136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[16:40]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað dálítið sárt fyrir suma að þurfa að kyngja því að í Vinstri grænum séu menn, þó að þeir séu ekki meðflutningsmenn á þeirri þingsályktunartillögu sem við flytjum hér, sem hafa talað máli sægreifana og hafa varið málstað sægreifanna. (BVG: Þið ættuð að skammast ykkar.) Ég benti á veiðileyfagjaldið sem var samþykkt þegar Vinstri grænir lögðu til að veiðileyfagjald yrði tekið alveg af síðastliðið vor. Ég hef ekki séð í frumvarpinu sem var flutt á síðasta ári að boðið væri upp á sóknarmark. Þá á ég við að stokka upp úthlutun á kvóta. Það er nefnilega töluverður munur á eða hvort menn vilja bylta fiskveiðistjórnarkerfinu eins og við í Frjálslynda flokknum viljum gera og taka upp sóknardaga. Þar er verulegur munur á. Formaður Vinstri grænna hefur ekki talað skýrt um fiskveiðistjórnarmál í gegnum tíðina. Hann var meira að segja formaður sjávarútvegsnefndar í heilt kjörtímabil þó að hann væri í stjórnarandstöðu. Þá fór hann með mér út á sjó til að skoða ástandið á fiskimiðunum og við vorum að sýna honum hvað það væri mikill fiskur. Samt komu engar breytingar eða tillögur frá sjávarútvegsnefnd um að það þyrfti að gera neinar breytingar þá. En hann hefur ótrúlega oft staðið með sægreifunum í sambandi við þetta fiskveiðistjórnarkerfi, því er nú verr. Það er hægt að vitna í margar ræður sem hann hefur flutt í þinginu um að hann vilji fara varlega í að gera breytingar á hinu og þessu.

Ég fagna því auðvitað að menn vilji breyta og virða mannréttindi. Ég dreg ekkert úr því og ég er búinn að hæla hv. þingmanni, Birni Val Gíslasyni, fyrir að vilja það. En málið er einfaldlega að það þarf meira til.