136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

aðgerðir til aðstoðar bændum.

[10:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég býst ekki við að hv. þingmaður hafi gert ráð fyrir því að ég gæti svarað öllum þessum spurningum á tveimur mínútum en almennt um stöðu bænda er það alveg rétt að hún er alvarleg. Að hluta til er þar um að ræða sömu vandamál og við er að glíma almennt í efnahagslífi þjóðarinnar og hjá atvinnulífinu almennt, m.a. vegna mikillar lækkunar gengis og vegna hárra vaxta. Stóra verkefnið er þess vegna að koma á gjaldeyrisviðskiptum sem mundu leiða til þess að gengi krónunnar geti styrkst og það eru auðvitað allar forsendur til þess. Við erum að flytja mjög mikið út og innflutningurinn er miklu minni en svarar útflutningnum. Hér eru allar forsendur til þess að gengið geti styrkst að nýju. Þegar hefur verið stigið fyrsta skrefið í þá átt með ákvörðun Seðlabankans í gær um lækkun vaxta. Ég fagna því og tel að við hljótum að sjá frekari skref fram undan í þeim efnum sem munu þá draga úr fjármagnskostnaði bænda.

Ég var á fjölmennum bændafundi í vikunni þar sem mjög vel kom fram að það eru ekki síst þessir fjármagnsliðir sem valda miklum erfiðleikum í búrekstrinum og þess vegna er stóra verkefnið að ná utan um það. Til viðbótar við þetta get ég nefnt tvennt: Við höfum þegar í samstarfi við Bændasamtökin óskað eftir viðræðum við hinn nýja Landsbanka og Landsbankinn er auðvitað í þeirri sérstöku stöðu að hafa keypt á sínum tíma Lánasjóð landbúnaðarins. Því má ætla að talsverður hluti skulda landbúnaðarins séu þar inni og auðvitað eru forsendur til að ræða við Landsbankann af þeim ástæðum.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því að landbúnaðurinn er í þeirri sérstöðu að þar er um að ræða blandaðan rekstur bús og heimilis og þess vegna þarf sérstaklega að skoða möguleika á frystingu lána hjá landbúnaðinum. Það liggur fyrir vilji til að frysta afborganir af húsnæðislánum, eins og fram hefur komið, en þarna þarf sérstaklega að hyggja að stöðu landbúnaðarins.

Í þriðja lagi vegna spurninga hv. þingmanns vil ég segja að það hefur þegar verið gerð gangskör að því að úttekt á stöðu bændanna geti farið fram þannig að við gerum okkur enn þá betri grein fyrir hvert vandamálið er, hver stærðargráðan er og af hvaða toga það er.