136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:03]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Á undanförnum dögum hafa stjórnvöld þurft að glíma við ótrúlegar aðstæður og óvænta erfiðleika sem ég býst við að fæst okkar muni upplifa á nýjan leik. Ég vil segja að þessa daga finnast mér þeir tveir ráðherrar sem málið hefur mest hvílt á, hæstv. forsætisráðherra og viðskiptaráðherra, hafa staðið sig vel í störfum sínum, komist vel frá verkum, og það er ástæða til að vekja athygli á því og þakka þeim fyrir framgöngu þeirra.

Ég er sammála því sem fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra að huga beri alvarlega að því að skoða möguleikana á lögsókn í Bretlandi á hendur breskum stjórnvöldum fyrir framferði þeirra, bæði gagnvart Landsbankanum og Kaupþingi. Sú framkoma var ótrúleg og engu lagi lík og sæmir ekki þjóð sem vill kalla sig vinaþjóð okkar Íslendinga. Mér finnst meiri mannsbragur á því að bregðast við framkomu Gordons Browns og Alistairs Darlings með þessum hætti en hinu að nota þessar aðstæður til þess að tala fyrir því að Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið í ljósi þess sem við vitum öll, að jafnvel þó að við hefðum verið komin í Evrópusambandið og haft evruna hefðum við eftir sem áður staðið ein á báti. Vandi okkar hefði verið sá sami og niðurstaðan sú sama, að skuldir íslenska bankakerfisins voru margfalt meiri en íslenska ríkið gat ábyrgst. Hver ríkisstjórnin á fætur annarri í Evrópusambandinu hefur lýst því yfir að hún ábyrgist bankakerfi sitt en engin þeirra, svo að ég viti til, hefur lýst því yfir að hún taki ábyrgð á bankakerfi annars ríkis, hvort sem það er í Evrópusambandinu eða Evrópska efnahagssvæðinu.

Mér fannst, virðulegi forseti, að hæstv. félagsmálaráðherra gengi fram með yfirlýsingu sem er algjört nýmæli, hún lýsti því í raun yfir að stjórnarsáttmálinn væri úr gildi fallinn, aðstæður hefðu breyst svo mikið að ákvæði í honum ættu ekki lengur við og nú ætti ríkisstjórnin að söðla um, þótt ekki væri um það samið á milli stjórnarflokkanna, og sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Við vitum hvað í því felst, þá opnum við fiskveiðilögsögu okkar aftur upp í 12 mílur fyrir Breta. (Gripið fram í.) Viljum við gera það fyrir Breta í staðinn fyrir það sem þeir hafa gert okkur? Við vitum að við opnum fyrir það að breski ríkissjóðurinn og bresk fyrirtæki geti keypt hér upp útvegsfyrirtæki og fiskveiðiheimildir og nýtt þær á þann hátt sem þeim sýnist. Finnst einhverjum hér líklegt að þeir muni setja íslenska hagsmuni ofar sínum eigin? Við vitum það, hæstv. forseti.

Það sem við vitum ekki er hvað þeir vilja sem tala fyrir því að við göngum inn í Evrópusambandið. Vill Samfylkingin ganga að sjónarmiðum Evrópusambandsins, sem eru þekkt, eða setur hún einhver samningsmarkmið af sinni hálfu í þessu efni? Vill varaformaður Framsóknarflokksins ganga að sjónarmiðum Evrópusambandsins eða setur hún einhverja fyrirvara og skilyrði fyrir því að samningar geti tekist? Það kom ekki fram, það var enginn fyrirvari um það hjá þeim sem nú hafa fjallað um málið. Ég hlýt að álykta sem svo að þau séu sammála stefnunni sem Evrópusambandið hefur í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að hefja endurreisnarstarfið. Þungamiðjan í því hlýtur að hvíla á Seðlabanka Íslands. Við erum í þeirri stöðu að annar stjórnarflokkurinn hefur lýst yfir vantrausti á aðalbankastjóra Seðlabankans. Ég fæ ekki séð hvernig ríkisstjórnin á að geta fylgt fram stefnu sinni með trúverðugum hætti til að endurreisa íslenskt atvinnulíf öðruvísi en að á bak við þá sem þeirri stefnu eiga að fylgja, og sem þeir setja fram af hálfu Seðlabankans, ríki fullkomin eining. Menn verða að greiða úr því vantrausti áður en lengra er haldið, virðulegi forseti. Ég vona og tek undir það með hv. formanni Framsóknarflokksins að á þessum dögum þýðir ekki að henda mönnum úr bátnum þegar við erum í brimlendingunni. Það verður að láta áhöfnina ná landi (Forseti hringir.) áður en menn huga að því.