136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:34]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir því að flytja Alþingi skýrslu um þá erfiðu og alvarlegu stöðu sem upp er komin í efnahagslífi þjóðarinnar. Örlagaríkir dagar eru að baki og gríðarleg áföll hafa dunið yfir okkur Íslendinga á stuttum tíma. Það er á slíkum stundum sem íslenska þjóðin sýnir úr hverju hún er gerð. Æðruleysi hennar og yfirvegun andspænis þessum hamförum vekur hvarvetna aðdáun. Við kunnum að bogna tímabundið en buguð erum við ekki.

Við erum nú hægt og bítandi að komast út úr versta storminum og nú þegar hafa Landsbankinn og Glitnir tekið til starfa í breyttri mynd. Unnið er hörðum höndum að því að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt horf þannig að alþjóðleg viðskipti geti gengið eðlilega fyrir sig, fyrirtæki geti flutt gjaldeyri til landsins og Íslendingar erlendis fái öruggt aðgengi að gjaldeyri.

Ríkisstjórnin og Seðlabankinn leggja allt kapp á að gjaldeyrisviðskipti færist í eðlilegt horf sem fyrst og í því augnamiði voru í gær hagnýttar lánsheimildir upp á 400 milljón evrur í seðlabönkum Danmerkur og Noregs. Við ætlum að styrkja gjaldeyrisvaraforðann verulega til viðbótar við þetta og nú standa yfir viðræður í Moskvu um hugsanlegt gjaldeyrislán, auk þess sem rætt hefur verið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hugsanlega aðkomu sjóðsins að því endurreisnarstarfi sem fram undan er hér á landi. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að skoða fordómalaust allt sem getur orðið okkur að liði í þeim vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir.

Eftir atburði síðustu daga er útlit fyrir mikinn samdrátt í innlendri eftirspurn og sér þess þegar merki. Því er nauðsynlegt að hagstjórnartækjum ríkisins sé beitt til þess að örva efnahagslífið og milda þannig niðursveifluna.

Í morgun tilkynnti Seðlabanki Íslands um 3,5 prósentustiga lækkun stýrivaxta. Þessi lækkun stýrivaxta mun lækka fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja og hjálpa þannig til við að koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað.

Hæstv. forseti. Undanfarin ár hafa stjórnvöld opnað íslenska hagkerfið fyrir flæði fjármagns, vöru, þjónustu og fólks. Þær breytingar hafa leitt af sér gríðarlega lífskjarabyltingu hér á landi og stuðlað að mikilli uppbyggingu í atvinnulífinu. Opnunin hefur aftur á móti þær hliðarverkanir að við erum mjög háð atburðum á alþjóðlegum mörkuðum án þess að við getum haft nein áhrif þar á.

Síðasta árið hefur hin alþjóðlega lánsfjárkreppa dýpkað hægt og bítandi. Upptök hennar voru í Bandaríkjunum vegna hinna svokölluðu undirmálslána sem bandarísk fjármálafyrirtæki höfðu selt fram og til baka sín á milli. Þegar í ljós kom hve gölluð þessi lán voru tók að myndast tortryggni og vantraust á markaði sem olli á endanum miklu meiri vandræðum en undirmálslánin ein og sér. Örlög íslensku bankanna eru besta dæmið um það því að þeir höfðu að langmestu leyti staðið utan við viðskipti með bandarísk undirmálslán en alkul á alþjóðlegum lánamörkuðum olli því að staða íslensku bankanna breyttist skyndilega til hins verra.

Íslensku bankarnir höfðu á nokkrum árum stækkað svo hratt að efnahagur þeirra var orðinn margfaldur í hlutfalli við landsframleiðslu Íslands. Vöxtur bankanna var drifinn áfram af miklu aðgengi að ódýru lánsfé síðastliðin ár. En öll lán þarf að greiða og það átti að sjálfsögðu við um bankana líka. Vitað var að árið 2008 yrði erfitt varðandi endurfjármögnun þeirra en lengst af var þó útlit fyrir að hún myndi takast. Komið hafði fram af hálfu stóru bankanna þriggja í sumar að endurfjármögnun þeirra væri tryggð vel fram í tímann og allt fram yfir miðjan september var ekki tilefni til að ætla annað en að áætlanir bankanna myndu ganga eftir.

Um miðjan september breyttist staðan til hins verra á alþjóðlegum lánamörkuðum í kjölfar þess að bandaríski fjármálarisinn Lehman Brothers fór á hausinn auk margra annarra fjármálafyrirtækja og banka í Bandaríkjunum og víðar. Örvænting tók að myndast á mörkuðum og lánsfé þurrkaðist nánast upp. Upp var komin staða sem íslensku bankarnir náðu ekki að vinna úr, staða sem enginn óskar sér að vera í.

Skuldir bankanna voru orðnar of miklar fyrir íslenska þjóðarbúið og stjórnvöld stóðu frammi fyrir spurningunni hvort íslenska þjóðin ætti að borga þessar skuldir og skuldbinda þannig komandi kynslóðir.

Með ákvörðun þeirri sem ríkisstjórnin og Alþingi tóku með lagasetningu í síðustu viku var slegin skjaldborg um innlenda hluta bankanna, um sparifé almennings og tryggt að grunnþjónusta bankanna við íslensk heimili og fyrirtæki gæti haldið áfram.

Á undanförnum vikum hafa tugir banka um allan heim þurft að játa sig sigraða og leita á náðir ríkisins í heimalöndum sínum. Vandinn sem ríkisstjórn Íslands stóð frammi fyrir þegar þessi atburðarás tók að ágerast var alvarlegri en vandi annarra ríkisstjórna vegna þess hvað íslenska bankakerfið var stórt í samanburði við hagkerfið. Það var því ljóst að hvorki var skynsamlegt né mögulegt fyrir íslenska ríkið að hlaupa undir bagga með öllu bankakerfinu.

Þegar bankar sem eru kerfislega mikilvægir riða til falls annars staðar í heiminum er algengt að ríkisstjórnir þjóðnýti þá í heilu lagi. Ef ríkisstjórn Íslands hefði farið þá leið hefði hún skuldbundið sig til að greiða mörg þúsund milljarða króna af erlendum skuldum bankanna. Slík skuldbinding hefði hæglega getað orðið þjóðinni ofviða. Ríkisstjórnin valdi því að fara aðra leið með langtímahagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda eru einhver róttækustu viðbrögð ríkisstjórnar við bankakreppu sem um getur.

Ég ítreka þakkir mínar til þingmanna úr öllum flokkum fyrir að stuðla að því að neyðarlögin svonefndu náðu fram að ganga jafnhratt og raun ber vitni í síðustu viku. Þeir atburðir sem urðu dagana á eftir tel ég að hafi sýnt að löggjöfin var nauðsynleg og bjargaði því sem bjargað varð.

Mikilvægasta verkefnið nú er að bjarga sem mestum verðmætum úr starfsemi bankanna til að takmarka það tjón sem hlýst af skipbroti þeirra. Um það verðum við öll að standa saman, stjórnvöld, þingmenn og aðrir þeir sem gegna forustuhlutverki. Í þeirri vinnu þurfum við á að halda kröftum allra þeirra sem vit og þekkingu hafa á málum bankanna. Við skulum ekki láta bollaleggingar um upptök eldsvoðans verða til þess að hindra eða tefja slökkvistarfið.

Hæstv. forseti. Á þessum erfiðum tímum er brýnt að koma í veg fyrir að ótti og kvíði sem skiljanlega grípur um sig meðal fólks verði að upplausn eða örvæntingu. Hafa stjórnvöld því þegar gripið til og lagt á ráðin um umfangsmiklar aðgerðir í þessum efnum.

Um leið og þessi atburðarás hófst setti ríkisstjórnin upp starfshóp fjögurra ráðherra til að hafa yfirumsjón með aðgerðum. Undir honum starfar stýrihópur með fulltrúum helstu ráðuneyta og stofnana sem að málum koma og sér um að samhæfa aðgerðir og viðbrögð stjórnvalda. Mikið starf hefur verið unnið síðustu daga og vikur við að miðla upplýsingum og leiðbeiningum til fólks og fjölmiðla.

Í gær var formlega opnuð upplýsingamiðstöð fyrir almenning, fyrirtæki og fjölmiðla sem tekur við spurningum sem fólk kann að hafa, bæði hér heima og erlendis. Í félagsmálaráðuneytinu hefur verið starfrækt þjónustu- og upplýsinganet og verður það rekið áfram, samtengt upplýsingamiðstöðinni. Það leggjast allir á eitt við að aðstoða fólk, útskýra stöðu mála og greiða úr þeim flækjum sem upp hafa komið.

Atburðir liðinnar viku hafa eðlilega vakið mikinn áhuga fjölmiðla, bæði innlendra sem erlendra. Hingað til lands hafa komið á annað hundrað erlendra fjölmiðlamanna hvaðanæva úr heiminum. Ákveðið var að koma upp sérstakri fjölmiðlamiðstöð í Miðbæjarskólanum og unnt hefur verið að beina fyrirspurnum þangað. Sérstakur hópur hefur verið starfandi undanfarið til að halda utan um samskipti við fjölmiðla hér heima og úti. Ég vil færa öllum þeim sem lagt hafa á sig þrotlausa vinnu undanfarna daga, sem og þeim sem hafa haft samband og boðið fram krafta sína og góð ráð, mínar bestu þakkir.

Þær efnahagshamfarir sem nú ganga yfir heiminn eru þær verstu í um 90 ár. Í aðstæðum sem þessum kemur berlega í ljós að þjóðir heims hugsa fyrst og fremst um að bjarga sjálfum sér og setja eigin hagsmuni ofar gömlum vinatengslum. Það höfum við Íslendingar mátt reyna á eigin skinni undanfarna mánuði þegar við höfum komið að lokuðum dyrum varðandi lántöku og aðstoð hjá mörgum af okkar nánustu vinaþjóðum.

Í sjálfu sér er ekki óeðlilegt að þjóðir leggi mesta áherslu á eigin afkomu þegar á bjátar. Sú framkoma sem bresk stjórnvöld sýndu okkur í síðustu viku átti aftur á móti ekkert skylt við að bjarga breskum hagsmunum og var algerlega óásættanleg.

Bresk stjórnvöld tóku þá fordæmalausu ákvörðun að beita hryðjuverkalögum til þess að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi. Í fjölmiðlum hélt forsætisráðherra Bretlands því raunar fram að allar eignir íslenskra stjórnvalda hefðu verið frystar en sú yfirlýsing var dregin til baka bréfleiðis skömmu síðar og útskýrt að aðeins hafi verið átt við eignir Landsbankans. Breski forsætisráðherrann hélt einnig fram órökstuddum rangfærslum í fjölmiðlum um gjaldþrot og vanskil íslensku þjóðarinnar og fjármálaráðherra landsins hélt því fram að íslenska ríkið hygðist ekki standa við skuldbindingar sínar. Í kjölfarið var breska fjármálaeftirlitinu beitt gegn Kaupþingi í Bretlandi og starfsemi þess þar í landi lokað sem varð til þess að þetta stærsta fyrirtæki landsins fór á hliðina þrátt fyrir að því hefði verið veitt stórt þrautavaralán frá Seðlabanka Íslands nokkrum dögum áður. Þessar aðgerðir og ummæli ollu fjölda annarra íslenskra fyrirtækja, sem hvergi komu nærri þessu máli, gríðarlegu tjóni.

Hinar fordæmalausu aðgerðir breskra yfirvalda í garð Kaupþings í Bretlandi, sem og sú atburðarás sem ég hef nú rakið, gera það að verkum að við hljótum að skoða réttarstöðu okkar gagnvart breskum stjórnvöldum. Til þess verks hefur ríkisstjórnin ráðið breska lögmannsstofu sem vinnur nú að undirbúningi þess máls auk þess sem ríkisstjórnin hefur gert margvíslegar ráðstafanir til að tryggja að málstaður okkar komist til skila gagnvart breskum almenningi sem á hér ekki neina sök.

Þrátt fyrir þau ágreiningsefni sem upp hafa komið í samskiptum Breta og Íslendinga hafa báðar þjóðir lagt áherslu á að leiða deilur tengdum Icesave-reikningum Landsbankans til lykta. Hið sama á við um Icesave-reikningana í Hollandi.

Samninganefndir frá Hollandi og Bretlandi funduðu með íslenskum embættismönnum um síðustu helgi. Bráðabirgðaniðurstaða hefur náðst í viðræðum íslensku og hollensku sendinefndarinnar varðandi uppgjör milli landanna með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Ekki hefur enn verið gengið frá samkomulagi við Breta en ég er vongóður um að niðurstaða náist fljótlega.

Í neyðarlögunum sem Alþingi samþykkti fyrir viku var kröfum innstæðueigenda veittur forgangur í þrotabúið. Góðar vonir standa því til þess að eignir Landsbankans í Hollandi og Bretlandi muni fara langt upp í þær skuldbindingar sem sparifjáreigendur í þessum löndum eiga á hendur bankanum og minnki að sama skapi kröfur á hendur íslenska ríkinu. Stjórnvöld hafa gripið til aðgerða til þess að tryggja verðmæti eigna bankans og takmarka þannig tjónið eins og hægt er.

Hæstv. forseti. Af öllu því sem á okkur hefur dunið verðum við að læra. Samhliða því að vinna okkur hægt og bítandi út úr verstu erfiðleikunum bíða okkar stór verkefni.

Við þurfum meðal annars að ráðast í uppgjör við fortíðina. Ég greindi frá því í viðtali við Morgunblaðið á sunnudaginn að ég mun beita mér fyrir því að unnin verði svokölluð hvítbók á grundvelli ítarlegrar rannsóknar á starfsemi bankanna. Í þeirri rannsókn verður að gefa gaum því sem vel var gert en líka hinu sem fór á verri veg. Dómsmálaráðherra hefur hafið undirbúning að rannsókn á þeim þætti málsins og mun gera grein fyrir því í ræðu sinni á eftir. Ef minnsti grunur leikur á því að framin hafi verið lögbrot er alveg skýrt að viðkomandi aðilar verða dregnir til ábyrgðar.

Þau efnahagslegu áföll sem íslenska þjóðin hefur orðið fyrir gera það að verkum að við verðum að horfa fram á veginn og byggja upp til framtíðar. Íslenska þjóðin byggir á sterkum grunnstoðum og því fer fjarri að við þurfum að byrja upp á nýtt þótt fjármálakerfið hafi orðið fyrir höggi. Við erum rík af náttúruauðlindum sem við eigum að nýta með skynsamlegum hætti og halda áfram uppbyggingu í orkugeiranum. Í gær bárust til að mynda þær ánægjulegu fréttir frá Dalvík að skrifað hefði verið undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu gagnavers þar í bæ og ljóst er að við eigum mikla möguleika á því sviði og í skyldum atvinnugreinum.

Íslenskur sjávarútvegur hefur að undanförnu tekið á sig mikla skerðingu aflaheimilda til þess að byggja megi upp þorskstofninn á nýjan leik. Þær fórnir munu borga sig þegar stofninn tekur að styrkjast á nýjan leik og þeir sem tóku á sig byrðarnar í niðurskurðinum munu njóta ávaxtanna þegar meira veiðist. Með auknum aflaheimildum á næstu árum getum við hafið nýja sókn í sjávarútvegi.

Ein af auðlindum Íslands er landið sjálft, fegurð þess og saga sem laðar til landsins ferðamenn. Möguleikar ferðaþjónustunnar eru miklir og við megum ekki láta deigan síga í markaðsstarfi erlendis.

Mikilvægasta fjárfesting hverrar þjóðar er í menntun fólksins, ungu kynslóðarinnar. Sú áhersla sem stjórnvöld hafa lagt á uppbyggingu í menntakerfinu á undanförnum árum mun veita okkur viðspyrnu í þeim verkefnum sem fram undan eru.

Í erfiðri stöðu má alltaf finna tækifæri. Undanfarna daga höfum við þurft að spila nauðvörn en við munum hægt og bítandi hefja sókn á ný. Við stöndum frammi fyrir því einstaka tækifæri að geta nú komið saman sem þjóð og markað okkur stefnu til framtíðar. Í þeirri vinnu er brýnt að kalla til breiðan hóp víðs vegar að úr samfélaginu til skrafs og ráðagerða en jafnframt tryggja að almenningur geti tjáð sig og lagt hönd á plóginn. Með því getum við skapað sameiginlegan vegvísi til framtíðar. Ríkisstjórnin mun á næstu dögum ýta slíkri vinnu úr vör og koma henni í formlegan farveg, setja tímaramma og kynna nánara skipulag.

Hlutverk ríkisvaldsins verður að halda utan um þá vinnu og tryggja að góðar hugmyndir fái þann stuðning sem á þarf að halda en að öðru leyti treystum við á frumkvæði og kraft einstaklinganna til þess að koma þessum hugmyndum í framkvæmd.

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Undanfarna daga hafa margir keppst við að lýsa yfir andláti frjálsra viðskipta og markaðsbúskapar vegna áfalla á fjármálamörkuðum. Slíkar yfirlýsingar byggjast frekar á þórðargleði en raunsæi enda getur ekkert samfélag þrifist til lengdar án frjálsra viðskipta og markaðar. Frjáls markaður er tæki til að hámarka verðmætasköpun í samfélaginu en hann verður að sjálfsögðu að lúta lögum og reglum. Þegar um hægist tel ég einboðið að farið verði í gagngera endurskoðun á regluverki fjármálamarkaða, bæði hér á landi og annars staðar. Markmiðið með slíkri endurskoðun verður að styrkja grundvöll fjármálakerfisins og tryggja fjármálalegan stöðugleika en ekki að setja fjármálastarfsemi í slíkra fjötra að hún nái sér ekki á strik á ný.

Hæstv. forseti. Íslenska þjóðin hefur áður staðið frammi fyrir stórum og erfiðum verkefnum og alltaf hefur mótlætið orðið til þess að efla okkur og ná fram því besta í þjóðinni. Fram undan eru erfiðir tímar og þá reynir á samstöðu okkar sem aldrei fyrr. Enginn þarf að velkjast í vafa um að íslenska þjóðin mun safna vopnum sínum og láta að sér kveða á nýjan leik.