136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

álver á Bakka.

[11:06]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil leggja ríka áherslu á að ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að draga úr hraða framkvæmda fyrir norðan og ég framlengdi viljayfirlýsingu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar vegna þess að allt í fyrri yfirlýsingunni hafði verið uppfyllt, nema tiltekin mál sem tengdust Alcoa. Sveitarfélögin og ríkisvaldið höfðu staðið við sitt. Það verður að liggja ljóst fyrir.

Ég er ekki algerlega sammála áherslum sem komu fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að við þessar aðstæður leiti menn ráða til að styrkja gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar eins og stóriðju. Kanna þarf hvort hægt sé með einhverjum hætti — eins og ríkisstjórnin hefur gert og ég lýst — að greiða úr misskilningi sem kom upp um Bakka. Það höfum við gert. En ekki kemur til greina að ætla að víkja frá alþjóðlegum samningum eða landslögum.