136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. alþingismanni Kristrúnu Heimisdóttur fyrir þau sjónarmið sem komu fram í ræðu hennar og segi: Mæli hún kvenna heilust um að þarna hafi verulegur árangur náðst. Ég er henni sammála í því að verulegur árangur hafi náðst með niðurstöðu mannréttindanefndarinnar og ég hef aldrei dregið það í efa. Það var mikilvægur árangur en spurningin var um með hvaða hætti því yrði fylgt eftir af íslenskum stjórnvöldum. Það eru þau atriði sem við frjálslynd höfum verið að gagnrýna, þ.e. með hvernig íslensk stjórnvöld hafa brugðist við.

Nú hefði verið einfalt að svara niðurstöðu mannréttindanefndarinnar og segja: Íslensk stjórnvöld ætla að bregðast við og gera þær breytingar sem krafist er. Það verður ekki gert strax en það verður hins vegar gert. Hvernig svöruðu íslensk stjórnvöld? Þau sögðu í svari sínu frá 9. júní 2008, með leyfi forseta:

„Samkvæmt því verða kærendum ekki greiddar skaðabætur né fiskveiðistjórnarkerfinu íslenska umbylt í einu vetfangi. Hins vegar er boðað að efnt verði til allsherjarskoðunar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu í náinni framtíð ...“

Þetta segir og undirritar Einar Kristinn Guðfinnsson, hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Það á því ekki að fara eftir niðurstöðunni, það á ekki að greiða bætur. En ég get verið sammála hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur um að þetta er mikilvægt innlegg fyrir okkur sem teljum kvótakerfið vera andstætt mannréttindum. Ég spyr hv. þingmann: Er réttur sá skilningur minn að hún telji kvótakerfið brjóta gegn mannréttindum og að afnema beri gjafakvótakerfið í núverandi mynd, það sé í raun ekkert minna sem álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna kveður á um?