136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég hef ekki heyrt spádóma af því tagi sem hæstv. forsætisráðherra gefur sér að uppi séu, um að frjáls viðskipti landa í millum og markaður séu fyrirbæri sem heyri nú sögunni til, en hitt ætla ég sannarlega að vona að nýfrjálshyggjan sé dauð og glaður mæti ég í þá jarðarför þar sem kastað verður rekunum. Það er að reynast Íslandi ærið dýrt að slík hafa verið okkar leiðarljós síðustu 17 ár rúm.

Hin stóra alltumlykjandi spurning hlýtur einfaldlega að vera: Hvernig gat það gerst sem við nú stöndum frammi fyrir? Hæstv. forsætisráðherra fór yfir það að stjórnvöld hefðu opnað hagkerfið, eins og það er kallað, og það hefði leitt af sér gríðarlegan lífskjarabata. Síðan hefði því miður skollið á alþjóðleg fjármálakrísa og þar með hefðum við lent í vandræðum.

Er þetta ekki dálítil einföldun? Er þessi nálgun vel til þess fallin að skilja hlutina, er hún vel til þess fallin að læra af þeim? Verðum við ekki líka að líta í eigin barm og horfast í augu við þann hluta vandans sem sannarlega var og er heimatilbúinn? Það er vissulega þannig að framkoma Breta, sérstaklega forsætisráðherra og fjármálaráðherra Breta, í okkar garð er hneykslanleg, hún er óboðleg í samskiptum siðaðra þjóða. Að forsætisráðherra Breta skuli koma fram á tröppurnar og tilkynna umheiminum að Íslendingar séu vandræðamenn og óskilamenn í viðskiptum og gjaldþrota þjóð. Það er algerlega fáheyrt og megi skömm þess stjórnmálamanns vera lengi uppi sem þannig hegðar sér.

En við skulum ekki tala, Íslendingar, eins og þetta hafi komið út af engu. Við skulum ekki gleyma því að þrjú til fjögur hundruð þúsund venjulegir Bretar höfðu áhyggjur af sparifénu sínu inni á reikningum sem íslenskur banki hafði opnað með blessun íslenska Fjármálaeftirlitsins, að sveitarfélög og líknarfélög í Bretlandi sáu þarna innstæður sínar í hættu. Við skulum líka líta í eigin barm og vera þeim vanda vaxin að kenna ekki einhverjum öðrum um það sem er við okkur sjálf að sakast.

Hæstv. forsætisráðherra talaði um hinn mikla lífskjarabata, góðærið væntanlega. Góðærið var vinsælasta hugtak íslenskrar stjórnmálaumræðu hér um árabil. Aldrei heyrðist hærra í góðæriskórnum en 2006, þá réðu menn sér ekki fyrir góðæriskæti. En hvernig var bókhaldið þegar árið 2006 var gert upp? Það var 300 milljarða kr. halli á viðskiptum Íslands við útlönd. Þær skuldir eru þarna einhvers staðar og eru til viðbótar hinum sem nú virðast ríða Íslendingum á slig með ýmsum undirskriftum. Var það raunverulegt góðæri? Þurfum við ekki að horfast í augu við að við lifðum langt um efni fram? Stóra spurningin er aftur: Hvernig gat þetta gerst? Hvernig gat heilt samfélag orðið svona meðvirkt að einungis örfáar raddir reyndu að vara við, að benda á það sem var að gerast? Fjölmiðlar, fræðasamfélag og stærstur hluti stjórnmálanna í algjörum faðmlögum við viðskiptalífið og fjármálamennina sem réðu förinni með þjóðhöfðingjann sjálfan í fararbroddi.

Hvernig gat þetta gerst, hvar var heilbrigð sjálfsgagnrýni? Hvar var það aðhald sem við eigum alltaf að veita okkur sjálf og spyrja okkur: Er nú öruggt að þetta sé svona, svo dásamlegt að hér sé skollin á eilíf og endalaus gullöld og gleðitíð og við getum látið allt eftir okkur? Þegar steypan var þvílík að einn einasti maður hélt afmælisveisluna sína og hún kostaði 150 millj. króna, að sögn. Hingað var flogið með tónlistarmann til að syngja tvö lög — ekkert sérstaklega vel að því er sagt er — fyrir 70 millj. króna. Hvers vegna varð ekki uppreisn? Af hverju létum við öll bjóða okkur þetta meira og minna? Það leitar á mig að ég hafi ekki einu sinni staðið mig, ekki gert skyldu mína, og tel ég mig þó hafa reynt.

Árið 2005 fluttum við þingmenn Vinstri grænna á Alþingi tillögu um aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Hvað stóð í þeirri tillögu fyrir utan hluti eins og þá að fresta þensluhvetjandi stóriðjuframkvæmdum og hætta að lækka skatta á hátekjufólki í miðri þenslunni? Það stóð t.d. í 2. tölulið að beina skyldi þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að huga vandlega að áhættumati í bankakerfinu. Markmiðið verði að hraður vöxtur útlána að undanförnu skapi ekki hættu fyrir efnahagslífið og farið verði yfir eiginfjármörk og áhættugrunn fjármálastofnana í því ljósi. Í 3. tölulið að beina tilmælum til Seðlabanka Íslands um að endurskoða ákvörðun um að lækka bindiskyldu.

Í greinargerð með þessum tillögum er m.a sagt að við blasi samlíkingin milli þess sem sé að gerast á Íslandi og þess sem leiddi til bankakreppunnar á Norðurlöndunum 1990. Tóku margir undir þetta hér? Hvar voru stjórnarliðar þá sem nú eru komnir í einhverja fráhvarfseinkennaumræðu? Það mátti heyra hér á Alþingi í gær að þegar stjórnarandstaðan sat á sér og beið þessa dags til að ræða málin af yfirvegun fóru stjórnarþingmenn í einhverja fráhvarfsumræðu og vildu kenna Landsbankanum um, draga hann til saka. Hvar voru þeir og þeirra ábyrgð? Voru ekki einhverjir ráðherrar, var ekki ráðherra yfir Seðlabankanum, var ekki ráðherra yfir Fjármálaeftirlitinu? Jú, ég held það.

Við skulum ekki reyna að flýja af hólmi, neita að horfast í augu við okkur sjálf og þá ábyrgð sem við berum á þessari kreppu og þá stjórnskipulegu og lagalegu ábyrgð sem margir bera. Það er ekki eitt höfuð — þó að marga langi kannski til að sjá það fjúka — sem hér á í hlut. Hér bera margir mikla pólitíska, lagalega, viðskiptalega og siðferðislega ábyrgð. Það er því mjög brýnt að koma því verkefni strax í farveg sem forsætisráðherra nefndi, að leggja grunninn að ítarlegri og tæmandi rannsókn á þessum atburðum. Við komumst aldrei frá þessu, við endurheimtum aldrei trúnaðartraust í samfélaginu milli aðila nema gera þessa hluti upp, það hlýtur hver heilvita maður að sjá. Það verða ósköp einfaldlega allir að sæta því sem þeim ber að sæta í þeim efnum.

Verkefnin sem við þurfum að vinna eru margþætt og því miður verðum við að vinna þau að einhverju leyti samtímis. Við höfum ekki ráð á því að hugsa bara um björgunaraðgerðirnar núna og geyma allt hitt. Við verðum líka að leggja grunn að þeim hlutum sem þarf að vinna samhliða á næstu vikum og mánuðum til þess að geta skapað grundvöllinn fyrir endurreisn Íslands, grundvöll fyrir nýju og betra samfélagi úr rústunum sem nú hafa verið búnar til.

Stjórnarandstaðan hefur að mínu mati á undanförnum dögum og vikum gert það sem hún gat gert til þess að leggja lið og til þess að sýna ábyrgð. Við höfum ekki staðið hér í pólitískum skylmingum. Við buðum upp á þjóðstjórn, ég fór sérstaklega til forsætisráðherra í upphafi hrinunnar og hvatti hann til að skoða þann hug sinn að á Íslandi væru að skella þvílíkir hlutir að ef einhvern tíma væri þörf fyrir að allir sameinuðu kraftana væri það núna. Fram að þessu hefur ríkisstjórnin talið sig einfæra um verkið, ég efast um að svo sé. Mér sýnist þetta ekki ganga allt of vel. Ég verð að leyfa mér að segja það, að ég tel að verkstjórnin gæti verið sköruglegri og röggsamlegri og mönnum unnist ýmsir hlutir betur. Ég verð að leyfa mér að segja það hér að ég tel að ráðherrar hefðu sumir hverjir getað haft betra taumhald á tungu sinni og jafnvel passað betur upp á pennann sinn.

Ég verð líka að segja að mér finnst það ekki vera í miklum takti við það sem við í stjórnarandstöðunni höfum reynt að hafa sem okkar framlag — að hafa sverð okkar í slíðrum — að annar stjórnarflokkurinn telji sig hafa efni á því við þessar aðstæður að þjóna eingöngu lund sinni, að skrifa blaðagreinar og halda ræður um gæluverkefni sín eins og þau að troða okkur inn í Evrópusambandið. Er það til samstöðu fallið í íslenskum stjórnmálum í dag að Samfylkingin skuli ganga laus? Það er í raun og veru bara einn flokkur á Íslandi sem hegðar sér eins og stjórnarandstöðuflokkur, það er Samfylkingin, ekki við sem eigum þó að forminu til að heita í stjórnarandstöðu. Þetta undrar mig mjög satt best að segja. Við þurfum á öðru að halda en því að menn reyni inn í þetta viðkvæma ástand að troða hugðarefnum sínum, hver sem þau eru, af þessu tagi. Það er ekki viðfangsefnið nú í krísunni miðri þegar við reynum að lifa dag frá degi og bjarga því sem þarf að bjarga á hverjum einasta degi. Og ég hef mikinn skilning á stöðu forsætisráðherra við þær aðstæður — við höfum að undanförnu fundað daglega með honum og það er til bóta frekar en ekki neitt — að við þetta er ekki auðvelt að búa. Af hverju gengur ríkisstjórnin ekki fram samstillt og leggur deilumál til hliðar á sama tíma og við stjórnarandstæðingar reynum þó að leggja þar okkar af mörkum og verðum ekki sökuð um annað?

Það sem við þurfum að gera þegar við höfum unnið þær nauðsynlegu björgunaraðgerðir og samhliða þeim er að sameinast um, þannig að hafið sé yfir allar deilur, að setja rannsókn á þessum málum öllum í farveg. Þar þurfa margir að koma að verki, t.d. Ríkisendurskoðun sem við hlutuðumst til um að færi af stað á mánudaginn var. Það þurfa að koma menn til aðstoðar skilanefndunum sem geta farið yfir það hvað gerðist mánuðina og missirin á undan. Þess þarf að gæta að engir hagsmunir gangi undan þjóðinni, engin verðmæti sem hún á tilkall til. Hafi slíkir fjármunir verið fluttir til útlanda þarf að reyna að sækja þá og það á að bjóða öllum þeim sem kunna að eiga verðmæti á fullkomlega lögmætum forsendum erlendis og hafa auðgast á ástandinu undanfarin ár að koma heim og taka þátt í því af fúsum og frjálsum vilja að byggja þjóðfélagið upp. Ég skora á auðmenn Íslands sem kunna að eiga einhver verðmæti erlendis að koma nú með þau heim og hjálpa okkur við að byggja samfélagið upp. Geri þeir það ekki ættu þeir ekki að láta sjá sig mikið hérna á götunum.

Ég tel að um leið og við höfum róað ástandið niður og um leið og það er tímabært hljóti það að vera skylda okkar að leggja málin í dóm kjósenda, að sýna lýðræðinu þá virðingu að kosið verði nýtt Alþingi og mynduð ný ríkisstjórn. Það er algerlega óhugsandi að menn geti bara setið hver í sínu fleti eða sæti eins og ekkert hafi í skorist og treyst á að gleymskan leggi þeim líknandi hönd með því að draga það nógu lengi að bera ábyrgð á gerðum sínum. Það gengur ekki. Það er ekki lýðræðislegt, það er ekki þingræðislegt.

Stærsta verkefnið er að sameina alla krafta um að byggja landið upp, að fara í gegnum þetta og upp úr því og við höfum til þess alla burði. Það sem er mikilvægast er að mínu mati að forðast tvennt, forðast atvinnuleysi og forðast landflótta. Við megum ekki missa mannauðinn úr landi sem nú er að tapa störfum í fjármálageiranum og annars staðar í atvinnulífinu. Lærum af reynslu frænda okkar og vina, Færeyinga, sem hugsa nú hlýtt til okkar og senda okkur kveðjur. Þeirra versti óvinur upp úr kreppunni 1990 var landflóttinn, þeir misstu frá sér fjögur til fimm þúsund manns, að uppistöðu til ungt fólk, 10% Færeyinga flúðu land eða um það bil. Það væru 30–35 þús. Íslendingar og við þurfum ekki að hugsa það nema augnablik, við sjáum að þetta hlýtur að vera eitt mikilvægasta forgangsverkefnið. Við þurfum að virkja þennan mannauð og nýta hann í nýsköpun og þróun og þó að þröngt sé um fé eigum við nú að fjárfesta þannig í framtíðinni að þeim mannauði sem nú er að losna út úr öðrum störfum bjóðist tækifæri, stuðningur við að stofna ný fyrirtæki í sprotagreinum og öðru slíku. Það er óhemjumikilvægt að við drögum þetta ekki vegna þess að tíminn er naumur og fólk liggur nú á netinu í stórum stíl og skoðar atvinnutilboð út um allan heim, eðlilega og skiljanlega. Reynum að sjá til þess að sem flest störf verði í boði hér heima.

Það sem við þurfum umfram allt að gera er að endurreisa trúnaðartraust í þessu samfélagi milli stjórnmálalífs og þjóðarinnar, milli fjármálalífs og þjóðarinnar, atvinnulífs og þjóðarinnar og allra. Það gerum við ekki nema gera þessa hluti upp, axla ábyrgð, leyfa þjóðinni að velja sér nýja fulltrúa og mynda sér nýja ríkisstjórn.

Við skulum trúa á okkur sjálf og getu okkar sem sjálfstæðrar þjóðar í þessu dásamlega landi sem vel að merkja er okkur dýrmætara nú en nokkurn tíma fyrr. Þess vegna út í hafsauga með allar hugmyndir um að hjóla fram hjá lögum og rétti um íslenska náttúru. Ég segi eins og ung manneskja sagði á föstudaginn var: Ekki ræna okkur landinu okkar líka, er ekki búið að taka nóg frá okkur að undanförnu?

Pössum upp á Ísland og munið svo að lokum, góðir áheyrendur, að allt vald sprettur frá þjóðinni í lýðræðisríki.