136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[16:54]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna yfirlýsingu hv. þm. Kristrúnar Heimisdóttur. Það er mjög ánægjulegt, af því að hún tilheyrir Samfylkingunni og stjórnarliðinu, hvernig hún höndlar þessi mál eða skilur þau. En hún gleymir einu: Hér í þingsalnum höfum við margoft spurt þá sem fara með þessa málaflokka, m.a. hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hann hefur beinlínis sagt við okkur að ekki verði greiddar bætur handa þeim tveimur sjómönnum á Tálknafirði sem náðu þessum árangri og fóru alla þessa leið með mál sitt.

Það getur verið að hv. þingmanni finnist það vera hið besta mál en mannréttindanefndin kom með niðurstöðu sína í desember og íslensk stjórnvöld höfðu sex mánuði til að leggja fram tillögur að því hvað þau ætluðu að gera. Þau hafa ekki komið neinar tillögur og enn þá hefur engin nefnd verið skipuð til að fara yfir þessi mál. Yfirlýsingar frá ráðherrum og þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hafa verið með þeim hætti að við eigum ekki von á því á meðan þessi ríkisstjórn situr að gerðar verði breytingar, því er nú verr.