136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

staða sjávarútvegsins.

[10:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður verður að virða mér það til vorkunnar að ég er ekki með þessi svör á takteinum þannig að ég geti svarað þessu af öryggi vegna þess einfaldlega að þessir hlutir breytast mjög hratt núna og hér um bil dag frá degi, m.a. vegna þeirrar óvissu sem er á gengismarkaðnum. Og ég held því að svar á þessari stundu mundi ekki þjóna mjög miklum tilgangi. Bráðabirgðauppgjör sem við höfum aðgang að liggja ekki endanlega fyrir. Hins vegar liggur fyrir spurning af þessu tagi frá hv. flokksbróður hv. þingmanns, Kristni H. Gunnarssyni, sem ég geri ráð fyrir að verði svarað þannig að það ætti að geta svarað þessu að einhverju leyti.

Við vitum að þrátt fyrir allt þá hefur framlegðin í sjávarútveginum verið góð og hún hefur verið vaxandi. Það er líka athyglisvert ef við berum saman t.d. heildarútflutningstekjur á síðasta fiskveiðiári og fiskveiðiárinu þar á undan að þá jukust þær á milli ára. Og ef við skoðum þorskinn sérstaklega þá hefur þetta líka gerst þar, bæði vegna hækkandi afurðaverðs og líka vegna þess að gengið hefur verið að veikjast.

Hins vegar er ljóst mál að í því ástandi sem nú er hefur þessi mikla gengislækkun haft þau neikvæðu áhrif að skuldirnar hafa verið að aukast. Við vitum líka að efnahagsreikningur fyrirtækja í landinu, ekki bara sjávarútvegsfyrirtækja heldur flestra annarra fyrirtækja, er mjög slæmur vegna þess að lækkun gengisins hækkar skuldirnar tímabundið en auðvitað er það þá stóra verkefnið að breyta þessu þannig að gengið styrkist að nýju og þar með breytist skuldastaða sjávarútvegsins.

Aðalatriðið er þó að við reynum að koma ró á. Það er hins vegar óneitanlega þannig að þrátt fyrir þessa erfiðleika hefur framlegðin og þar af leiðandi rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna gengið bærilega. Vandamálið núna er hins vegar það að gjaldeyrisviðskiptin eru ekki í lagi. Menn ná ekki heim sínum tekjum og það veldur auðvitað miklum vandræðum í rekstri sjávarútvegsfyrirtækjanna, veldur því m.a. að þau gætu farið að eiga í erfiðleikum með að greiða reikninga sína. Nú er unnið að því hörðum höndum að reyna að ráða bót á þessu og ég trúi því að það muni gerast á allra næstu dögum.