreitt það frá sér. Það er ágreiningur í málinu en það er spurning, nefndir eiga ekki að vera til þess að drepa málum á dreif og koma í veg fyrir eðlilega þinglega meðferð málsins. Sjávarútvegsnefnd er í sjálfu sér ekkert að vanbúnaði að afgreiða þetta mál úr á mjög stuttum tíma og það er mjög mikilvægt að það sé gert sem fyrst.

Í Morgunblaðinu 13. janúar 2008 er grein um kvótakerfið og mannréttindi, þar er verið að fjalla um niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um þetta mál — ég býð hv. þm. Kjartan Ólafsson velkominn í þingsal, hann mun vera eini stjórnarliðinn nánast sem hér hefur sést í dag. (Gripið fram í.) Fyrirgefið og hv. þm. Árni Johnsen. — Ég ætla vitna í leiðara Morgunblaðsins frá 13. janúar 2008 og þar segir, með leyfi forseta:

„Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem réttindabarátta íslenskra borgara, sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum stjórnvalda eða dómstóla á Íslandi, hlýtur stuðning frá þeim, sem fjalla um mannréttindi í útlöndum. Hvað skyldi valda þessari tilhneigingu stjórnvalda og dómstóla til að brjóta á réttindum fólks? Sjómennirnir tveir eiga þakkir skildar fyrir þetta merka framtak.“

Þarna er verið að tala um sjómennina sem fóru með mál sitt fyrir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Og ég spyr: Hvað skyldi valda þeirri tilhneigingu stjórnvalda og dómstóla að brjóta á réttindum fólks? Í ræðu sinni 8. nóvember sl. sagði hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þegar hún flutti skýrslu um utanríkismál:

„Mannréttindi eiga að vera óaðskiljanlegur þáttur í utanríkisstefnu landsins og samofin öllu okkar atferli á alþjóðavettvangi.“

Samt sem áður segir ríkisstjórn sem hún á sæti í í svari við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna að hún ætli ekki að fara að niðurstöðum, að við munum hugsanlega í náinni framtíð gera eitthvað en við ætlum ekki að fara að þeim tilmælum og sjónarmiðum sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gerir kröfu til.

Í sjálfu sér er þetta alveg í samræmi við það sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt og sagði m.a. í ræðu á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna 20. október 2006, með leyfi forseta:

„Núverandi kvótakerfi hefur sannað gildi sitt. Það hefur leitt til bæði ábyrgrar og hagkvæmrar nýtingar auðlindarinnar. Með upptöku auðlindagjaldsins á sínum tíma var einnig séð til þess að útgerðarmenn greiddu rentu til þjóðarinnar fyrir afnot af auðlindinni. Brýnasta verkefnið er að treysta þá sátt sem er um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Eyða þarf enn frekar óvissu um réttarstöðu útgerðarmanna þannig að ljóst liggi fyrir að réttindi þau sem þeir nú kaupa á markaði muni ekki á einni nóttu verða frá þeim tekin.“

Þetta var það sem hæstv. forsætisráðherra hafði um málið að segja en þungamiðjan í því áliti mannréttindanefndarinnar sem hér hefur verið vísað til er það óréttlæti sem íslenska fiskveiðistjórnarkerfið býður upp á þar sem ákveðinn hluti þeirra sem stunda fiskveiðar þurfa að sæta því að kaupa sig inn í kerfið meðan aðrir fá heimildir til fiskveiða gefins. Það er þungamiðjan í þessu atriði.

Við frjálslynd höfum barist og berjumst gegn kvótakerfinu, þ.e. gjafakvótakerfinu, og að þeim mannréttindabrotum verði fram haldið þar sem sumum er gert að kaupa meðan aðrir fá gefins. Ég tel að í sjálfu sér hafi getað verið ákveðin rök fyrir því að taka upp kvótastýrðar fiskveiðar á þeim tíma þegar það var gert. Síðan eru liðnir áratugir, hátt í þrír áratugir. Á þeim tíma hefur komið betri og frekari reynsla af því hvernig tekist hefur að stýra kvótastýrðum fiskveiðum og niðurstaðan er sú að kvótastýrðar fiskveiðar hafa hvergi skilað þeim árangri sem til var ætlast. Hér á landi er það þannig að nú er okkur heimilað að veiða mun minni afla en mátti veiða áður en kvótastýrðar fiskveiðar voru teknar upp. Nú skyldi maður halda að það kerfi sem lofað hefur verið, m.a. af hæstv. forsætisráðherra, hefði í för með sér að það væri þá einhver afrakstur eða ávinningur af kerfinu en niðurstaðan er sú að svo er ekki. Það er enginn sýnilegur árangur af kerfinu. Ef eitthvað er virðist kerfið gersamlega hafa misheppnast. Þá er spurningin sú: Þarf ekki að hugsa þessa hluti alveg upp á nýtt? Á ákveðnum tíma var ákveðið að skella í lás og segja: þeir sem eru inni í versluninni eða bankanum á þessum tíma eiga kerfið, þeir sem eru fyrir utan geta ekki komist inn. Eins og kvótakerfið hefur verið útfært er nýliðun í greininni nánast útilokuð. Ég tel að hvað sem þeir sem heimildirnar eiga segja um allan ávinninginn af kerfinu, þá sé ekki nokkur ávinningur af því. Þvert á móti höfum við búið til kerfi sem ber dauðann í sér. Í fyrsta lagi hafa aflaheimildirnar verið notaðar til veðsetningar og nú er svo komið að útgerðin á Íslandi er svo skuldug að til stórkostlegra vandræða horfir í greininni. Í öðru lagi liggur fyrir að afli hefur ekki aukist á Íslandsmiðum, alla vega miðað við niðurstöðu Hafrannsóknastofnunar, og þá er spurningin: Hvað hefur áunnist? Það er erfitt að koma auga á það. Landssamband ísl. útvegsmanna og talsmenn þeirra segja að það sé meiri hagræðing í greininni. Ef meiri hagræðing er í greininni ætti það að skila sér í aukinni arðsemi en það er ekki um það að ræða.

Meginatriði þess máls sem við ræðum hér er það að íslenska ríkisstjórnin brýtur mannréttindi á borgurum sínum og það skiptir máli og þess er krafist af flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu að Alþingi Íslendinga megi segja að við sættum okkur ekki við áframhaldandi mannréttindabrot.