136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:06]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Fordæmislaus fjármálaáföll sem hafa dunið yfir okkur Íslendinga á síðustu dögum koma við hvern einasta einstakling í landinu. Gríðarleg áhrif af því hruni sem varð í íslensku bankakerfi koma við okkur öll, valda okkur öllum búsifjum og tjóni, mismiklu, hvert á sinn hátt. Lánadrifinni ofsaþenslu síðustu ára lauk á nokkrum augnablikum með gríðarlegum afleiðingum og meginverkefni okkar á síðustu dögum og vikum hefur verið að ná utan um ástand sem gat orðið verra og alvarlegra en varð. Við vitum öll hvað hefði t.d. gerst ef greiðslukerfi bankanna hefði frosið, ef starfsemi bankanna innan lands hefði ekki haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist gagnvart fólkinu í landinu. Þetta tókst að gera með samstilltu átaki margra og það er hægt að fullyrða að á þeim erfiðu og löngu sólarhringum sem hafa gengið yfir íslenskt þjóðfélag undanfarið unnu margir Íslendingar víða í samfélaginu afrek. Þar lögðu margir hönd á plóg og þessu fólki verður seint að fullu þakkað.

Ég tek undir með þeim sem hafa mælt á undan mér að það er mikilvægt að hafa náið samstarf við Alþingi allt, stjórnarandstöðuna líka. Daglegir fundir forustumanna stjórnarandstöðunnar og forustumanna ríkisstjórnarflokkanna eru afskaplega jákvæðir hlutir og einungis upphafið að því að Alþingi allt mun koma að uppgjöri þessa máls. Það er alveg á hreinu.

Undanfarnir dagar hafa reynst okkur öllum þungir og þá er afskaplega vægt til orða tekið. Almenningur sýndi aðdáunarvert æðruleysi og hélt ró sinni í gegnum atburðina sem varð til þess að með samstilltu átaki, þrátt fyrir þessi gífurlegu og fordæmislausu áföll sem gengu yfir efnahagslíf okkar og fjármálakerfið þá gekk lífið samt sinn vanagang, sem betur fer. Við vitum öll hvaða upplausn hefði getað skapast ef almenningur hefði ekki tekið þátt í þessu, samstilltur með okkur af því að auðvitað voru margir hræddir. Auðvitað óttuðust margir um eigin hag og afkomu sína og sinnar nánustu fjölskyldu, að sjálfsögðu. Það greip okkur öll ótti í þessu ástandi en við héldum ró okkar öll sem eitt, almenningur, stjórnvöld öll, Alþingi allt og það er aðdáunarvert og það ber að þakka núna.

Það er hægt að fullyrða að aldrei í Íslandssögunni hafi annar eins brotsjór gengið yfir íslenskt viðskiptalíf og fyrir aðeins einum mánuði óraði engan fyrir því að örlög allra íslensku viðskiptabankanna yrðu með þeim hætti sem raunin varð. Það var einfaldlega veruleiki sem fáir ef nokkur gerði sér í hugarlund að gæti hafa gerst, nánast í einu vetfangi. Auðvitað hafa allt of margir tapað, allt of miklir fjármunir glatast út úr þjóðarbúinu, allt of mörg fyrirtæki berjast í bökkum og allt of mörg heimili eiga erfiðara nú en áður við að láta enda ná saman. Okkar stóra verkefni á næstu vikum og mánuðum, Alþingi og þjóðarinnar allrar, verður auðvitað að milda áhrifin af þessu mikla falli í fjármálaheiminum, milda áhrifin á almenning, slá skjaldborg utan um hagsmuni almennings, milda áhrifin á atvinnulífið í heild sinni og freista þess með öllum tiltækum ráðum að koma fyrirtækjum sem berjast í bökkum til hjálpar eins og við getum, eins og kostur er hverju sinni, til að koma í veg fyrir að enn þá fleiri lendi í erfiðleikum, að enn þá fleiri missi vinnu sína en nú þegar hefur gerst. Það er hægt að fullyrða að gríðarlegt verkefni blasir við ríkisstjórninni og Alþingi við þessar óvenjulegu aðstæður.

Þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður hefur ríkisstjórnin staðið þétt saman og unnið markvisst og skipulega í gegnum þetta erfiða og flókna ferli. Strax í upphafi var slegin skjaldborg utan um hagsmuni almennings og hafa aðgerðir ríkisstjórnar borið öll þess merki að þar voru almannahagsmunir í fyrirrúmi að öllu leyti og til þess voru neyðarlögin sett. Auðvitað er hægt að minna á að ríkisstjórnin tryggði sérstaklega í upphafi hagsmuni innstæðueigenda til að freista þess að koma í veg fyrir að áhlaup yrði gert á allt bankakerfið. Allar þessar aðgerðir eru forsenda þess að við getum siglt eins hratt og kostur er inn í nýja og betri tíma.

Við þetta má bæta að ríkisstjórnin beindi þeim tilmælum í gær til bankastofnananna þriggja og tilmælum til annarra, að frysta afborganir skulda á myntkörfulánum, sérstaklega húsnæðislána, þar til ró og jafnvægi kemst á gjaldeyrismarkaðinn. Það er von okkar að þannig komist skuldarar erlendra lána sem eru mörg þúsund, yfir erfiðasta hjallann og fái sanngjarna lausn mála sinna þar til gengi krónunnar kemst í jafnvægi. Hæstv. félagsmálaráðherra er einnig að skoða heildstætt aðrar leiðir til að mæta vanda annarra. Við ætlum að draga sem kostur er úr áhrifum þessara miklu og alvarlegu atburða á almenning alveg eins og við slógum skjaldborg utan um starfsemi íslensku bankanna þá sláum við skjaldborg utan um íslenskt samfélag allt.

Það er rétt að árétta að í öllu þessu ferli hefur verið reynt af fremsta megni að vanda til verka. Auðvitað er auðvelt að gagnrýna og finna misfellur þegar svo miklir hlutir eru unnir á svo miklum hraða. Við gerum einfaldlega okkar allra besta, allir sem að þessu máli koma, freistum þess að fá sem allra flesta í lið með okkur á hverjum tíma og vonandi getum við gert enn þá betur í framhaldinu.

Það er nauðsynlegt að árétta valdmörkin sem liggja á milli stofnana og aðila í þessu hraða ferli. Það voru settar skilanefndir yfir bankana um leið og fjármálaeftirlitið tók fyrir rekstur þeirra. Skilanefndirnar hafa síðan haft umsjón með þessu flókna ferli, þær kanna ofan í kjölinn hvernig eigna- og skuldastaða bankanna liggur, haga framvindu málanna þannig að almenningur beri sem allra minnstan skaða af, þær meta eignir, vernda eignir, koma eignum í verð í framhaldinu og í kjölfarið voru skipaðar bráðabirgðastjórnir yfir bankana, Landsbankann í síðustu viku og Glitni í dag. Með því er tryggt að þau flóknu umskipti sem nú fara fram gangi eins hnökralítið og snurðulaust fyrir sig og kostur er. Þess vegna er rétt að árétta að undanfarna daga hefur verið unnið gríðarlegt starf til að koma þessu öllu áfram, til að koma í veg fyrir að brestir verði á afgreiðslusviði bankanna og því fólki sem þar átti hlut að máli vil ég þakka sérstaklega.

Á næstu dögum verður gengið frá málum með bankana, í dag með Glitni og til að árétta sérstaklega þá eru bankaráðin eingöngu skipuð til bráðabirgða, til að tryggja hnökralausa yfirfærslu þarna á milli og verða í framhaldinu, vonandi eftir örfáa daga, eingöngu og algerlega skipuð á faglegum forsendum og þar verður í engu farið eftir úreltum helmingaskiptasjónarmiðum liðinnar aldar. Enda hefur það ávallt verið skýr stefna okkar að berjast gegn hvers kyns leynimakki og vinveittum stöðuveitingum á vegum hins opinbera og við munum hafna uppbyggingu á hvers konar fyrirgreiðsluverksmiðjum. Ég fullyrði að við munum kappkosta að finna hæfasta og besta fólkið til að taka þessi verkefni að sér.

Það vita allir sem hafa fylgst með umræðunum upp á síðkastið að nú eru uppi viðræður af hálfu lífeyrissjóðanna við skilanefnd Kaupþings, um að taka yfir eða kaupa hlut af þeim rekstri. Seinni partinn í gær eða í dag kom tilboð frá lífeyrissjóðunum þangað inn og viðræður standa yfir milli aðila um það mál. Við vitum ekki núna hvernig það fer en það vita allir að það væri miklu af okkur öllum létt ef einn banki væri í rekstri annarra en ríkisins. Við sjáum hvernig þessu vindur fram og hvernig tilboðið lítur út.

Undanfarna daga höfum við séð betur en nokkru sinni fyrr hvernig fjármálalegur stöðugleiki getur farið úrskeiðis á skömmum tíma og það er brýnt að ríkisvaldið tryggi það til framtíðar að fjármálalegum stöðugleika á Íslandi verði aldrei aftur teflt í tvísýnu. Það er einn af meginlærdómunum sem við þurfum að draga af þessu og þar hljótum við að sjálfsögðu að líta til eignarhalds á íslenskum bönkum í framtíðinni.

Að sama skapi hefur þessi mikli umbrotatími kennt okkur, auðvitað með gríðarlega kostnaðarsömum og alvarlegum hætti, að félagsleg samstaða og lýðræðislegir stjórnarhættir eiga að vera meginstoðir alls staðar í samfélaginu. Þannig má segja að núna fari í hönd nýir tímar með nýju gildismati. Tími ofurlaunanna er liðinn og við taka nýir tímar með félagslegum, sanngjörnum og siðferðilegum undirstöðum.

Það er mjög mikilvægt, eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi áðan, að fram undan sé og fari fram hispurslaust uppgjör við fortíðina og aðdragandann að þessu máli öllu saman. Að því uppgjöri er mjög mikilvægt, að mínu mati, að Alþingi og allir flokkar komi. Það hispurslausa og heiðarlega uppgjör er grundvöllur endurreisnar að nýju, að betra og sanngjarnara Íslandi. Það er mikilvægt fyrir þjóðfélagið og almenning í landinu og öll íslensk fyrirtæki að nota tækifærið og draga lærdóm af reynslunni, skoða hvernig málum var háttað og af þessum sökum er það algert lykilatriði að uppgjörið fari fram. Þar verða öll spil lögð á borðið, engum hlíft og engum skotið undan. Þar verður litið til allra átta. Við drögum ekki fram neina sökudólga fyrir fram. Við förum einfaldlega heiðarlega í gegnum málið allt. Slík rannsókn er forsenda þess að við Íslendingar og þjóðfélag okkar geti lært af reynslunni og jafnframt notað þessa bitru reynslu til að efla jöfnuð hjá okkur, félagslegar framfarir og fjármálalegan stöðugleika. Það er einnig brýnt að almenningur í landinu geti treyst því að fram komi með skýrum hætti hvernig framvinda og aðdragandi allra þessara mála var. Þannig og aðeins þannig verður hægt að endurvinna það traust sem nauðsynlegt er og hefur beðið hnekki á meðal almennings og ýmissa máttarstoða í þjóðfélaginu. Í framhaldi af því munum við svo að sjálfsögðu endurskoða allt okkar regluverk, fjármálaumhverfið og þannig standa vörð um okkar öfluga velferðarkerfi.

Það er trú mín, virðulegi forseti, að þrátt fyrir allt, þrátt fyrir þá erfiðleika sem ganga núna yfir íslenskt þjóðfélag og íslenskt viðskiptalíf, yfir allt samfélagið, þá muni Íslendingar rísa með undraverðum hraða upp að nýju og ná sínum fyrri styrk. Við munum ná okkar fyrri styrk og við munum gera miklu betur, miklu fyrr en margir halda nú þegar þessi áföll ganga yfir okkur. Okkur mun ganga vel að vinna okkur út úr þessu. En til þess að það verði mögulegt þá er höfuðatriði að við leggjum öll spil á borðið og förum heildstætt yfir málið allt. Atburðir síðustu daga hafa sýnt okkur hvernig við verðum að gera betur á svo mörgum sviðum og þar verðum við að líta til allra átta. Við munum rísa upp sterkari en nokkru sinni fyrr. Það var mikið verk að ná utan um afleiðingar af falli bankanna. Við þurfum að greiða úr þeirri stöðu. Það er langt frá því að því verki sé lokið. Þar er mikið verkefni fram undan fyrir Alþingi. Við munum slá skjaldborg utan um hagsmuni Íslendinga allra. Svartasti kaflinn er vonandi og örugglega að baki. Nú tekur við tími endurreisnar, uppbyggingar, auðvitað uppgjörs líka eins og við höfum talað um í dag. Það liggur endurreisninni algerlega til grundvallar, en við munum byggja upp nýtt, betra og réttlátara samfélag eftir þessi áföll öll.