136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

vísitöluhækkun lána.

[10:53]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir svörin. Ég veit að henni og ríkisstjórninni er umhugað um að létta byrðina af fjölskyldum í landinu og reyndar öllum þeim sem skulda og ég er ánægður með þær aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í.

En varðandi það að hræra í vísitöluútreikningnum þá er ég bara að horfa til þess að við munum á meðan hamfarirnar ganga hér yfir fá inn vísitölu sem er ekki raunveruleg miðað við það sem verður þegar fram í sækir, þ.e. af því að fasteignaverðið er ekki komið inn með þeim hætti sem við komum til með að sjá eftir tvo þrjá mánuði. Matvælaverð kemur til með að vera miklu hærra í vísitöluútreikningnum núna en þegar gengið verður orðið rétt skráð eða í það minnsta réttara skráð. Ég er ekki að biðja um neinar blekkingar svo það sé undirstrikað við þingheim.