136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[16:26]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki annað en að við hv. þm. Björn Valur Gíslason séum algjörlega sammála um það hvernig skuli farið fram. Við erum sammála um að það þurfi að hafa ákveðna aðgát í nærveru sálar og líka ákveðna aðgát varðandi aðgengi að fiskimiðunum. Það er bara spurningin hvernig það er.

Ég gat ekki heyrt annað í ræðu hans hér áðan í umræðunni en að hann teldi mjög mikilvægt að gæta þess að þeim mannréttindabrotum sem núverandi kvótakerfi hefðu í för með sér yrði hætt og við tækjum upp annað kerfi þar sem jafnrétti borgaranna væri virt. Við erum sammála um það líka að ekki verði annað séð en að auka megi fiskveiðar umfram það sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til án þess að ganga of nærri þeim fiskstofnum sem um er að ræða. Ég get því tekið undir þau sjónarmið.

Ég vísa til þess að hv. þm. Björn Valur Gíslason var flutningsmaður máls hér á síðasta þingi þar kveðið var á um að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi rynni sitt skeið á enda eftir ákveðið árabil og þá væru menn tilbúnir með annað fiskveiðistjórnarkerfi. Sú tillaga og þær hugmyndir voru allra góðra gjalda verðar og ég tók undir með hv. þingmanni á þeim tíma að þetta væri ein leið til þess að gera breytingar á því kerfi sem við höfum í dag. Við erum sammála um að við búum við óréttlátt kerfi varðandi fiskveiðistjórn, kerfi sem er brot á mannréttindum og að það sé fyrst og fremst það sem við þurfum að ná samstöðu um að víkja til hliðar. Það er eitt atriði. Síðan er annað atriði: Hvernig getum við á sem skynsamlegastan hátt nýtt fiskimiðin þannig að þau þjóni best hagsmunum íslenskra borgara og að jafnræðis og atvinnufrelsis sé gætt?