136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

aðgerðir til aðstoðar bændum.

[10:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Eftir þessa ræðu veit ég ekki hvaða tilgangi það þjónar í sjálfu sér að svara hv. þingmanni því hann hlustar ekki neitt á það sem ég er að segja. Ég rakti á þessum tveimur mínútum allmörg atriði sem verið er að vinna að í ráðuneytinu með Bændasamtökunum. Við höfum átt fundi með forustumönnum bændanna til að fara yfir þessi mál og það er alger samhljómur í vinnu okkar í þeim efnum. Það liggur fyrir að við gerum okkur grein fyrir alvöru málsins. Það er einfaldlega rangt hjá hv. þingmanni að þessi mál séu ekki í forgangi. Þau eru í forgangi og þetta eru þau mál sem hafa verið í forgangi hjá ríkisstjórninni undanfarna daga, þ.e. að reyna að ná tökum á efnahagslífinu til þess að reyna að koma til móts við þarfir landbúnaðarins líka. Eins og aðrar atvinnugreinar lýtur landbúnaðurinn auðvitað tilteknum lögmálum sem við erum að reyna að takast á við.

Hv. þingmaður sagði að það þyrfti að hækka afurðaverð til bænda. Hv. þingmaður hefur greinilega ekki fylgst með fréttum. Í gær náðist samkomulag í verðlagsnefnd búvara um rúmlega 10% hækkun á mjólk til bænda og afurðastöðva. Það tókst sem betur fer í góðu samkomulagi fulltrúa neytenda og afurðastöðvanna og bændanna en hv. þingmaður vill greinilega ekki hlusta. Hann vill reyna að halda fram einhverjum ranghugmyndum sem þjóna lund hans og málstað en hlustar ekki á það sem verið er að segja.