136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[16:34]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur er ég kominn hér upp til að skiptast á skoðunum eða ég veit ekki hvað á að kalla það, við hv. þm. Grétar Mar Jónsson sem efast enn og aftur um hug okkar vinstri grænna í kvótakerfinu eða varðandi fiskveiðistjórnarkerfið. Ef hann tekur sér það blað í hönd sem á stendur þingsályktunartillaga og hann er flutningsmaður á þá mun hann kannski sjá þar nöfn þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og ætti þá ekki að efast um hug þeirra í það minnsta, (Gripið fram í.) hvað þá Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í heildina. Þá tvo daga sem ég hef núna verið á þinginu veit ég ekki til þess að ég hafi verið að tala um hvers konar fiskveiðistjórnarkerfi við viljum taka upp eða að það hafi verið til umræðu á þinginu. Það getur verið að hann hafi séð draug minn áður en ég hef ekki verið hér fyrr en nú. Þetta var ekki til umræðu á Alþingi í gær, hvorki af hálfu hv. þm. Grétars Mars Jónssonar né annarra og ekki mín. Og hvort sem menn vilja kalla þetta dagakerfi eða kvótakerfi þá var það ekki rætt, það var ekki á dagskrá. Það var ekkert mál sem (Gripið fram í.) — ég ætla að biðja hv. þingmann að hafa sig hægan meðan ég tala, hann getur komið hingað og talað á eftir mér.

Í gær var verið að ræða um stofnun á nýju eftirlitskerfi til að fylgjast með skipstjórnarmönnum og sjómönnum. Það var verið að tala um að koma enn einni stofnuninni á fót, einhvers konar sannleiksnefnd, til að draga fram sannleikann um hvað er að gerast úti á sjó, hvernig sjómenn haga sér. Ég leyfi mér að efast um réttlæti þeirrar nefndar. Ég taldi það í gær og ég tel það enn að það séu nógu mörg eftirlitskerfi í gangi í sjávarútvegi. Ég finn það bara á eigin skinni og ég leyfi mér að efast um þetta. Kvótakerfi, dagakerfi, brottkast, sægreifar, lénsherrar komu ekki til tals, ekki einu sinni hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni í ræðu hans í gær.